100 ára afmæli kosningaréttar kvenna

Árið 1863 tók fyrsta konan þátt í kosningum á Íslandi. Það var Madama Vilhelmína Lever, sem kaus til bæjarstjórnar á Akureyri, tæpum 20 árum á undan öðrum konum.

Ástæðan er sú að skv. danskri reglugerð sem þar var við lýði kom fram að allir fullstöndugir menn sem væru fertugir, sjálfs sín ráðandi og greiddu 2 ríkisdali í útsvar skyldu hafa kosningarétt.

Vilhelmína uppfyllti öll þessi skilyrði. Hún átti og rak veitingahús í bænum, var fertug, fullstöndug og greiddi útsvar. Og hún var vissulega maður skv. íslenskri tungu, þó konur hafi alla tíð samsamað sig misvel með hugtakinu. -Danska hugtakið mænd á þó eingöngu við um karla – og andi reglugerðarinnar hafði sannarlega ekki verið að koma Vilhelmínu eða öðrum kynsystrum hennar til áhrifa.

Vilhelmína kaus engu að síður – bæði árið 1863 og aftur 1866, en þá brást kerfið við, danska stjórnarráðið kippti þessu í liðinn með nýrri þýðingu þar sem kosningaréttur kvenna var afturkallaður.

Tæpum 20 árum síðar öðluðust konur kosningarrétt í sveitarstjórnarkosningum og fyrstu konurnar tóku sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1908, þær Katrín Magnússon, Þórunn  Jónassen, Guðrún Björnsdóttir og Bríet Bjarnhéðinsdóttir.

Sjö árum eftir það, árið 1915 fengu konur svo kosningarétt til Alþingis – þó aðeins 40 ára og eldri og það var ekki fyrr en árið 1920 sem konur og karlar höfðu jafnt aðgengi að lýðræðislegum kosningum – karlar og konur 25 ára og eldri.

Réttindabarátta kvenna hefur verið löng og ströng – á henni eru margar vörður sem allar hafa skipt máli. Ekki síst aðgerðir eldhuga og brautryðjenda á borð við Vilhelmínu Lever, sem hefur eflaust mætt vænum skammti af mótlæti og fordómum.

Fyrir 7 árum fagnaði Reykjavíkurborg því  að 100 ár voru liðin frá því konur tóku fyrst sæti í borgarstjórn. Þá var haldin sýning á ræðum og tillögum kvennanna, kvenkyns borgarfulltrúar komu saman og áhrifum kvenna fagnað með ýmsum hætti.

Ein athyglisverðasta aðgerðin sem samþykkt var af því tilefni – en komst ekki til framkvæmda fyrr en mörgum árum síðar – var að nefna götur í Reykjavík í höfuðið á þessum fjórum konum. Þá var Höfðatúni, Sætúni, Skúlatúni og hluta af Skúlagötu breytt í Katrínartún, Bríetartún, Guðrúnartún og Þórunnartún. Falleg og táknræn aðgerð og vekur fólk til umhugsunar um þessar kjarnakonur sem tóku sér pláss í karllægum heimi stjórnmálanna og ruddu brautina fyrir okkur hinar.

Sú aðgerð – stóra nafnabreytingatillagan – sýndi, svo ekki verður um villst – að jafnrétti kemur ekki af sjálfu sér – kvennabaráttan tekur tíma og engar breytingar fara í gegn mótbárulaust.

En nú erum við hér í dag – árið er 2015 og þann 19. júní verða 100 ár liðin frá því konur, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt. Því ber að fagna – og því ætlum við að fagna.

Við gætum að sjálfsögðu beðið fram til ársins 1920 – þegar konur 25 ára og eldri fengu kosningarétt – en það er fullt tilefni til frekari hátíðarhalda þá til viðbótar – vörðurnar eru eins og áður segir allar merkilegar!

Forsætisnefnd hefur verið falið það hlutverk að halda utanum afmælisárið og eftir umræður og vangaveltur hefur verið ákveðið að standa fyrir 100 viðburðum í tilefni af árunum 100.

Fyrsti viðburður ársins er að minnast þessa áfanga hér í borgarstjórn Reykjavíkur – að við fögnum áfanganum og förum yfir það sem stendur til og þegar hefur verið ákveðið að gera.

Leiðarljós viðburðanna og verkefnanna verður að fagna þeim árangri sem náðst hefur í kvennabaráttunni, en hvetja á sama tíma til frekari vinnu og framfara á meðan fullu jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð. Viðburðirnir verða af öllum stærðum og gerðum og munu dreifast yfir árið. Miðað er við að allir viðburðir verði aðgengilegir og að boðið verði upp á túlkun þar sem það á við.

Sumir viðburðanna hafa þegar verið skipulagðir, aðrir eru enn á hugmyndastigi – en forsætisnefnd mun fjalla um verkefnið, móta það og þróa á öllum fundum sínum á árinu.

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir verður verkefnisstýra afmælisársins og mun halda utanum viðburði og verkefni og samskipti við fagráð og fyrirtæki í eigu borgarinnar – og Facebooksíðu sem hefur verið sett á laggirnar undir því þjála en gagnsæja heiti Reykjavíkurborg fagnar 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Ég hvet ykkur til að “læka” síðuna og fylgjast með upplýsingum um viðburði og fróðleiksmolum um sögu og áhrif kvenna.

Þar verður m.a. sett inn umfjöllun um “konu vikunnar”, en tvær hafa þegar hlotið þann eftirsóknarverða titil – þær Rósa Luxemburg og Simone de Beauvoir.

Eins og kemur fram í minnisblaði sem sent var út með gögnum fundarins hafa þegar verið fastsettir 14 viðburðir – listasýningar, fundir, ráðstefnur og árlegir viðburðir sem verða nýttir til að fagna áfanganum með einhverjum hætti.

Þannig má gera ráð fyrir að það sjáist með einhverjum hætti á hátíðardagskrá 17. júní, sjómannadagsins, menningarnætur og fleiri fastsettra viðburða að 100 ár eru liðin frá kosningarétti kvenna – ásamt fjölda viðburða í samstarfi við hagsmuna- og grasrótarsamtök á sviði kvenfrelsismála.

Mun fleiri viðburðir eru í deiglunni – og unnið upp úr hundruðum hugmynda sem komu fram á sérstökum samráðsfundi með kvennahreyfingunni í Höfða í haust til að undirbúa hátíðarhöldin. Má þar nefna hugmynd um opinn míkrófón fyrir konur, tónleika víða um borg, göngu um kvennasöguslóðir með grunnskólanemendur, fund með borgarfulltrúum kvennaframboðs, samstarf við Druslugöngu og Gleðigönguna, Stelpur rokka, skapandi sumarhópa og götuleikhús – auk sýninga og funda á vegum og vettvangi borgarinnar um viðvarandi verkefni í þágu kynjajafnréttis.

Ennfremur er óskað eftir áhugasömum samstarfsaðilum í Reykjavík – hafi borgarbúar, fyrirtæki eða hagsmunasamtök hugmynd að verkefni eða viðburði, þá tökum við öllu slíku fagnandi – og er fólk hvatt til að hafa samband á kosningar@reykjavik.is

Ég er viss um að þetta verður skemmtilegt ár – og næstum viss um að okkur tekst að koma viðburðunum 100 í verk. Ég vona það alla vega.

Það er sannarlega fagnaðarefni að hundrað ár séu liðin frá ólýðræðislegu samfélagi gamalla daga – tilefni til að gleðjast og halda baráttunni áfram fyrir lýðræðislegu, opnu og sanngjörnu samfélagi þar sem konur og karlar af öllum gerðum og stærðum fá notið sín.

Til hamingju með daginn og árið – megi það verða okkur öllum til góðs!

Ræðan var flutt í borgarstjórn 20. janúar 2015

Til heiðurs formæðrum okkar

Ágæta samkoma!

Fyrir tveimur dögum lagði ég krans að leiði Jóns Sigurðssonar. Mér þótti vænt um að fá að heiðra minningu hans fyrir hönd Reykvíkinga, enda eigum við honum og félögum hans á 19. öld margt að þakka.

