19. júní. Bríet Bjarnhéðinsdóttir. Blóm.

Ágæta samkoma

Nú færum við Bríeti blóm. Þannig heiðrum við minningu hennar og þökkum fyrir það sem hún og samferðakonur hennar lögðu af mörkum til að við gætum haldið baráttunni áfram.

Þetta er í fimmta skiptið sem við færum Bríeti blóm sem þakklætisvott frá Reykvíkingum – og þriðja skipti sem mér hlotnast sá heiður að leggja hann hér. Það er auðvitað sérlega hátíðlegt að vera hér í dag, á sjálfu aldarafmælinu.

Ég hef samt oft velt því fyrir mér hvað Bríeti myndi þykja um þessa athöfn. Ætli hún fylgist einhvers staðar með –  full af stolti – eða þætti henni kannski tíma okkar betur varið með öðrum hætti?

Því er svo sem ekki auðsvarað – en til öryggis er rétt að geta þess að í Ráðhúsinu í dag verður dagskrá á vegum ungra femínista undir yfirskriftinni “Engin helvítis blóm” – hvað sem Bríeti kann að hafa þótt um slíka orðanotkun.

Blóm eða ekki blóm? –Að vera eða ekki vera? –Hvað er það sem þessir femínistar vilja eiginlega? –Er nema von að fólk spyrji? –Sér í lagi þegar hátíðarhöldin snúast bæði um skrúðgöngur og mótmælagöngur, um blóm og ekki blóm, um kórasöng og rapp og pöbbkviss og fóstureyðingsögur og stórtónleika og ávörp – og í raun allt milli himins og jarðar?

Hin margslungnu hátíðarhöld eru til marks um margbreytileika kvenna sem allar leggja sitt af mörkum – hver með sínum hætti. –Sterkar, hugrakkar og kraftmiklar konur sem þora geta og vilja.

Þess vegna verð ég að segja – að hugtakið fórnarlambsvæðing, sem er sem æ oftar kemur upp í umræðunni – er mögulega versta hugtak í heimi.

Að tala um að femínisminn fórnarlambsvæði konur – að segja konum að vera eki svona kvartandi og kveinandi – að vera ekki stöðugt að tala um misrétti og hvað þær eigi bágt – er fullkominn misskiliningur á stöðu og aðstæðum kvenna – og kvennabaráttunni í heild sinni.

Þannig er það – sama hvað hver segir. Konur sem benda á misrétti og krefjast breytinga eru hugrakkar og sterkar. Konur sem segja frá reynslu sinni af ofbeldi er hugrakkar og sterkar. Konur sem neita að láta mismuna sér eru hugrakkar og sterkar. Þær eru ekki fórnarlömb, þær biðja ekki um vorkunn, þær biðja ekki um hjálp. Þær eru gerendur – þær breyta.

Framganga þessara kvenna snýst einmitt um að hafna fórnarlambshlutverki í kynjuðu samfélagi – og krefjast breytinga.

Ágæta samkoma.

Þessi krans er handa sterkri konu. Konu sem var umdeild og óþægileg fyrir íhaldssamt og kynjað samfélag – konu sem breytti. Hann er líka smá handa konunum sem vilja engin blóm án þess að ég ætli að segja þeim frá því – og hann er líka handa okkur hinum sem viljum bæði byltingar og blóm.

Í dag fögnum við hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna. Baráttunni er hvergi nærri lokið. Sterkar konur halda áfram með og án blóma. Einn góðan veðurdag munum við svo vonandi fagna raunverulegu jafnrétti. Fyrr gefumst við ekki upp.

Til hamingju með daginn – með árin hundrað – til hamingju kjark, dug og þor. Áfram stelpur.

Ávarpið var flutt við leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur 19. júní 2015.