17. júní. Jón Sigurðsson. Beauty tips.

Gleðilega þjóðhátíð.

Það er mér sannur heiður að fá að leggja krans á leiði Jóns Sigurðssonar. Hann er tákn um þakklæti Reykvíkinga til hans og samferðafólks hans sem tryggði sjálfstæði okkar Íslendinga.

Í dag fögnum við sjálfstæði og gleðjumst yfir lýðræðislegum réttindum. Á okkar hátt, hvert og eitt.  Fjölbreytt dagskrá er í boði fyrir okkur öll en við getum að sjálfsögðu hannað okkar eigin. Í dag hefur hópur fólks kosið að nýta sín lýðræðislegu réttindi og koma pólitískum skilaboðum til stjórnvalda.

Þannig er lýðræðislegt samfélag. Svona er Reykjavík. Fjölbreytt samfélag einstaklinga með ólíkar skoðanir sem kjósa að verja þjóðhátíðardeginum með ólíkum hætti rétt eins og öllum öðrum dögum.

En ágæta samkoma. Okkar sjálfstæða og að mörgu leyti góða lýðveldi er ekki fullkomið og ég væri hvorki sjálfri mér né Jóni Sigurðssyni trú ef ég stæði hér til þess eins að mæra samfélagið. Lýðræðið krefst stöðugrar rýni og þróunar enda verður það aldrei fullkomnað.

Í dag er lýðveldið 71 árs og eftir tvo daga hafa konur haft kosningarétt í 100 ár. Það er sannarleg fagnaðarefni, rétt eins og sú staðreynd að hvergi mælist meira jafnrétti í heiminum en hér á Íslandi. Enn er þó langt í land. Á Íslandi er kynbundinn launamunur, það hallar á konur í stjórnmálum, í fjölmiðlum og í atvinnulífi og kynbundið ofbeldi er daglegt brauð.

Þessu þarf að breyta. Jón barðist ekki fyrir stöðnun ekki frekar en konurnar sem nú krefjast breytinga í gegnum Beauty tips byltinguna. Í frjálsu og lýðræðislegu samfélagi verða konur og karlar að standa jafnfætis. Ekki bara að forminu til, heldur líka í atvinnulífi og stjórnmálum að ekki sé talað um einkalífið.

Í raun má segja að ofbeldislaust samfélag sé forsenda lýðræðis. Virk þátttaka krefst þess að fólk, konur jafnt sem karlar, geti óttalaus gert það sem þeim sýnist, sagt það sem þeim sýnist og haft áhrif þá og þegar þeim sýnist – bæði í einkalífi eða á vettvangi hins opinbera.

Brýnasta verkefni samfélagsins í dag er að tryggja frið og öryggi. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra. Við getum tryggt frið sem einstaklingar með því að koma fram hvert við annað af nærgætni og virðingu. Grasrótarsamtök og fylkingar skapa samstöðu, valdeflingu og hugarfarsbreytingu og stuðla þannig að friði og öryggi. Stjórnvöldum ber svo að bregðast við kröfunni með réttarbótum og forvarnarstarfi. Þannig getum við í sameiningu útrýmt kynbundnu ofbeldi og skapað forsendur fyrir raunverulega lýðræðislegri þátttöku okkar allra.

Um leið og þessi krans er þakkætisvottur til Jóns Sigurðssonar fyrir baráttu hans vil ég tileinka hann stelpunum okkar sem nú eru að berjast, Beauty tips byltingunni og framtíðarhetjum lands og þjóðar sem krefjast þess að við hlustum, breytum og bætum.

Til hamingju með daginn. Gleðilega þjóðhátíð.

Ávarpið var flutt við leiði Jóns Sigurðssonar 17. júní 2015