Ég verð samt að viðurkenna að eiginlega þykir mér enn vænna um að fá að heiðra Bríeti hér í dag. Hún háði ekki síður mikilvæga baráttu – baráttu fyrir raunverulegu lýðræði þar sem bæði karlar og konur höfðu áhrif – þó ekki hafi allir skilið það á þeim tíma.

Í fyrirlestri Páls Briem frá 1885 vitnar hann í orð andófsmanna kvenréttinda, þar sem hann segir m.a:*

Vjer sjáum af þessu, að hjer er krafizt fullkomins jafnrjettis við karlmenn; konur heimta sömu uppfræðslu og menntun; þær heimta að komast í sömu stöður og karlmenn, og telja lög, sem þessu eru til fyrirstöðu, með öllu ógild; þær heimta kosningarjett, rjett til að tala á mannfundum og rjett til að kenna trú; þær heimta, að karlmenn sjeu jafndyggðugir og heimtað er af konum; þær telja sig jöfnum hæfileikum búnar, og þær segjast líka hafa jafna ábyrgð á því, hvernig þær noti hæfileika sína.

Í dag finnst okkur þetta fyndið – og líklega langar okkur að trúa að svona nokkuð myndi enginn maður láta út úr sér í dag.

Það er að hluta til rétt, í dag er ekki talað um uppfræðslu og við segjum ekki lengur vér. En sambærileg ummæli finnast því miður víða um internetið og virðulegustu áhrifakarlar láta hafa eftir sér allskonar vitleysu um frekjuna í femínistum samtímans.

Einn samtímamaður okkar bloggaði með eftirfarandi hætti þegar Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sætti sig ekki við fjórða sæti á lista þegar hún hafði sóst eftir því fyrsta:

Hvað er að fólki? Geta konur ekki skilið lýðræði? Ég segi: Ef þær geta það ekki þá ættu þær að halda sig heima en ekki reyna að vinna þar sem þær eru ekki velkomnar

 

Óttinn í garð kvenna sem krefjast fullkomins jafnréttis fyrirfinnst víða í dag. Hann hefur alltaf verið til staðar – og líklega mun hann ekki hverfa fyrr en fullkomnu jafnrétti hefur verið náð eins og Páll gamli orðaði það.

Réttindabarátta hefur alltaf tekið á. Jón Sigurðsson gekk án efa í gegnum allskonar eldraunir í þágu sjálfstæðis Íslendinga –  það hvarflar ekki að mér að gera lítið úr baráttu hans og verð ævinlega þakklát fyrir hana. En hann gerði það sem hann gerði sem óskoraður leiðtogi – hann var dáður og virtur og hafði íslenskt samfélag með sér í liði öllum stundum.

Það sama verður ekki sagt um Bríeti. Hún barðist við vindmillur á hverjum degi en stóð alltaf keik – þrátt fyrir óhróður og aðdróttanir og fullkomið skilningsleysi oft á tíðum.

Saga Jóns og Bríetar á sér hliðstæðu í lífi og sögu karla og kvenna.

Ákveðnir karlar eru óskoraðir leiðtogar, þeir há merkilega baráttu og öðlast viðurkenningu bæði í samtímanum og sögubókunum.

Ákveðnar konur eru hættulegar, barátta þeirra einkennist af heimtufrekju og skilningsleysi, þær eru umdeildar í samtímanum og lítið fer fyrir þeim í sögubókunum.

Það er áratugahefð fyrir því að borgarstjórn leggi krans að leiði Jóns Sigurðssonar á þjóðhátíðardaginn. Athöfnin er sjálfsagður og eðlilegur hluti af hátíðarhöldunum – strax eftir að forsetinn hefur lagt annan krans að styttunni af honum á Austurvelli.

Í dag leggjum við krans að leiði Bríetar í fjórða sinn. Athöfnin fer að verða sjálfsagður og eðlilegur hluti af hátíðahöldum vegna kosningaréttar kvenna. Kannski mun forsetinn einhvern tímann leggja krans að minningarreit Bríetar líka.

Ágæta samkoma!

Athöfnin hér í dag er fyrst og fremst til þess gerð að heiðra minningu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og þakka framlag hennar í þágu íslenskra kvenna og íslensks samfélags. Hún er þó ekki síður til þess gerð að vekja okkur til umhugsunar um stöðu kvenna fyrr og nú – um mikilvægi kvenna og um alla þá ósýnilegu baráttu og vinnu sem hvergi er minnst og aldrei er heiðruð.

Krans dagsins er á leiði Bríetar – en hann er fyrir allar konur fyrr og nú. Þessi krans er til heiðurs öllum þeim konum sem hafa tekið slaginn fyrir okkur hinar – og hann er til hvatningar fyrir okkur hinar um að halda baráttunni áfram þar til fullkomnu jafnrétti hefur verið náð.

Til hamingju með daginn!

*Upphaflega voru Páli eignuð þessi orð og biðst höfundur velvirðingar á því.

Ræðan var flutt við leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur 19. júní 2014.

 

 

Gleðilega þjóðhátíð!

Ágæta samkoma.

Til hamingju með 70 ára afmæli lýðveldisins!

Það gleður mig að fá að heiðra hér minningu Jóns Sigurðssonar, sem við Íslendingar eigum svo margt það þakka. Hann var forvígismaður sjálfstæðisbaráttunnar á 19. öld og hafði mikil áhrif á samfélagið, bæði hér á Íslandi og í Danmörku.

Jón var auðvitað ekki einn. Hann var hluti af þjóð sem dreymdi um sjálfstæði. Dreymdi um frelsi til að haga málum sínum eftir eigin höfði – að ráða sér sjálf. Þó þakklæti okkar sé beint að Jóni í dag, þá vitum við vel að sjálfstæði Íslendinga byggir á baráttu margra, karla og kvenna, sem trúðu á frelsi og lýðræði. Við skulum heiðra minningu þeirra allra í dag.

En við þurfum að gera meira. Það er ekki nóg að heiðra forfeður okkar og -mæður. Við verðum að skilja og virða sigrana sem þau unnu fyrir okkur. Við verðum að vera þakklát fyrir að vera sjálfstæð þjóð sem hagar málum eftir eigin höfði – sjálfstætt lýðræði þar sem við ráðum okkur öll sjálf. Verum þakklát fyrir að búa í lýðræðissamfélagi.

Fyrst og fremst verðum við þó að fara vel með þau réttindi sem okkur hafa verið færð. Við verðum að fara vel með lýðveldið Ísland og lýðræðissamfélagið sem við búum í – og halda áfram að þróa það og efla í sameiningu.

Á 70 árum hefur margt breyst. Flest til hins betra. Samfélagið er orðið miklu fjölbreyttara en það var. Árið 1944 bjuggu hér Íslendingar og dálítið af Dönum, ýmist sem vísitölufjölskyldur, einstæðar mæður eða einstæðingar. Á Íslandi í dag býr fólk frá um 150 löndum með fjölbreytta reynslu og þekkingu, ólík trúarbrögð og menningararfleifð. Fjölskylduformið er orðið mjög afstætt, allt eftir kyni, kynhneigð, stjúptengslum og ýmiskonar aðstæðum.

Íslenskt samfélag er flókið og fjölbreytt og lýðræðið mætir ótal áskorunum á hverjum degi.

Jón Sigurðsson var þjóðrækinn maður. Eðlilega, enda dreymdi hann um sjálfstæði Íslands. Ef við viljum heiðra minningu Jóns skulum við halda í þjóðrækni hans og standa með sjálfstæði landsins.

Þá skulum við standa með lýðræðissamfélaginu og þróa áfram. Tryggjum virkni og þátttöku í samfélaginu og tryggjum að raddir allra heyrist. Virðum fjölbreytileika samfélagsins, njótum þeirra réttinda sem áunnist hafa og tryggjum að þau séu fyrir okkur öll. Í því felst þjóðrækni 21. aldarinnar.

Gleðilega hátíð!

Ræðan var flutt við leiði Jóns Sigurðssonar, 17. júní 2014.

Réttlát Reykjavík

Kæru félagar.

