Kynbundið ofbeldi

Allt ofbeldi er hræðilegt. Slagsmál, stríð, einelti, andlegt og líkamlegt ofbeldi af öllum toga – allt er þetta hræðilegt og ömurlegt og mannkyninu til minnkunar. Ofbeldi er aldrei lausn á neinum vanda – þvert á móti veldur það vanlíðan og togstreitu fyrir einstaklinga og samfélög og eykur þannig á vanda heimsins – rétt eins og hann sé ekki nægur fyrir.

Til eru margar tegundir af ofbeldi, rætur þess má rekja til ólíkra þátta, ýmist hjá einstaklingum eða samfélögum.

Kynbundið ofbeldi er fyrst og fremst samfélagsmein. Því er vissulega beitt af einstaklingum og það bitnar á einstaklingum, en það á rætur sínar að rekja til samfélagsgerðarinnar. Og um leið og hægt er rekja kynbundið ofbeldi til samfélagsgerðarinnar – þá á það sinn þátt í að viðhalda samfélagsgerðinni – kynbundið ofbeldi er vítahringsfyrirbæri.

Kynbundið ofbeldi er á rætur sínar að rekja til menningar þar sem karlar og konur standa ekki jafnfætis. Það er afleiðing menningar sem skiptir eiginleikum, áhugamálum og hæfileikum í karllægt og kvenlægt, menningar sem metur það karllæga meira en það kvenlæga.

Kynbundið ofbeldi þrífst í menningu sem hlutgerir stelpur og konur – þar sem konum er ætluð prúðmennska og passívitet á meðan körlum er ætlað að taka sér pláss og fá sér það sem þeir vilja – að ekki sé talað um að þeim sé ætluð óseðjandi og stjórnlaus kynorka. Væntingar til stelpna og stráka – kvenna og karla – eru ósanngjarnar og óraunhæfar – þær skaða okkur öll og þær eru rótin að samfélagi þar sem kynbundið ofbeldi grasserar sem aldrei fyrr.

Stundum finnst mér ég vera orðin gömul – og stundum er það bara gott.

Ég man þegar femínískar kenningar um kynbundið ofbeldi áttu ekki upp á pallborið. Ég man þegar best þótti að kenna persónulegum brestum einstaklinga um gjörðir þeirra – í mesta lagi uppeldi og uppvaxtarskilyrðum. Ég man þegar samfélagsgerðin var fríuð allri ábyrð.

Í dag er öldin önnur – og aldeilis betri þegar kemur að þekkingu á ofbeldi, uppruna þess og afleiðingum – þar hefur aldeilis orðið jákvæð þróun, þó margt hafi breyst til hins verra eins og ég mun koma inn á hér á eftir.

Auðvitað þykir enn mörgum nóg um. Ég efast ekki um að einhverjum hafi þótt ég taka fullsterkt til orða nú þegar – en það verður að hafa það. Ég hef ekkert sagt sem ekki hefur verið kvittað uppá af opinberum stofnunum og fagaðilum sem vinna í málaflokknum.

Femínískar kenningar eru löngu viðurkenndar – þær eru notaðar af Sameinuðu þjóðunum – íslensk lög byggja á þeim, sem og flestar þær stofnanir og sérfræðingar sem vinna að málaflokknum hér á landi.

Í yfirlýsingu um afnám ofbeldis gegn konum frá 1993 er kynbundið ofbeldi skilgreint sem “ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga kvenna, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.”

Í sömu yfirlýsingu er byggt á sömu samfélagsgreiningunni og áður var lýst – um stigskipta tvíhyggju:

“Alsherjarþingið  viðurkennir að ofbeldi gagnvart konum er staðfesting á aldagömlu valdamisvægi kynjanna er leiddi til drottnunar karlmanna og mismununar gagnvart konum og hindraði öfluga framsókn kvenna – og að ofbeldi gagnvart konum er einn af þeim grundvallarþáttum í samfélaginu er leiðir til þess að konur eru settar skör lægra en karlmenn – hefur áhyggjur af því að sumir hópar kvenna, til dæmis konur í minnihlutahópum, innfæddar konur, flóttakonur, farandkonur, konur er búa í sveitum eða einangruðum samfélögum, blásnauðar konur, konur á stofnunum eða í fangelsum, stúlkur, fatlaðar konur, eldri konur og konur á stríðstímum, eru einkum beittir ofbeldi.”

