Smjattað á hausnum af skömminni

 

Það hvarflaði svo sem aldrei að mér að þessi maður myndi biðja mig afsökunar. Framanaf var viðtalið nákvæmlega eins og við var að búast, þegar hann útskýrði hvernig allt sem hann hafði gert var réttlætanlegt og hvað allir aðrir höfðu verið vondir.

Það sem kom mér á óvart var þegar hann, sjálfur Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum bankastjóri Kaupþings, fór að útskýra fyrir Sigmari hvernig stjórnvöld ættu nú að koma til móts við almenning í landinu. Svo óforskammaður grunaði mig ekki að hann væri.

    mbl.is   Annarra að biðjast afsökunar         

Gleði og sorg

 

Það er skrýtið að sjá á eftir vinkonu sinni og samstarfskonu en samgleðjast henni innilega á sama tíma vegna nýs embættis. Við það bætist svo að hún tekur við embættinu af frábærri kraftakonu sem verður sjónarsviptir af á vettvangi stjórnmálanna.

Ég vil þakka Kolbrúnu fyrir undanfarin 10 ár. Fyrir að vinna af eldmóði að hugsjónum sem sjaldnast hafa átt upp á pallborðið og unnið stóra sigra fyrir okkur öll og komandi kynslóðir. Án hennar væri samfélagið ekki eins og það er í dag, það er á hreinu. Svandísi óska ég alls hins besta og er handviss um að hún á eftir að gera kraftaverk þarna eins og annars staðar.

Beggja á ég samt sem áður eftir að sakna sárlega.

    mbl.is   Svandís tekur við embætti umhverfisráðherra         

Of háttvirt hálstau

 

Á Smugunni er frétt um hinn ferska blæ sem fylgir Borgarahreyfingunni inn á Alþingi Íslendinga. Það er frábært þegar fólk hugsar út fyrir rammann og setur spurningamerki við gamlar og úr sér gengnar hefðir. Hreyfingin ætlar að vinna út frá flötum strúktúr og vera formannslaus – en virðist ekki komast upp með að vera án þingflokksformanns. Ég skil þau mætavel og finnst sorglegt ef hefðir og reglur hamla fólki í að vinna samkvæmt eigin sannfæringu og hugmyndafræði.

Ég tek líka undir með Borgarahreyfingunni hvað reglur um hálstau og orðanotkun varðar. Hátt- og hæstvirtur orð sem ekki eiga við. Reyndar er ég fylgjandi tiltölulega stífum fundarsköpum á Alþingi og finnst mikilvægt að eftir þeim sé farið. Það er mikilvægt að fólk tali til hvers annars með fullu nafni og tali af tilhlýðilegri virðingu. Í borgarstjórn gildir sú regla að tilgreina fullt nafn og starfstitil þegar við nefnum hvert annað á nafn og hefur hún gefist vel. -En hátt- og hæstvirt er kjánalegt.

Ég á þó afar bágt með að skilja hvað Þór Saari á við þegar hann segir að á Alþingi sé engin mætingarskylda og enginn yfirmaður – og að það sé mögulega ástæða þess að lítill hluti Íslendinga beri virðingu fyrir Alþingi.

Borgarahreyfingin, sem er sprottin upp úr búsáhaldabyltingunni, ætti að vita betur. Þó ekki sé einn skilgreindur yfirmaður á Alþingi, þá eru engir sem hafa fleiri yfirmenn en einmitt Alþingismenn. Þeir hafa heila þjóð. Þingmenn sitja í umboði þjóðarinnar. Þeim ber skylda til að mæta í vinnunna og sinna henni af alúð og kostgæfni. Annars er þjóðinni að mæta.

  

Til hamingju með daginn!

 

Muniði eftir stemningunni, kuldanum, lyktinni, taktinum og eldinum sem skíðlogaði á Austurvelli og í brjóstum okkar? Muniði eftir kröfunni um að ríkisstjórnin viki og boðað yrði til kosninga?