Það eru þrír dagar til kosninga. Við erum komin á lokasprettinn og staðan er að skýrast. Valið stendur á milli átta framboða – Vinstri grænna og sjö annarra.

Fjölmiðlar hafa sýnt kosningunum lítinn áhuga. Þeir birta gjarnan myndir frá veislum og hátíðarhöldum, þeir standa fyrir róðrarkeppni og birta heilu opnurnar með hinni hlið oddvitanna þar sem spurt er um fyrsta kossinn og mestu eftirsjána. Minna fer fyrir stefnunni og hugmyndafræðinni. Fyrir því sem borgarbúar eru raunverulega að kjósa um.

Þessar kosningar eru auðvitað grafalvarlegt mál og þær skipta mjög miklu máli.

Við erum að kjósa um kjör borgarbúa, um það hvernig grunnþjónustunni verður háttað – og hver veitir hana. Við erum að kjósa um menntun og uppeldi, þjónustu við fatlað fólk og eldra fólk, velferðarkerfið, húsnæði og fjárhagsaðstoð, samgönguhætti, umhverfi, auðlindir, neysluvatn, andrúmsloft og veðurfar.

Við erum að kjósa um hvernig samfélagi við viljum búa í og hvernig við viljum að það þróist. Og þá er bara einn skýr valkostur.

Vinstri græn bjóða nú fram í þriðja skipti undir eigin merkjum í Rekjavík. Við bjóðum fram sömu stefnu og byggjum á sömu hugmyndafræði og í hin skiptin og erum blessunarlega laus við að þurfa að endurskoða og yfirfara stefnumál okkar með tilliti til tíðarfars eða vinsælda.

Stefnan byggir nú sem fyrr á friðsamlegri nálgun, kvenfrelsi, umhverfisvernd og félagslegu réttlæti. Þessar grunnstoðir fléttast saman í stefnu sem miðar í raun að réttlátari borg, réttlátara samfélagi og réttlátari heimi.

Og það er ekki vanþörf á. Um þessar mundir kemur út hver skýrslan á fætur annarri um vaxandi fátækt á Íslandi. Á sama tíma og hagvöxtur og velmegun eykst í samfélaginu verður fátæktin raunverulegra og stærra vandamál og misskiptingin vindur uppá sig.

Skýrsluhöfundar lýsa eðlilega yfir áhyggjum vegna málsins og taka fram að alvarlegast sé ástandið hjá barnafjölskyldum. Fátæktin bitnar verst á börnum, þau verða af nauðsynlegri þjónustu og einangrast félagslega.

Í þessu felst félagslegur arfur fátæktarinnar. Fátæktin skerðir möguleika barnanna til að spjara sig á fullorðinsárum. Fátæktin er þannig bæði mein í núinu þar sem börn líða fyrir efnahag foreldra sinna en líka til framtíðar, þar sem börn hafa ekki sömu tækifæri til virkni, þátttöku og góðs lífs í samfélaginu.

Við þessu verður að bregðast með aðgerðum sem tryggja aukið réttlæti og jafnari möguleika barna og fullorðinna. Með samfélagslega ábyrgri nálgun og forgangsröðun getum við tryggt börnum og fullorðnum svo miklu sanngjarnari lífsskilyrði.

Þess vegna viljum við afnema gjaldskrár fyrir leikskóla, skólamáltíðir og frístundahiemili. Afnámið snýst ekki bara um ráðstöfunartekjur barnafjölskyldna, heldur tryggir aðgerðin okkur sanngjarnara samfélag á svo mörgum sviðum:

 • Í réttlátu samfélagi geta öll börn stundað leikskóla, fengið heitan mat í skólanum og tekið þátt í starfi frístundaheimilanna
 • Í réttlátu samfélagi er börnum ekki mismunað eftir efnahag foreldra sinna
 • Í réttlátu samfélagi eru barnafjölskyldur ekki rukkaðar um hundruði þúsunda fyrir sjálfsagða þjónustu við börn
 • Í réttlátu samfélagi er leikskólinn raunverulega viðurkenndur sem fyrsta skólastigið og það sama gildir um hann og grunnskólann
 • Í réttlátu samfélagi er skóladagur barna ekki bútaður niður í menntun, máltíðir og frístundir – hann er ein samfelld heild

Í réttlátu samfélagi líða börn ekki fyrri fjárhag foreldra sinna. Réttlátt samfélag tryggir öllum börnum gott atlæti og góða menntun og greiðir fyrir það úr sameiginlegum sjóðum.

Og það er ekki allt. Í réttlátu samfélagi eru kennslu- og uppeldisstéttir ekki lægstlaunaða starfsfólk landsins. Það verður að stórbæta kjör kennara á báðum skólastigum, skapa svigrúm og aðstæður til skólaþróunar.

En fleira þarf til. Það verður að mæta vanda fólks þar sem það er og fátæktina sjálfa. Fjárhagsaðstoð í Reykjavík er skammarlega lág, félagslegar íbúðir eru allt of fáar og félagsráðgjöf og barnavernd búa við mjög þröngan kost. Velferðarkerfið sem á að grípa og styðja við fólk í vanda er illa í stakk búið til að þjóna hlutverki sínu. Þar verðum við að gera svo miklu miklu betur.

Fátækt og misskipting er afleiðing þess að stjórnvöld hafa fríað sig samfélagslegri ábyrgð. Stjórnvöld hafa einfaldlega ekki staðið sig í að tryggja jöfn tækifæri og gott velferðarkerfi, heldur er tilhneiging til að líta á hið opinbera sem þjónustuaðila eða fyrirtæki sem þarf að fá greitt fyrir það sem innt er af hendi.

Og því miður sér ekki fyrir endann á því. Alvarlegasta afleiðing þeirrar hugmyndafræði er markaðsvæðing grunnþjónustunnar, útvistun og einkavæðing. Þar sem einkaaðilum er falið að sjá um samfélagsleg verkefni með gróðasjónarmið að leiðarljósi.

 • Í réttlátu samfélagi getur efnameira fólk ekki keypt betri eða öðruvísi menntun fyrir börnin sín
 • Í réttlátu samfélagi er ekki hægt að braska með innborganir eldra fólks í þjónustuíbúðum
 • Í réttlátu samfélagi eru orku- og veitufyrirtæki ekki seld einkaaðilum
 • Í réttlátu samfélagi er ferðaþjónusta fatlaðs fólks ekki unnin af einkaaðilum
 • Í réttlátu samfélagi er trúarsöfnuðum ekki falið að reka gistiskýli fyrir utangarðsfólk

Í réttlátu samfélagi er grunnþjónustan ekki féþúfa. Réttlátt samfélag innheimtir tekjur eftir getu fólks og veitir þjónustu í samræmi við þarfir fólks.

Og talandi um ábyrgð. Ég sagði í upphafi að við værum að kjósa um veðrið. Það er ekkert djók. Árið 1979 þótti Sólskinsflokkurinn agalega fyndið framboð. Þau lofuðu betra veðri á Íslandi. Í dag vitum við að mannfólkið hefur raunveruleg áhrif á veðurfar. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein stærsta ógn sem steðjar að mannkyninu. Og þær eru ekki síður réttlætismál en það sem ég hef rakið hér á undan.

Sumir fá glýju í augun þegar þeir hugsa til tækifæranna sem loftslagsbreytingar kunna að hafa í för með sér fyrir Íslendinga. Ekki ég. Og ekki við Vinstri græn. Loftslagsbreytingarnar munu hafa hrikaleg áhrif á lífsgæði fólks um allan heim. Þær munu valda hungursneyð og örbyrgð og auka á misskiptingu ríkra og fátækra landa.

Loftslagsbreytingarnar munu ennfremur vinna gegn sjálfsögðu jafnrétti kynslóðanna. Ef fram heldur sem horfir munu lífsgæði barna okkar og barnabarna verða mun verri en okkar sem nú lifum.

Það er skylda okkar að bregðast við. Sem einstaklinga, sem hreyfingar, sem borgar og sem lands.