Íslensk lög skilgreina kynbundið ofbeldi með svipuðum hætti.

Sumsé: Kynbundið ofbeldi er ofbeldi sem konur verða fyrir, kynferðis síns vegna.

Og svo það sé sagt, þá eru vissulega til karlar sem verða fyrir obeldi og konur sem beita ofbeldi – og það eru til pör eða sambönd sem ekki falla að kenningum kynjafræðinnar – þau dæmi eru alveg jafn alvarleg og hin – en þau eru undantekning, ekki regla og ég mun halda mig við femíníska greiningu á vandanum héðan í frá.

Ég man ekki til þess að hafa oft rökstutt umræðuefni hér í pontu – og auðvitað á ég ekki að þurfa að rökstyðja ástæðu þess að kynbundið ofbeldi hefur verið sett á dagskrá hér í borgarstjórn.  Ég ætla engu að síður að gera það – eða öllu heldur benda á mikilvægi þess að við lítum á kynbundið ofbeldi sem pólitískt viðfangsefni – að þeð sé hér til umræðu rétt eins og aðrir þeir hlutir sem borgaryfirvöld telja ástæðu til að hafa áhrif á – uppá gott og vont.

Kynbundið ofbeldi sem samfélagsleg meinsemd er að sjálfsögðu eitthvað sem við eigum öll hér inni að beita okkur gegn – það er hægt að gera með fjölbreyttum aðferðum á öllum sviðum borgarinnar – því í raun og veru er kynbundið ofbeldi bara ein af birtingarmyndum misréttis kynjanna – hún er ljótasta birtingarmyndin – hún er til marks um mikilvægi þess að við beitum okkur gegn öðrum og léttvægari birtingarmyndum.  Ef okkur er alvara – þá verðum við að uppræta staðalmyndir – gefa börnum tækifæri á að rækta með sér hæfileika og áhugamál óháð fyrirframgefnum stöðluðum hugmyndum samfélagsins – þá verðum við að mennta börn til gagnrýnnar hugsunar – þá verða öll svið og allar stofnanir að stuðla að fjölbreyttum tækifærum stelpna og stráka og karla og kvenna og þá verðum við að útrýma kynbundnum launamun. Þá verðum við líka að bjóða upp á þjónustu sem stuðlar að jafnari tækifærum beggja foreldra og svona gæti ég haldið áfram í allan dag.

Og kynbundið ofbeldi er ekki eitthvað smotterí – eitthvað séráhugamál mussukellinga eða vandamál sem þolendur verða að glíma við. Kynbundið ofbeldi hefur áhrif á líf okkar allra með beinum eða óbeinum hætti – enda benda rannsóknir til þess að allt að 40% kvenna, 16 ára og eldri, hafi orðið fyrir ofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni. Allar þessar konur eiga fjölskyldu og vini – sem ofbeldið mun jafnframt hafa áhrif á. Klámiðnaðurinn, vændi og tilheyrandi mansal er talið vera einhver umfangsmesta glæpastarfsemin í heiminum í dag – ásamt eiturlyfjum og ólöglegum vopnaviðskiptum.

Þess vegna er kynbundið ofbeldi á dagskrá í dag. Af því að við teljum okkur bera umtalsverða áhrif sem stjórnmálafólk og af því að við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að sporna gegn því. –Og þá tel ég mig hafa rökstutt dagskrárliðinn – og get haldið áfram að ræða viðfangsefnið sjálft.

Birtingamyndir kynbundins ofbeldis eru margar – andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi – sjaldnast ein báran stök. Í kynferðislegu ofbeldi felst líkamlegt og andlegt ofbeldi – það segir sig sjálft.  Kynferðislegt ofbeldi getur svo birst með ýmsum hætti – en til þess telst kynferðisleg áreitni, sifjaspell, nauðganir, klám og vændi. Klám og vændi er svo nátengt mansali sem er ofbeldi út af fyrir sig.

