Ofurhetjur og kvikmyndir

Ágæta samkoma.

Mikið er gaman að fá að vera hérna með ykkur í dag og fá að taka þátt í ofurhetjuþema. Sjálf valdi ég mína uppáhalds ofurhetju og uppáhalds sögupersónu – Línu langsokk.

Þegar boðið barst átti ég fróðlegar umræður við börnin mín um ofurhetjur. Ég vildi vera Lína – en sonur minn átti erfitt með að skilgreina hana sem ofurhetju. Hann setti það skilyrði að ofurhetjur björguðu fólki úr hættu. Ég vil meina að Lína hafi aldeilis gert það – hún bjargaði Önnu og Tomma frá því að drepast úr prúðmennsku og leiðindum – hún lék á ræningja og löggur og barnaverndarfulltrúa sem ætluðu að senda hana á hæli.

En fyrst og fremst bjargaði Lína sjálfri sér. Þessi litla umkomulausa stelpa sá um sig sjálf – hún naut lífsins og gerði það besta úr aðstæðum sem margir myndu telja mjög slæmar.

Lína er svo sannarlega ofurhetja í mínum huga – og það sagði ég syni mínum.

Sextán ára dóttir mín var aftur á móti á því að ég þyrfti engan búning. Fyrir henni væri ég ofurhetja á hverjum degi. Ég kaus að heyra ekki kaldhæðnina í málrómnum – og velti því alls ekki fyrir mér hvort þetta væri sagt til að hún þyrfti ekki að skammast sín fyrir miðaldra móður í ofurhetjubúningi. –Og hversu einlæglega sem hún meinti það að ég væri ofurhetja hversdagsins – og hvort sem ég stend undir því eða ekki – að þá er ljóst að við getum leikið okkur með skilgreiningar á ofurhetjum eins og okkur sýnist.

Auðvitað erum við öll hetjur – með einum eða öðrum hætti. Við höfum öll glímt við vandamál – við höfum öll tekist á við erfið viðfangsefni. Hvort sem það hafa verið erfið skólaverkefni – erfið samskipti við vini eða fjölskyldur – slys eða áföll – eða hvort við höfum gert eitthvað til að vera góð við aðra – bjarga þeim frá leiðindum, sorg eða sársauka – við höfum öll verið hetjur á einhverjum tímapunkti.

Ofurhetjur kvikmyndanna eru skemmtileg fyrirbæri sem gleðja, efla og styrkja. Sumar eru mjög ýktar og fást við mjög ýkt verkefni – aðrar eru venjulegri sögupersónur – venjuleg börn eða unglingar eða fullorðnir og hafa enga yfirnáttúrulega hæfileika. Allar eru þær fyrirmyndir – sem hvetja okkur til að takast á við vandamál og viðfangsefni lífsins eftir bestu getu.

Kvikmyndir geta byggt á ævintýrum og raunveruleika – stundum annað hvort – stundum bland. Þær geta innihaldið ýktar ofurhetjur eða hversdagslegar sögupersónur – en hvort heldur sem er geta þær glatt okkur og elft okkur og styrkt okkur. Kvikmyndir eru mikilvægur hluti af menningunni okkar og geta tekist á við mikilvæg viðfangsefni samfélagins á áhrifaríkan hátt.

Það er mér sannur heiður að fá að vera hér við setningu barnakvikmyndahátíðar sem forseti borgarstjórnar – og sér í lagi barnamenningarhátíðar með friðarþema og áherslu á fjölmenningu, kynvitund, líkamsvirðingu og skapandi og gagnrýna hugsun.

Fyrir hönd Reykjavíkurborgar vil ég þakka skipuleggjendum hátíðarinnar fyrir mikilvægt framlag í þágu barnamenningar og mannréttinda í borginni – og hlakka til að fá að taka þátt í því sem framundan er.

Gleðilega hátíð!

Ávarpið var flutt við setningu barnakvikmyndahátíðar 19. mars 2015.