Margt gott hefur gerst í Reykjavík í þessum efnum, ekki síst fyrir tilstuðlan Vinstri grænna. Miklar umbætur hafa orðið á hjólastígakerfi borgarinnar, almennignssamgöngur eru í stöðugri þróun og aðförin að einkabílnum er ekki lengur bara áhugamál kreddufullra vinstrimanna og umhverfishippa heldur sjálfsagt viðfangsefni allra stjórnmálaflokka.

En betur má ef duga skal og þar á krafan um réttlátari Reykjavík aldeilis við. Enn virðist enginn annar stjórnmálaflokkur vera reiðubúinn að horfast af alvöru í augu við vandann sem við blasir á Hellisheiði, þar sem Orkuveitan hefur gengið allt of hart fram gagnvart jarðhitauðlindinni á Hengilssvæðinu og enn eru uppi hugmyndir um frekari virkjanir. Brennisteinsmengun leggur yfir svæðið og niðurdæling affallsvatns veldur jarðskjálftum.

 • Í réttlátu samfélagi ganga menn ekki fram af náttúrunni
 • Í réttlátu samfélagi er náttúran látin njóta vafans
 • Í réttlátu samfélagi er fjármunum almennings ekki varið í tilraunastarfsemi í þágu mengandi stóriðju
 • Í réttlátu samfélagi er borin virðing fyrir lýðheilsu og eignum fólks umfram möguleg gróðasjónarmið orkufyrirtækja

Það verður að stíga varlega til jarðar. Við verðum að staldra við og bíða, draga lærdóm af öllum þeim stórfenglegu mistökum sem gerð hafa verið og vinda ofanaf gerræðislegum samningum um frekari orkuöflun til stóriðju.

Kæru félagar.

Þau verkefni sem ég hef farið hér í kvöld mun enginn vinna nema Vinstrihreyfingin grænt framboð. Það er ekkert framboð með jafn skýra sýn og jafn heildstæða stefnu um réttlátara samfélag.

Ekkert annað framboð er reiðubúið til að afnema efnahagslegar hindranir til menntunar – m.a.s. Jafnaðarmannaflokkur Íslands telur kostnaðarþátttöku foreldra mikilvæga fyrir þjónustu hins opinbera og enginn fer í grafgötur með afstöðu, aðgerðir eða fyrirætlanir hægriflokkanna.

Ekkert annað framboð er tilbúið til að standa vörð um grunnþjónustu og samfélagsleg fyrirtæki. Samfylking og Björt framtíð hafa aldeilis sýnt vilja í verki á kjörtímabilinu, farið í viðræður við lífeyrissjóði vegna verkefna Orkuveitu Reykjavíkur, boðið út ferðaþjónustu fatlaðra og selt hlut okkar Reykvíkinga í HS-Veitum. Og aftur þarf ekkert að segja ykkur frá afstöðu, aðgerðum eða fyrirætlunum hægriflokkanna.

Ekkert annað framboð hefur talað fyrir ábyrgri auðlindanýtingu, gegn stóriðjustefnunni og með almannahagsmunum, umhverfi, náttúru og komandi kynslóðum. Fagurt Ísland Samfylkingarinnar er dregið fram fyrir kosningar, Besti flokkurinn syngur í karaókí fyrir auðlindir á meðan fjölmiðlar veita því athygli – en því miður er ekki stólandi á þessa flokka þegar á reynir. Og enn eina ferðina þarf ég ekki að segja ykkur frá afstöðu, aðgerðum eða fyrirætlunum hægriflokkanna.

Það er alveg ljóst – að Vinstrihreyfingin grænt framboð er eini raunverulegi valkosturinn ef við viljum samfélag félagslegs réttlætis með öllu því sem slíkt samfélag inniber – umhverfisvernd, frið og kvenfrelsi.

Kæru félagar.

Ég ætla að enda þetta á að ræða stöðu stjórnmálanna í dag – akkúarat í dag, þremur dögum fyrir kosningar. Eftir afdrifaríkar kosningar í Evrópu þar sem öfgahægri og rasismi vann stórsigur virðist ógnvekjandi alda vera að flytjast með ofsahraða til Íslands.

Könnunin í dag og þróun kannana undanfarna daga bendir til þess að Framsóknarflokknum takist jafnvel að ná inn manni í borgarstjórn með fordæmalausum og fordómafullum málflutningi á kostnað minnihlutahópa og mannréttinda. Tilhugsunin er óbærileg. Ekki bara tilhugsunin um stjórnmál þar sem leyfilegt er að valta yfir grundvallarmannréttindi – heldur ekki síður um að borgarbúar séu mögulega reiðubúnir að velja þessi sjónarmið framyfir önnur.

Framsóknarflokkurinn bauð fram og tók sér strax pláss sem gamaldags, heiftúðugt niðurrifsafl. Ekki bara gamaldags íhald, heldur reglulega harðsnúið öllu því sem gert hefur verið eða boðað til framfara. Þegar svo við bættist boðskapur sem elur á fordómum og rasisma keyrði um þverbak.

Eitt er þó verra en tilhugsunin um borgarstjórn með Framsóknarmönnum. Það er tilhugsunin um borgarstjórn með Framsóknarmönnum án Vinstri grænna. Könnunin í dag og þróunin undanfarna daga gefur okkur tilefni til að óttast það að rödd Vinstri grænna hverfi úr borgarstjórnarsalnum. Það má ekki gerast.

Nú reynir á – af alvöru.

Ástandið í samfélaginu kallar á skýra, sterka og háværa vinstrirödd. Vinstrið er mótvægið við öfgarnar – mótvægið við misréttið – mótvægið við fordómana.

Við erum vinstrið kæru félagar. Það er okkar að tryggja að rödd Vinstri grænna hljómi áfram á vettvangi borgarstjórnar, að áfram verði barist með kjafti og klóm gegn misrétti – gegn arðráni – gegn rányrkju – með réttlæti – með ábyrgð og sanngirni.

Við trúum á málstaðinn. Við stöndum með honum. Við höfum kjark og kraft til að berjast. Látum það gerast. Tökum öll þátt.

Ég vona svo sannarlega kæru félagar að ég sé að gera úlfalda úr mýflugu. Að vondu kannanirnar séu rangar og góðu kannanirnar réttar. En það gefur ekki síður tilefni til þess að við leggjum allt undir næstu daga. Því ef bestu kannanir reynast réttar og við leggjum samt allt undir – þá tryggjum við ekki bara rödd Vinstri grænna – heldur helmingi sterkari rödd. Þá náum við því markmiði sem við höfum stefnt að í allt vor og munum ekki gefa upp á bátinn – að ná Líf Magneudóttur inn í borgarstjórn.

Á laugardaginn eigum við í alvörunni möguleika á að tryggja líf í borgarstjórn. Gerum það á þeim þremur dögum sem eftir eru. Setjum undir okkur hausinn og sannfærum borgarbúa.

Áfram við!

Ræðan var flutt á skemmtikvöldi Vinstri grænna í Reykjavík 28. maí 2014.

Áfram Vinstri græn – áfram Reykjavík!

vgborg

Félagsfundur Vinstri grænna í Reykjavík hefur nú samþykkt 30 manna lista fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Ég held svei mér að það veiti ekkert af þessu fólki – listinn er ómótstæðilegur.

Fjölbreyttur hópur fólks

Við bjóðum fram fólk á aldrinum 19-85 ára. Fólk úr öllum póstnúmerum, með grunnskólapróf, framhaldsskólapróf, háskólapróf, iðnmenntun, tónlistarnám og alls konar gráður á fjölmörgum sviðum. Við bjóðum fram fólk með óhemju reynslu úr næstum öllum starfsstéttum og allskonar grasrótarstarfi og félagasamtökum. Fólkið hefur ferðast um öll heimsins höf og búið víða. Það hefur fjölbreytt áhugamál og sérþekkingu á ótrúlegustu hlutum, s.s. veirufræði, knattspyrnu, þungarokki, bókmenntum, pylsugerð, skipulagsmálum, eurovision, prjónaskap, geðvernd, trúmálum, trúleysi, hjólreiðum, matargerð, skíðum, leikhúsi og fjölmörgu öðru.