Í dag uppskerum við eins og við sáðum þá. Í dag ræður þjóðin. Í dag ætla ég að kjósa heiðarlegt og kjarkmikið fólk sem forgangsraðar í þágu fólksins í landinu, með félagslegt réttlæti, umhverfisvernd og kvenfrelsi að leiðarljósi. Þannig ætla ég að leggja mitt af mörkum til hins nýja Íslands.

  

Heiðarleiki borgar sig

 

Oft hafa kosningabaráttur orðið subbulegar, en ég - og mér mun eldra fólk – man ekki eftir að kosningabarátta hafi verið háð á jafn lágu plani og nú.

Kosningabarátta er í raun bara atvinnuviðtal. Þjóðin er að fara að ráða sér nýtt fólk til að sitja á þingi og mun taka ákvörðun í málinu á laugardaginn kemur. Sex framboð hafa sóst eftir að að eignast einhverja af fulltrúunum 63 sem ráðnir verða.

Í atvinnuviðtölum sýnir fólk venjulega sínar bestu hliðar og reynir eftir fremsta megni að nýta tímann til að sannfæra vinnuveitandann um að það geti gagnast vinnustaðnum. Svona alla jafna að minnsta kosti. Vinnuveitandinn metur svo hverjum hann treystir best.

Á laugardaginn þurfum við að vera búin að meta hverjum við treystum best til að taka við þeim 63 störfum sem nú eru að losna. Fram að því þurfum við að gera upp við okkur hverjir hafa staðið sig best í að sýna fram á hæfni og getu til að stýra þessu landi.

Ég trúi því ekki að fólk komi til með að ráða þau sem vörðu stærstum hluta atvinnuviðtalsins í að tala um vankanta hinna umsækjendanna. Kjósendur hljóta því að velja þá flokka sem leggja megináherslu á eigin stefnumál og hugmyndafræði og en ekki flokk sem með rangfærslum og afbökunum reynir að koma höggi á hina frambjóðendurna.

    mbl.is   Tengist ekki endurreisnarhópi         

Heimafæðingar

 

faedingfix  
Tómas minn nýfæddur í fangi móður sinnar og ljósmóður.

Þetta er gleðilegur fréttamoli, enda ekki oft sem heimafæðingar eru til umfjöllunar og enn síður öryggið sem í þeim felst.

Í Hollandi eru konur hvattar til að fæða heima, ef móður og fóstri heilsast vel. Þar fer fólk nefnilega bara á spítala ef það veikist og þarf á lækningu að halda. Þannig er það líka hér – að fæðingum undanskildum. Sem er skrýtið, því fæðing er alls ekkert sjúklegt ástand. Fæðing er eðlilegasti hlutur í heimi og gengur í langflestum tilvikum snuðrulaust fyrir sig. Ljósmæður eru sérmenntaðar til að taka á móti eðlilegum fæðingum og gera það af alúð og natni, í heimahúsum sem og á spítölum eða öðrum þar til gerðum stofnunum. Læknar eru sérmenntaðir til að lækna ef einhver veikist eða hlutirnir ganga ekki eins og vant er.

Hafi meðgangan gengið vel og konunni heilsast vel er heimafæðing góður kostur fyrir þær konur sem það kjósa. Komi eitthvað upp í fæðingunni gefst undantekningalaust nægur tími til að koma sér á spítala. Sjálf fæddi ég son minn heima. Það var ólýsanleg upplifun fyrir mig og bestu mögulegu aðstæður fyrir son minn til að fæðast.

Ég tek það þó fram að ég get ekki frekar en nokkur annar fullyrt um hvað sé besti kosturinn fyrir konur. Heimafæðingar eru einn valkostur, betri fyrir sumar og verri fyrir aðrar. Valið á alltaf að vera konunnar - en hún á að fá kynningu á öllum þeim kostum sem í boði eru.

    mbl.is   Heimafæðingar jafn öruggar og fæðingar á sjúkrahúsi