Hér gætum við nefnt ótal dæmi – við þekkjum öll sögur um fulla kallinn og undirgefnu konuna – eða um konuna sem er nauðgað í húsasundi – eða um stelpuna sem ætlaði að verða au-per en er læst inni í gluggalausu herbergi og seld. Þetta eru því miður ekki óraunsæ dæmi – þau eru til – en ofbeldið á sér svo miklu fleiri og fjölbreyttari sögur. Því miður. Ofbeldi þrífst líka meðal fallega og ríka fólksins – konum er nauðgað af eiginmönnum sínum í eigin rúmi og mansal fer fram án sýnilegra kúgunartækja. Og þessar sögur eru ekki óraunsæar – þær eru til – því miður.

Þó einhverjir vilji halda í hugmyndina um hamingjusömu hóruna er löngu vitað og löngu þekkt að hún er alger undantekning, vændi er fyrst og fremst neyðarbrauð hjá  þeim sem það stunda – og í raun ekkert annað en nauðgun sem greitt hefur verið fyrir. Sama gildir um klám – sem er verra ef eitthvað er – nauðgun sem greitt hefur verið fyrir og fest á filmu.

Þær tegundir kynbundins ofbeldis sem ég hef hér talið upp eru kannski að verða úreldar – kannski er þetta ekki nógu nákvæmt – eða kannski er ofbeldið bara aðeins öðruvísi í dag en það var í gær og allavega pottþétt öðruvísi en fyrir hundrað árum.

Og þó. Kynbundið ofbeldi er jafngamalt samfélagsgerðinni okkar – það hefur sjálfsagt alltaf verið til. En það hefur þróast með samfélaginu til góðs og slæms. –Og það er kannski ekkert úr vegi að velta því fyrir sér, nú þegar um 100 ár eru liðin frá því konur fengu kosningarétt á Íslandi – hvað hafi breyst hvað ofbeldi varðar.

Auðvitað var kynbundið ofbeldi til fyrir 100 árum – konur voru hlutgerðar, þær lamdar og þeim nauðgað. Vændi hefur án efa verið til og byggst á sömu lögmálum og í dag – að langflestar vændiskonur hafi selt sig af neyð – og að hlutverk melludólga hafi verið áþekkt því sem nú þekkist að teknu tilliti aðstæðna. Klám var aftur á móti snúnara fyrir hundrað árum en í dag – framleiðsla og dreifing var mun erfiðari.

Í raun má segja að ofbeldi gegn konum hafi verið beitt í nokkuð þegjandi sátt hér í Reykjavík allt þar til konur tóku sig saman á níunda áratug síðustu aldar og stofnuðu kvennaathvarf. Allt fram að því voru engin almenn úrræði fyrir konur sem beittar voru ofbeldi – það var á ábyrgð þeirra og nánustu aðstandenda. Stuttu síðar komu Stígamót til sögunnar sem veittu þolendum kynferðislegs ofbeldis ráðgjöf og stuðning.

Eins og ég sagði áðan – þá hefur þróun kynbundins ofbeldis bæði verið jákvæð og neikvæð. Mikil og ör þróun hefur átt sér stað þegar kemur að réttaröryggi og þjónustu við þolendur ofbeldis – Kvennaathvarf og Stígamót hafa verið leiðandi öfl á því sviði – ásamt mikilvægum samtökum á borð við rauðsokkur, kvennaframboð, kvennalsita, kvenréttindafélagið og femínistafélagið.

Lögreglan hefur tekið við sér, saksóknaraembættið líka og talsverðar lagabætur hafa átt sér stað. Bann við kaupum á vændi, austurríska leiðin, afnám firningarákvæða  og bætt réttarstaða þolenda skiptir gríðarlegu máli – og gerir fyrrgreindum embættum auðveldara að tryggja öryggi og sanngjarna málsmeðferð hverju sinni.

Skömmin hefur verið flutt þangað sem hún á heima – ofbeldi er á ábyrð þess sem það fremur. –Eða sko, þannig á það að vera – þannig viljum við að það sé – við vitum að það er pólitískt rétta nálgunin. Við stöndum með þolendum sem stíga fram og segja sögu sína – við dáumst að hugrekki þolenda og styrk þegar þeir vinna í sínum málum, hvetjum og styðjum.