Þessi fjölbreytti hópur á margt sameiginlegt. Við erum hugrökk og staðföst og brennum fyrir hugsjónir okkar og erum tilbúin til að taka virkan þátt í að breyta samfélaginu til hins betra. Mikilvægast er þó að við erum sammála um að vilja friðsæla borg þar sem ríkir kvenfrelsi og félagslegt réttlæti. Við erum sammála um að virða beri umhverfi og náttúru og tryggja komandi kynslóðum mannsæmandi lífsskilyrði.

Við verðum að…

Í Reykjavík geta Vinstri græn svo sannarlega breytt til hins betra. Við þurfum að forgangsraða fjármunum með sanngjarnari hætti, leiðrétta þarf kjör uppeldis- og umönnunarstétta og tryggja að öll börn geti notið leik- og grunnskóla og frístunda án aðgreiningar eftir efnahag eða félagslegum aðstæðum.

Við verðum að fjölga félagslegum leiguíbúðum og stuðla að fjölbreyttari og sanngjarnari húsnæðismarkaði, við verðum að tryggja sómasamlega félagslega aðstoð og við verðum að innleiða þjónustu sem byggir á þörfum og vilja íbúanna.

Við verðum að leggja ríkari áherslur á almenningssamgöngur og hjólreiðar, þétta byggð með skynsamlegum hætti og efla nærþjónustu til að draga úr notkun einkabílsins. Við verðum að koma í veg fyrir rányrkju auðlindanna á Hellisheiði og stuðla að skynsamlegri rekstri Orkuveitunnar.

Við verðum að auka áhrif borgarbúa stuðla að valdeflingu og draga úr miðlægri stjórnsýslu. Við verðum að tryggja að almannaþjónusta sé á forræði almennings og kostuð af sameiginlegum sjóðum og koma í veg fyrir að hægt verði að græða með einum eða öðrum hætti á sjálfsagðri og sameiginlegri grunnþjónustu. Sérstaklega ber okkur að verja Orkuveituna, grunnskólana og leikskólana gegn einkavæðingu.

Við verðum að stuðla að sanngjarnari gjaldheimtu og stefna að því að útsvarið dugi fyrir því sem þarf. Að það verði raunverulega þannig að fólk útsvar eftir getu og nýti það eftir þörfum.

Ég gæti haldið lengi áfram. Þörfin fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð í Reykjavík er óvíræð. Nú þegar við höfum valið fólk á lista getum við hafist handa við að sannfæra borgarbúa um mikilvægi friðsældar, kvenfrelsis, umhverfis- og náttúruverndar og félagslegs réttlætis.

Gott vor í vændum

Fjölbreyttur en samstilltur hópur fólks sem er tilbúið til að breyta er það besta sem ég veit. Ég hlakka til að vinna með þessu fólki að borgarstjórnarkosningunum í vor og ekki síður á næsta kjörtímabili.

Með stefnuna okkar í huga, hugmyndafræðina í maganum og eldmóðinn í hjartanu getum við Vinstri græn gert þessa borg að sanngjarnara samfélagi þar sem allir geta lifað með reisn, tekið þátt og ræktað með sér þá hæfileika sem í þeim býr. Við ætlum að búa til borg réttlætis, virðingar og tækifæra. Hreina og fallega borg. Ekki bara fyrir okkur sjálf, heldur líka börnin okkar og börnin þeirra.

Áfram Vinstri græn – áfram Reykjavík!

Ræðan var haldin á félagsfundi VGR 24. mars 2014

Um pólitík – af flokksráðsfundi 7.2.2014

Setningarhátíð vetrarólympíuleikanna í Sochi stendur nú yfir. Í Rússlandi, þar sem nýlega voru sett lög um bann við áróðri um samkynhneigð. Þar sem mannréttindi eru brotin daglega, sér í lagi gagnvart samkynhneigðu, tvíkynhneigðu og transfólki.

Íslendingar eiga fimm keppendur á leikunum, frábært afreksfólk sem hefur lagt mikið á sig til að ná þessu langþráða markmiði. Stuðningur okkar hinna og aðdáun á þessu fólki er sjálfsögð og eðlileg og við vonum öll að þeim gangi sem allra best.

Íslendingar munu jafnframt eiga einn forseta og einn ef ekki tvo ráðherra á leikunum. Þrjá íslenska ráðamenn sem ítrekað hafa verið beðnir um að láta í það minnsta í sér heyra – fyrst þeir ætla að vera að þvælast þarna í mekka fordómanna.

Íslensku ráðamennirnir gefa lítið fyrir kröfur um mótmæli eða yfirlýsingar, heldur taka undir það sem forsvarsmenn leikanna hafa sagt, að það eigi ekki að blanda saman pólitík og íþróttum. Mögulega muni þau koma mótmælum á framfæri ef þau fái tækifæri til. Annars séu þau ekki þar í pólitískum tilgangi.

Einhverjum var þá spurn af hverju verið væri að senda pólitíska fulltrúa á íþróttamót ef það mætti ekki blanda saman pólitík og íþróttum – og er nema von?

Að blanda pólitík í þetta eða hitt er alls ekki alltaf vel séð. Ekki einu sinni þegar um stjórnmálafólk er að ræða. Pólitík er oft skilgreind sem andstæða fagmennsku – og jafnvel með hugtökum á borð við sérhagsmuni eða spillinu – í staðinn fyrir að hún sé virt sem sá mikilvægi þáttur mannlífs og samfélags sem hún er.

Gott dæmi um þetta er umræðan um faglega stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Um að pólitíkusar eigi ekki heima þar – í stjórninni eigi bara að sitja “faglega” skipaðir fulltrúar sem taki “faglegar” ákvarðanir. Auðvitað er stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hápólitískur vettvangur sem tekur pólitískar ákvarðanir á hverjum einasta fundi – rétt eins og aðrar pólitískar ákvarðanir sem kjörnir fulltrúar taka oft á dag.

Fullyrðing um að eitthvað sé ekki pólitískt eða að pólitík eigi ekki erindi einhvert er varðstaða um ríkjandi ástand. Að blanda ekki pólitík við ólympíuleika þýðir að við horfum framhjá mannréttindabrotum, að blanda ekki pólitík í starfsemi Orkuveitunnar þýðir að við rekum fyrirtæki án hugmyndafræði.

Uppruna orðsins pólitík má rekja til grísku, þar sem það þýðir “um, fyrir eða varðandi íbúa”. –Sem á sæmilegri íslensku gæti heitið almannahagsmunir. Að blanda ekki pólitík í mál þýðir sumsé að við blöndum ekki almannahagsmunum í mál.

Krafan um ópólitískar ákvarðanir, ópólitískar íþróttir og ópólitískt stjórnmálafólk er krafa um afskiptaleysi og ignorans. Krafa um að fólk beiti sér ekki, hafi ekki hugmyndafræði og ekki stefnu.

Sem betur fer tilheyri ég hreyfingu sem skilur mikilvægi pólitíkur. Sem skilur mikilvægi hugmyndafræði og hefur mótað sér stefnu sem í grunninn hefur almannahagsmuni að leiðarljósi á öllum sviðum.

Vinstihreyfingin – grænt framboð hefur skýrar línur. Við gerum kröfu um að mannréttindi séu virt, um félagslegt réttlæti, umhverfis- og náttúruvernd, kvenfrelsi og frið. Við hikum ekki við að segja skoðun okkar – og búum okkur til tækifæri er svo ber undir. Við erum óhrædd við að standa með stefnu okkar og hugsjónum.

Auðvitað ætti ekki að þurfa að taka það fram – skárra væri það nú, þótt stjórnmálaflokkur stæði með stefnu sinni og hugsjónum. –En það er bara alls ekkert sjálfsagt í dag.

Látum það ekki á okkur fá þótt æðstu ráðamenn þjóðarinnar séu á leið til Rússlands með bundið fyrir bæði augu og eyru. Lítum á það sem hvatningu. Hvatningu til að standa okkur vel – standa með almannahagsmunum – standa með pólitík – vinna heiðarlega að stefnu okkar og hugsjónum á hvaða vettvangi sem er – á þingi – í opinberum störfum – í einkageiranum – heima og í frítímanum. En fyrst og fremst skulum við á þessum tímapunkti líta á það sem hvatningu til að koma sjónarmiðum okkar skýrt og skilmerkilega til skila og tryggja okkur sem besta kosningu í sveitarstjórnum í vor.

