19. júní. Bríet Bjarnhéðinsdóttir. Takk.

Til hamingju með daginn. Dag þar sem við fögnum sjálfsögðum réttindum, lítum yfir farinn veg, hugsum til allra kvennanna sem syntu á móti straumnum og þökkum fyrir allt það sem þær hafa fært okkur. Dag þar sem okkur ber skylda til að meta stöðuna og horfa til framtíðar – á þau verkefni sem verða að vinnast til að samfélagið okkar geti talist raunverulega réttlátt.

Fyrir sléttu ári síðan stóðum við hér og fögnuðum aldarafmæli kosningaréttarins, mitt á byltingarárinu mikla. Í fyrra var ár beauty-tips byltingarinnar – árið sem konur töluðu – árið sem samfélagsmiðlar urðu óhugnarlega gulir og appelsínugulir þegar konur opinberuðu reynslu sína af kynbundnu ofbeldi. Í fyrra spruttu upp femínistafélög í grunn- og framhaldsskólum og í fyrra unnu Elsku stelpur Skrekk.

Afmælis- og byltingarárið 2015 var í grunninn gjöfult og gott. Áræðnin, samstaðan og róttæknin hafði áhrif – hugarfarsbreyting átti sér stað og fleiri lögðu málstaðnum lið.

Borgarstjórn lagði líka sitt af mörkum. Við fögnuðum árunum 100 með 100 viðburðum, stórum og smáum í samstarfi við grasrótarsamtök, stofnanir, fyrirtæki ogeinstaklinga. Og við gerðum það sem í okkar valdi stóð til að bregðast við ákalli byltingarinnar um sanngjarnara og öruggara samfélag með stofnun ofbeldisvarnarnefndar og undirbúningi að samhæfðari og stórbættri þjónustu við þolendur ofbeldis.

En við verðum að halda áfram. Við megum ekki láta deigan síga. Öll ár verða að vera byltingarár og við verðum að muna að þó við syndum á móti straumnum, munu barnabörnin okkar vonandi líta á baráttumál samtímans sem sjálfsögð réttindi í framtíðinni.

Þar sem ég hef lagt minn síðasta krans að leiði Bríetar ætla ég að leyfa mér að vera örlítið persónuleg.

Að vera femínísk kona í pólitík er eins og að vera fiskur – því eins og við vitum, þá berast aðeins dauðir fiskar með straumnum.

Straumur feðraveldisins er stöðugur og oft þungur. En það er þess virði að synda gegn honum – og hver veit nema einn góðan veðurdag náum við í lygna tjörn þar sem fólk af öllum kynjum getur unað öruggt og sælt saman.

Að þessu sögðu langar mig að þakka Bríeti fyrir hennar sundsprett. Samtíðarkonum hennar líka og öllum þeim konum sem hafa synt í kjölfarið allt fram til þessa dags. Ég vil þakka rauðsokkunum, kvennaframboðs- og kvennalistakonunum og öllum þeim fjölda grasrótarsamtaka sem hafa lagt sitt af mörkum til að gera þetta samfélag betra fyrir okkur öll og gert okkur kleift að stinga okkur til sunds og halda baráttunni áfram.

Síðast en ekki síst vil ég þakka fyrir að hafa fengið að vera þess heiðurs aðnjótandi að leggja hér kransa undanfarin fjögur ár – og fyrir að hafa fengið að taka sundspretti í fljóti feðraveldisins á vettvangi borgarstjórnar.

Það vill til að feðraveldisfljótið er víðfeðmt og ég mun án efa stinga mér til sunds á öðrum stað áður en langt um líður.

En þangað til þá – takk fyrir okkur elsku Bríet – þú mátt treysta því að við gefumst ekki upp, við munum tryggja barnabörnum okkar sjálfsögð réttindi svo þau geti haldið áfram í átt að tjörninni góðu.

Til hamingju með daginn kæra samkoma – áfram stelpur!

Ávarpið var flutt við leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur þann 19. júní 2016

 

17. júní. Jón Sigurðsson.

Hér erum við samankomin til að votta Jóni Sigurðssyni virðingu okkar og þakklæti fyrir þá baráttu sem hann og samferðafólk hans háði fyrir frelsi okkar, sjálfstæði og lýðræðislegu réttindum.

Lýðveldið Ísland er friðsælt 330þúsund manna samfélag á fallegri eyju sem er rík af náttúruauðlindum. Samfélag sem öðlaðist sjálfstæði án stríðs eða blóðsúthellinga og hefur allt til alls þrátt fyrir að vera landfræðilega afskekkt. Samfélag sem er auðvitað ekki fullkomið – heldur samfélag sem okkur ber að halda áfram að þróa og bæta. Við verðum stöðugt að stuðla að auknu jafnrétti, meiri sanngirni og bættum hag okkar allra. Það er sameiginlegt verkefni okkar, skylda okkar gagnvart sögunni og komandi kynslóðum.

Okkur ber að standa vörð um auðlindirnar, söguna og menningararfinn í anda Jóns og samferðafólks hans.

En okkur ber að gera meira en það.

Þó samfélagið okkar sé landfræðilega afskekkt, þá er það hluti af stærra samhengi. Ísland er hluti af samfélagi þjóða. VIÐ erum hluti af samfélagi þjóða og við berum ábyrgð sem slík.

Það hafa ekki allar þjóðir öðlast sjálfstæði án blóðsúthellinga. Það búa svo sannarlega ekki allir á friðsælum eyjum sem eru ríkar af náttúruauðlindum. Ísland, þetta litla og alls ekki fullkomna samfélag, er samfélag sem allt of margt fólk getur bara látið sig dreyma um að tilheyra.

Tugmilljónir fólks er á flótta í heiminum, fólk eins og við, fólk eins og Jón. Fólk sem flýr harðstjórn og ofríki, stríð og ofbeldi, þurrka og hungursneyð. Frelsi, sjálfstæði og lýðræðisleg réttindi eru sannarlega ekki sjálfsögð og það eru ekki allir svo heppnir að geta vottað 18. aldar manni virðingu sína og þakklæti með kransi.

Frelsi okkar, sjálfstæði og lýðræðislegu réttindi eru ekki takmörkuð auðlind. Þvert á móti. Þeim mun fleiri sem fá notið þeirra, þeim mun betra.

Ég þykist þess fullviss að væri Jón á lífi í dag, væri hann ákafur baráttumaður fyrir sanngjarnari heimi. Að fleiri fengju að njóta þeirra forréttinda sem við höfum hér á Íslandi.

Á sama tíma og við stöndum vörð um auðlindirnar, söguna og menningararfinn, skulum við standa vörð um sanngirni og réttlæti. Það þýðir að við verðum að axla ábyrgð og leyfa fleirum að njóta alls þess góða sem okkar ágæta samfélag hefur uppá að bjóða. Við verðum að á móti þeim sem hingað leita – og gera það vel. Hjápa fólki í neyð. Svo einfalt er það.

Um leið og við vottum Jóni virðingu okkar skulum við hugsa til allra  þeirra sem aðeins geta látið sig dreyma. Þökkum Jóni fyrir hans framlag – en heitum því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að fleiri fái notið þess sem lýðveldið Ísland hefur uppá að bjóða.

Gleðilega þjóðhátíð.

Ávarpið var flutt við leiði Jóns Sigurðssonar á 17. júní 2016.