En. Aðeins að einu skilyrði uppfylltu. Einu mjög mikilvægu skilyrði.

Við skulum standa með þolendum, dást að þeim og styðja að því gefnu að gerandinn sé hvergi nefndur á nafn. Það er algert skilyrði að gerandinn sé skilinn eftir nafnlaus og persónulaus – að enginn sé ásakaður um verknaðinn – hvað þá kærður. Við stöndum með þolendum nafnlauss ofbeldis – ofbeldis sem gerist bara – verður bara til af sjálfu sér.

Kæri þolandinn gerandann – þá er veruleikinn annar. Þá splittast fjölskyldur og vinahópar – kommentakerfin fyllast og þolandinn má búast við árásum og svívirðingum, jafnt prívat sem á opinberum vettvangi.

Við erum ekki komin lengra en svo. Við stöndum með þolendum og viljum ekki að þeir axli ábyrgð á kynbundnu ofbeldi – en við erum ekki komin nægilega langt til að færa ábyrgðina lengra en hálfa leið. Að standa með þolendum gegn gerendum er hægra sagt en gert – og þar eigum við allt of langt í land.

Ég hef ekki lausn á reiðum höndum – enda væri sjálfsagt búið að beita henni, væri hún til. Áframhaldandi fræðsla – áframhaldandi umræða – áframhaldandi vitundarvakning er það sem þarf – umræður hér og þar og allsstaðar.

Þróun ofbeldisins sjálfs – burtséð frá viðbrögðum og þjónustu við þolendur – hefur verið veruelga slæm. Kynbundið ofbeldi hefur frekar aukist en minnkað – og fagaðilar í málaflokknum tala um að það verði stöðugt grófara og fjölbreyttara.

Klámiðnaðurinn óx og dafnaði samhliða tækniþróun í mynda- og kvikmyndatöku og miðlun efnis á síðustu öld – og hefur hreinlega blómstrað með tilkomu internets og snjallsíma á þessari öld.

Það er raunverulegt áhyggjuefni hversu hratt tæknin virðist vera nýtt í þágu ofbeldis – gegn stúlkum og gegn konum – og nýjasta dæmið – svokallað hefndarklám – er líklega einhver ógeðfelldasta birtingarmyndin sem komið hefur fram – enda áhrifaríkt og ógnvekjandi kúgunartæki.

Hefndarklám – það að birta og/eða dreifa myndum af einstaklingum án vitundar eða samþykkis viðkomandi er næsta kynslóð kynferðisofbeldis – og því miður erum við berskjöldið og óvarin sem samfélag – rétt eins og börn og unglingar sem virðast vera að lenda í klóm þessa menningarafkima með afleiðingum sem við eigum enn eftir að sjá hver verða.

Hefndarklám á sér margar hliðar og er til komið af ýmsum ástæðum – en það er sannarlega kynbundið – gerendurnir eru í flestum tilfellum karlar og þolendurnir konur. Eða kannski öllu heldur strákar og stelpur – þó mörg dæmi séu um fullorðið fólk. -Og aftur ítreka ég að til eru undantekningar með öfugum kynjahlutföllum – en vandinn er kynbundinn, rétt eins og aðrar þær tegundir sem hér hefur verið fjallað um.

Fyrstu viðbrögð við þessari tiltölulega nýju leið eða tegund ofbeldis virðast hafa verið að reyna að fá stelpur til að senda ekki af sér myndir. Umhugsunarlaus og kannski eðlileg fyrstu viðbrögð – en jafnröng og að segja stelpum að klæðast ekki stuttum pilsum, vilji þær forðast nauðgun.

Næstu viðbrögð – og sú stemning sem nú virðist ríkja í samfélagi sem er rétt að byrja að takast á við vandann er sú að  setja ábyrgðina á gerandann – að brýna mikilvægi trausts fyrir drengjunum og fría stúlkur ábyrgð. Það eru kannski eðlilegri viðbrögð – og mun betri en að setja ábyrgðina á stelpurnar – en ég er hrædd um að hvorugt virki.