Við verðum að tryggja mótvægi við ríkisstjórn íhalds, sérhagsmuna og yfirgangs í sveitarstjórnum landsins. Það veitir ekki af.  Áfram Vinstri græn!

Borgarstjórn 26.11.2013 – Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030

Ég ætla ekki að hafa langt mál hér í dag, enda hefur verið farið mjög vel yfir tillöguna sem hér liggur fyrir, ég hef tjáð mig efnislega um ólíka kafla skipulagstillögunar fyrr í ferlinu, bæði hér í borgarstjórn og á fundum í stýrihópnum og skipulagsráði fyrir það. Ég ætla því fyrst og fremst að kvitta hér í dag – og þakka fyrir mig.

Áhrif okkar á umheiminn, á hafísinn, á loftslagið, á sjávarmálið og sýrustig sjávar – eru ótvíræð – og svo mikil að við eigum engra kosta völ. Við verðum að breyta hugsunarhætti okkar og lifnaðarháttum – sama hvað hverjum finnst. Umhverfið kallar á það – heimurinn – andrúmsloftið – sjórinn – lífríkið  og vistkerfið jörð.

Við verðum að stöðva útblástur gróðurhúsalofttegunda, við verðum að gera róttækar breytingar á samgönguháttum okkar og við verðum að lifa og umgangast umhverfi okkar af meiri virðingu og nærgætni. Skipulag borgarinnar skiptir gríðarlega miklu máli í þessu samhengi. Það getur stuðlað að minni útblæstri  ef vel er gert – en meiri ef ekki er að gætt.

Skipulagið getur raunar skipt gríðarlega miklu máli fyrir samfélagið allt á svo mörgum sviðum. Þar er grunnurinn lagður að samfélaginu – að búsetu – að þjónustu – að viðskiptum – að samgöngum – að útivist – að menningu – að lýðheilsu – að jafnrétti – að menntun – að velferð og svo mörgu öðru. Aðalskipulagið leggur grunn að þessu öllu.

Þetta aðalskipulag er að mínu  mati gott og ég trúi því að það geti alvöru haft áhrif til góðs á alla þessa þætti.

Sumum finnst skrítið að ég sé að fagna og hrósa tillögunni svona oft og endalaust. Fólk undrast að ég skuli standa svo þétt með meirihlutanum og þeirra vinnu.

Það er bara alls ekki þannig. Þessi tillaga er alls ekki bara meirihlutans. Hún er allt eins mín. Og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Framsóknar ef því er að skipta. Tillagan byggir á einstöku samstarfi fulltrúa allra flokka, starfsfólks og embættismanna þar sem allir hafa lagt sitt af mörkum og gætu auðveldlega unað sáttir við sitt.

Ég viðurkenni vel að ég hef ekki fengið öllu mínu framgengt. Ég hefði viljað sjá Elliðaárdalinn óáreittan og ég hefði viljað sleppa þessu klasauppbyggingaræði sem mörgum finnst svo spennandi, svo eitthvað sé nefnt. Þannig er það – en það þýðir ekki að ég ætli að hlaupa frá vinnunni í fýlu. Ég tek ábyrgð á því sem ég og forverar mínir í stýrihópi um aðalskipulagið hafa unnið að fram til þessa.

Árangurinn er nefnilega ótvíræður. Ég er stolt af framlagi okkar Vinstri grænna sem gerði tillöguna enn betri en hún annars hefði orðið.

Svo er það þannig að þó Aðalskipulagið sé mikilvægt, þá þarf að fylgja því eftir af festu og skynsemi – hver einasti reitur og hvert einasta svæði – hvert einasta hverfi í hverjum einasta borgarhluta – mun krefjast eftirfylgni og þess að hagsmunir umhverfis og borgarbúa verði í forgrunni.

Ég er sumsé stolt af því að standa hér með meirihluta borgarfulltrúa að samþykkt nýs aðalskipulags – aðalskipulags sem við eigum öll saman – aðalskipulags sem er í þágu góðrar og grænnar framtíðar. Ég er stolt af því að vera fulltrúi nýrra vinnubragða þar sem fólk vinnur saman þvert á gamaldags meiri- og minnihlutaskiptingar.

Ég tel það vera hlutverk mitt að tryggja sem besta vinnu í þágu borgarbúa – og ég tel mig hafa rækt það hlutverk með ágætum á þessu sviði. Ég hefði vel getað sett fram mína ítrustu afarkosti, látið meirihlutann hafna þeim og gagnrýnt hann fyrir það. En hverju hefði ég verið bættari? –Hverju hefðu borgarbúar verið bættari? –Hvaða áhrif hefði það haft á aðalskipulagið?

Hefði ég – og aðrir þeir fulltrúar sem komið hafa að vinnunni og standa að þessari málamiðlun – hagað mér með þeim hætti, þá væri aðalskipulagið einsleitara, skammsýnna og einfaldlega verra. Svona mikilvæg stefnumörkun krefst þess að allir leggi í púkkið og miðli málum. Þannig fæst besta niðurstaðan.

Þess vegna er ég á því að afarkostapólitík sé ekki viðeigandi í þessu máli. Hún kann að eiga rétt á sér stundum og í annars konar málum – en ekki þessu.

Eins og ég sagði, þá snýst þessi ræða mín fyrst og fremst um að kvitta og þakka fyrir mig. Það hyggst ég gera með eftirfarandi hætti – bókun í lengri kantinum – enda er málið í stærri kantinum. Hún er svohljóðandi:

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar lýsir róttækri framtíðarsýn á sama tíma og borin er virðing fyrir sögu borgarinnar og þeim verðmætum sem í henni felast. Aðalskipulagið er í grænt, félagslega sanngjarnt og femínískt og rímar vel við þessi grunnstef í hugmyndafræði Vinstri grænna.

Aðalskipulagið leggur grunn að þéttri byggð með sjálfbærari hverfum. Það mun stuðla að styttri ferðum innan borgarinnar og fjölbreyttari samgönguháttum, draga úr svifryksmengun og útblæstri bifreiða. Það eru mikilvægar aðgerðir til að sporna gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Slegið er af kröfum um bílastæði og stórkarlaleg umferðarmannvirki.

Aðalskipulagið gerir ráð fyrir bættri nýtingu á svæðum sem þegar hefur verið raskað, en þar mun stærstur hluti uppbyggingarinnar eiga sér stað á komandi áratugum. Útþensla borgarinnar með tilheyrandi umferðarþunga og –mann-virkjum heyrir þannig sögunni til. Uppbygging á grænum svæðum er í lágmarki.

Aðalskipulagið gerir ráð fyrir aukinni félagslegri fjölbreytni með skýrum ákvæðum um margvíslegt búsetuform. Gert er ráð fyrir íbúðum af öllum stærðum og gerðum og sérstök áhersla lögð á fjölgun leigu- og búseturéttaríbúða.

Aðalskipulagið leggur grunn að bættri nærþjónustu sem kemur til móts við þarfir barna og fjölskyldna innan hverfis. Þannig er dregið úr ferðatíma fólks og skutli sem veitir foreldrum aukið frelsi til að samræma atvinnu- og fjölskyldulíf, betri starfsaðstæður og jafnari tækifæri. Það leiðir aftur af sér aukin lífsgæði, bæði fyrir börn og fullorðna.

Aðalskipulagið er afurð sjö ára vinnu fulltrúa allra flokka. Niðurstaðan er þverpólitísk málamiðlun sem allir hlutaðeigandi geta vel við unað þó ekki hafi verið hægt að mæta ítrustu kröfum neins fulltrúa. Borgarfulltrúi Vinstri grænna telur því brýnt að setja fyrirvara við uppbyggingarreiti í jaðri Elliðaárdalsins sem getur haft talsverð áhrif á lífríki og útivistargildi svæðisins. Að sama skapi er settur fyrirvari við klasauppbyggingu atvinnusvæða sem borgarfulltrúinn telur að gæti unnið gegn markmiðum um fjölbreytt mannlíf á þeim svæðum sem um ræðir og íbúasvæðum í kringum þau.

Að þessu sögðu fagnar borgarfulltrúi Vinstri grænna samþykkt nýs aðalskipulags og þakkar samstarfsfólki, embættismönnum og forverum sínum í stýrihópi um endurskoðun aðalskipulagsins fyrir mikið og gott samstarf.

Borgarstjórn 5.11.2013 – Tenging Hverahlíðar við Hellisheiði

Hellisheiðarvirkjun er of ágeng. Það er vandamál sem við stöndum frammi fyrir í dag. Hún var byggð of hratt og án þess að málin væru skoðuð til hlítar. Það voru gerðir of stórir raforkusölusamningar og með of fáum fyrirvörum.

Vandinn sem við glímum við í dag varð til af því að varúðarsjónarmið voru virt að vettugi og áhættuþættirnir stórlega vanmetnir. Skynsemisraddir voru úrtöluraddir. Mótmælendur voru á móti öllu. Reyndar var ekkert mjög mikið af þeim – af því málið var í eðli sínu flókið og lítið gert til að upplýsa fólk um hvað var í gangi. Svo vildi fólk líka ekkert vera með úrtöluraddir og á móti öllu. Betra að vera bara með – eða í það minnsta þegja. Almennt var stemningin því sú að Orkuveita Reykjavíkur væri í sjálfbærri vinnslu á grænni orku – og allt væri í lukkunnar velstandi.

Dáldið eins og í bönkunum í denn. Þar voru allskonar flóknir afleiðusamningar og viðskiptavild sem skilaði milljarðahagnaði og bónusar vegna ábyrgðar sem var svo mikil að við hin gátum ekki ímyndað okkur.  Þar var allt í slíku lukkunnar velstandi að Íslendingar áttu helst að veggfóðra heimili sín með flatskjáum. Skynsemisraddir voru úrtöluraddir og mótmælendur voru á móti öllu. Það var ekki heldur neitt mjög mikið af þeim, af því að fólk vildi ekkert vera með útröluraddir og á móti öllu. Það var betra að vera bara með og þegja.

Svo hrundi allt. Fyrst bankarnir – með tilheyrandi afleiðingum fyrir okkur öll – og ekki síst Orkuveituna. Lungan úr þessu kjörtímabili höfum við verið að vinna að því að endurreisa efnahag Orkuveitunnar – af því að þrátt fyrir allt hafði fólk trú á því að fyrirtækið gæti verið arðbært og borgarbúar ættu að geta notið þess innan fárra ára.

En það voru ekki bara bankarnir og fjárhagur Orkuveitunnar sem hrundu – heldur kom það á daginn sem sumir óttuðust en aðrir neituðu að horfast í augu við – að framkvæmdir og fjárfestingar á Hellisheiði reyndust hvorki sjálfbærar ná grænar.

Fyrst áttaði fólk sig á því að brennisteinsmengun er mikil og megn og líklega hættuleg – og að við verðum að breyta upphaflegum áætlunum og draga mjög úr henni. Þann vanda höfum við ekki leyst, en það verkefni verður bæði tímafrekt og kostnaðarsamt að leysa.

Svo kom í ljós að niðurdæling affalsvatnsins var flóknari og erfiðari en upphaflega var áætlað – og ekki vitað hvernig leysa á úr þeim vanda eftir mikla tilraunastarfsemi er alls ekki víst að við getum haldið fullum afköstum á Hellisheiðarvirkjuninni áfram, enda er niðurdælingin forsenda starfsleyfis virkjunarinnar.

Til að bæta gráu ofaná svart er svo nú komið í ljós, viðurkennt og uppi á borðum, að áætlanir um orkuöflun voru óraunhæfar með öllu. Eftir aðeins eins árs rekstur hefur framleiðsla virkjunarinnar dvínað mjög og ljóst að hún mun fara hratt dvínandi ef ekkert verður að gert.

Hraustleg og spennandi áform um hraða uppbyggingu grænnar og sjálfbærrar orku eru hvorki hraustleg né spennandi lengur – þegar við blasir hráslagalegur veruleikinn. Við sitjum uppi með milljarða fjárfestingar sem skila okkur ekki söluvörunni sem við erum búin að semja um langt inn í framtíðina.

Við getum ekki framleitt það sem við sögðumst ætla að framleiða – og sömdum um að framleiða. Og í þessum hráslagaleika kemur líka í ljós að samningarnir kveða á um að við eigum þá bara samt að framleiða vöruna – og við verðum að afhenta hana jafnvel þótt við eigum hana ekki.

Þannig er það núna – að við rekum virkjun sem framleiðir 276 MW af raforku en eigum að afhenta 303 MW. Framleiðslan mun fara niður um allavega 6 MW á ári en samningarnir standa samt.

Rekstur virkjunarinnar kostar áfram það sama – afhendingin á að fara fram – en orkan er ekki til. Þá eru góð ráð dýr – og það í orðsins fyllstu merkingu – og aðeins fyrir almenning.

Hraustlegu og spennandi samningarnir sem gerðir voru í upphafi gera nefnilega ekki ráð fyrir að kaupandinn taki á sig kostnað vegna mögulegra áfalla – ekki vegna brennisteins, ekki vegna niðurdælingar og ekki einu sinni þótt orkan sé ekki til.

Það er sumsé þannig að þrátt fyrir góðan vilja og umfangsmiklar aðgerðir til að koma Orkuveitu Reykjavíkur í örugga höfn, þá er staða hennar sennilega viðkvæmari en nokkru sinni. Forsendur rekstrarins eru í algeru uppnámi þar sem auðlindin er annars eðlis en talið var – og vinnanleg orka minni en gert hafði verið ráð fyrir.

Og hvað gera bændur þá? –Hvað gera borgarbúar sem sitja uppi með slík samningsóbermi? –Reyna þeir allt sem þeir geta til að standa við samningana – ná í spariféð og frístundaféð og neysluféð og nauðsynjaféð til að geta aflað orkunnar sem þeir sögðust ætla að afla og afhenta? –Hversu lengi geta borgarbúar gert það – og hvað gera þeir þegar peningarnir og/eða orkan klárast? Hver ber ábyrgðina – hver á að leysa málið – og hvaða tillögur liggja fyrir?

Stjórnendur Orkuveitunnar voru ekki lengi að finna lausn. Þeir lögðust yfir málið með starfsfólki og sérfræðingum sem sáu þá leið vænsta að tengja tilraunaholurnar í Hverahlíð með lögn niður í Hellisheiðarvirkjun og ná þannig inn gufu sem ætti að geta framleitt 45 MW til viðbótar. Sú lausn var kynnt fyrir stjórn Orkuveitunnar á sama tíma og vandinn.

Og um það snýst tillagan sem er á dagskrá borgarstjórnar í dag. Með tillögunni var lögð fram samantekt fyrir okkur kjörnu fulltrúana á nokkrum ólíkum leiðum – þar sem kostir og áhættuþættir ólíkra leiða eru metnir.  –Eða allavega sumra. Sumar leiðir hafa nefnilega enga kosti og sumar enga áhættuætti – ótrúlegt en satt.

Fjórar leiðir voru skoðaðar, kostir þeirra og áhættuþættir. Ég ætla bara að fjalla um niðurstöður varðandi tvo þeirra, enda aðeins þeir sem eru til umræðu hér:

1. Að gera ekki neitt – auka raforkukaup og minnka sölu.

Niðurstöður sérfræðinga Orkuveitunnar varðandi þennan lið eru eftirfarandi:

 • Áhætta
  • Að verð frá Landsvirkjun hækki.
  • Að vinnslusvæðið dali hraðar en áætlað er hér og raforkukaup aukist enn frekar.
  • Að niðurrennsli valdi því að draga verði enn frekar úr framleiðslu þar til lausn finnst.
  • Að tækifæri til sölu glatist.
 • Kostir
  • Engir

Það eru sumsé engir kostir við að gera ekkert. Það þykir ekki kostur að sleppa við áhættuna af frekari framkvæmdunum – að sleppa við mögulegar fyrirséðar og ófyrirséðar uppákomur – það þykir ekki kostur að við séum ekki í raforkuframleiðslu á meðan til er nóg af raforku í landinu, þótt annað fyrirtæki sé að vissulega að því.