Við verðum í þessu sem öðru að skoða samfélagsgerðina og þann menningarafkima sem hefndarklámið er sprottið úr – þá menningu sem virðist hafa skapast meðal unglinga og ungmenna að það sé sjálfsagt og eðlilegt að senda nektarmyndir út um allar trissur – að það sé sjálfsagt og eðlilegt að krefjast nektarmynda – hvað þá að það sé í lagi að misnota svo það traust sem í slíkum sendingum felst.

Þessi menning er tiltöluega nýtilkomin – en stórundarleg og virðist vera að hreiðra um sig á unglingastigi og í framhaldsskólum. Pressan er á bæði kyn – á stráka að afla nektarmynda og dreifa þeim – og á stelpur að senda nektarmyndir og vona það skársta.

Við verðum að leggja okkur fram um að brjóta þetta upp og hjálpa börnum að bera ábyrgð á sjálfum sér, standa undir því trausti sem þeim er sýnt og sýna hverju öðru tihlýðilega virðingu.

Þetta snýst ekki bara um eitthvað unglingafikt. Þessar gjörðir geta haft gríðarlegar afleiðingar í för með sér – myndirnar ferðast um með ljóshraða án þess að nokkur hafi stjórn þar á.

Og af hverju hef ég áhyggjur af því? –Jú – hér erum við komin á nýtt stig í klámvæðingunni – og hlutgervingu kenna. Áhrif klámvæðingarinnar eru þekkt – hlutgerving kvenna og tilvist klámmynda af kynsystrum mínum hafa haft umtalsverð áhrif á stöðu kvenna og möguleika í lífinu. Staða mín og möguleikar eru takmarkaðir af hlutgervingu kvenna sem ég þekki ekki neitt – en hafa lent í klóm klám- og vændisiðnaðarins.

Við getum bara rétt ímyndað okkur hvaða áhrif það hefur þegar myndirnar eru ekki bara af ókunnugum kynsystrum – heldur af okkur sjálfum. Þegar stelpurnar sem núna í sakleysi og vegna pressu senda myndir í fíflagangi sem svo fara á flakk og enda hvar sem er um ókomna tíð. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig þeim á eftir að ganga í atvinnuviðtölum, forvölum eða kosningabaráttum framtíðarinnar – þori þær yfir höfuð að taka slagi vitandi hvað leynist í farteski internetsins.

Hefndarklám er ný kynslóð kynferðisofbeldis – illvíg og stórhættuleg. Það er afleiðing af menningu sem hefur skaðleg á stelpur og stráka, konur og karla – og samfélagið í heild sinni.

Hvað er til ráða? –Hvað getum við gert? –Fjölmargt, sem betur fer. Og við erum að gera heilan helling. Fyrst og fremst verðum við að halda umræðunni á lofti – vera vakandi og beita okkur á öllum þeim sviðum sem við getum og höfum aðstæður til.

Reykjavík tekur nú þegar þátt í sérstöku átaki gegn heimilisofbeldi, jafnréttisskólinn undirbýr fræðslu um meðferð samfélagsmiðla og snjalltækja, við erum með aðgerðaráætlun gegn ofbeldi gegn konum og börnum og höfum farið í sérstakt átak gegn kynferðislegri áreitni í borginni. En við getum gert betur – og við eigum að gera betur.

Mannréttindaskrifstofa, velferðarsvið, barnavernd, skóla- og frístundasvið og í raun öll svið og allar stofnanir geta lagt sitt af mörkum. Munum að kynbundið ofbeldi er bara ein af birtingarmyndum kynjamisréttis – sú ljótasta – og sú allra brýnasta að sporna gegn – en við verðum að taka á öllum hliðum málsins og stuðla að frjálsara og umburðarlyndara samfélagi þar sem karlar og konur standa jafnfætis og ofbeldi í krafti yfirburða eða vanmats þrífst ekki. Ég heiti því að gera það sem í mínu valdi stendur og þykist þess fullviss að allir hér inni eru sama sinnis.

Ræðan var flutt í borgarstjórn 3. febrúar 2015.