Í því samhengi verðum við að átta okkur á því að borgarbúar eiga tvö raforkufyrirtæki – Orkuveituna og Landsvirkjun. Landsvirkjun er að gangsetja Búðarhálsvirkjun án þess að hafa selt allt það rafmagn sem þaðan kemur innan fárra mánaða – og  það er áhyggjuefni út af fyrir sig. Að fara að fjárfesta þá í frekari framleiðslu, og það svona áhættusamri er algert óráð.

Þessi leið er talin kosta alls um 11 milljarða króna á næstu 11 árum – en um þær upphæðir má sannarlega deila, enda allt eins líklegt að hægt verði að semja um yfirtöku Landsvirkjunar á hluta samninganna.

2. Að tengja núverandi holur í Hverahlíð við Hellisheiðarvirkjun.

Niðurstöður sérfræðinga Orkuveitunnar varðandi þennan lið eru eftirfarandi:

 • Áhætta
  • Framkvæmd gæti frestast vegna skiulags- og leyfismála
 • Kostir
  • Gufuöflun fyrir Hellisheiðarvirkjun er tryggð meðan gufan verður ekki nýtt í annað.
  • Niðurrrennsli er leyst til skamms tíma án frekari framkvæmda.
  • Holur í Hverahlíð hafa blásið og afkastamælingar gerðar.
  • Þetta er fjárhagslega hagkvæmasti kosturinn.
  • Andrými gefst til að rannsaka frekari möguleika á gufuöflun.
  • Andrými gefst til að rannsaka frekri möguleika á niðurrennsli.
  • Skiljuvatn frá Hverahlíð nýtist í lágþrýstivél og í varmastöð Hellisheiðarvirkjunar.
  • Upplýsingar fást um vinnslugetu Hverahlíðarsvæðisins.

Um alla þessa kosti má deila. Það er fráleitt að taka gufunni í Hverahlíð sem gefinni – jafn fráleitt og það var að taka gufunni á núverandi vinnslusvæði sem gefnu. Auðvitað verðum við að gera ráð fyrir þeim möguleika að gufan endist ekki inn í ókomna framtíð – rétt eins og reynslan er að sýna okkur í dag. Að sama skapi getum við ekki verið viss um að lausnin á niðurrennslinu sé örugg, að afkastamælingarnar séu réttar í Hverahlíð og að kostnaðurinn fari ekki fram úr áætlun.

Þess utan er það afar umdeilt hvort vinnslusaga í Hverahlíð sé eftirsóknarverð eða mikilvæg nú þegar vinnslusagan á Hellisheiði hefur bara valdið okkur umfangsmiklum vandamálum. Okkur ætti að nægja að glíma við þau – og láta komandi kynslóðir um að kanna frekari lönd, telji þær þörf á.

Kostnaðaráætlun vegna leiðar 4 er 4,3 milljarðar – og telst það fjárhagslega hagkvæmasta lausnin. Núna. Í bili. Ef það er rétt sem kemur fram í áætluninni að það þurfi ekki að bora viðbótarholur fyrr en árið 2023. Eftir 10 ár. Sem ég leyfi mér að efast um. Og mér þætti eðlilegt að sérfræðingar Orkuveitunnar efuðust um líka.

Við höfum gengið of langt. Við hér inni berum mismikla persónulega ábyrgð, fæst nokkra, en það er okkar að finna bestu mögulegu lausn á þeirri stöðu sem upp er komin.

Við verðum að læra af reynslunni. Við verðum að læra af fljótfærninni – áætlunargleðinni – bjartsýninni – og vera raunsærri og ábyrgari í nálgun okkar gagnvart svæðinu, auðlindinni og almannafénu sem okkur hefur verið treyst fyrir.

Við megum ekki láta glepjast og halda áfram – við megum ekki hugsa í ársreikningum og kjörtímabilum – við verðum að hugsa langt inn í framtíðina og taka á vandanum um leið og hann kemur upp. Það þýðir að við getum ekki fallist á lausn sem fleytir okkur eitthvað áfram án þess að vita hveresu lengi eða hversu vel.

Í það minnsta verðum við vað vera viss – og afla uppýsinga. Það er ég ekki – og ég skynja að það eru ekki allir hér inni vissir, hversu vel sem þeir kunna að fara með það. Þess vegna mæli ég fyrir tillögu um að málinu verði frestað um eitt ár – á meðan kaupum við orku í heildsölu til að uppfylla þegar gerða samninga – og að við höstum ekki  í neinu.

Tillagan er svohljóðandi – með leyfi forseta:

Borgarstjórn samþykkir að fresta afgreiðslu málsins um eitt ár og nýta tímann til að kanna allar hliðar þess og aðra möguleika í þaula. Í millitíðinni verði leitað álits sérfróðra utan borgarkerfisins og Orkuveitunnar um þau atriði sem enn orka tvímælis, en fjölda spurninga er enn ósvarað sem lúta að lögfræði, jarðfræði, forðafræði, hagfræði og ekki síst siðfræði.

Til viðbótar við allt sem ég hef hér rakið í dag – hafa orðið talsverð tíðindi á vettvangi borgarstjórnar. Við erum í raun á tímamótafundi, þar sem hér sitja ekki lengur hressir og léttúðugir borgarfulltrúar Besta flokksins sem lofuðu aðeins að svíkja – heldur hafa þeir nú gengið til liðs við ábyrgan stjórnmálaflokk með stefnu og sjónarmið.

Það var ekki auðvelt að ætlast til einhvers af flokknum sem lofaði að svíkja – þó ég hafi leyft mér það öðru hverju. En núna, þegar hér sitja sex borgarfulltrúar Bjartrar framtíðar – þá er eðlilegt að krafist sé svara.

Í fjölmiðlum um helgina kom fram að tveir af stofnendum Bjartrar framtíðar hefðu sagt sig úr Samfylkingunni þar sem hugsjónir þeirra á sviði umhverfis- og náttúruverndar fóru ekki saman.

Björt framtíð á sumsé að vera umhverfisverndarflokkur – meiri en Samfylkingin með allt sitt Fagra Ísland í farteskinu – og það er nú ekkert lítið.

Það er því eðlilegt að ég krefji borgarfulltrúana svara – fólkið sem gengið er til liðs við umhverfisverndarflokk sem hvorki kennir sig við hægri né vinstri – hvort það sé reiðubúið til að níðast á náttúruauðlindum fyrir almannafé – eða hvort ekki sé betra að hinkra, anda í kviðinn, fara yfir varúðarsjónarmið og taka svo yfirvegaða ákvörðun?

Ef við vöndum okkur – ef okkur tekst að komast hjá frekari rányrkju á svæðinu – ef við finnum lausnir sem ekki ganga jafn hart fram gagnvart auðlindunum okkar – þá og aðeins þá – getum við komið í veg fyrir að einhvern tímann inni í framtíðinni standi hér borgarfulltrúi og tali um að til viðbótar við allt of hraða uppbyggingu og allt of ágenga nýtingu – hafi málin aldrei verið skoðuð til hlítar, heldur skammtímalausnum hlaðið hverri ofaná aðra þar til allt fór á versta mögulega veg.

Það verður að snúa af braut áhættusækni og skammtímahugsunar – og það verður aðeins gert með því að fylgja varúðarsjónarmiðum í hvívetna og kanna alla þá kosti sem uppi eru í stöðunni til að hægt sé að koma í veg fyrir frekari virkjanir og fjáraustur á kostnað almennings í þágu stóriðju. Þess vegna bind ég vonir við að borgarstjórn samþykki tillögu mína hér í dag- og að okkur lukkist að leysa úr vandanum sem við blasir á ábyrgan hátt gagnvart umhverfi, auðlindum og komandi kynslóðum.