Baráttusöngur Kvennaframboðsins

Ég hef leitað að þessum texta í mörg ár en hvergi fundið – langt yfir skammt eins og svo oft. Annar höfundanna reyndist vera samflokkskona mín sem átti frumritið heima hjá sér. Hún pikkaði inn textann og sendi mér. Njótið: 

Konur hafa hingað til kúrt á bak við tjöld
karlmennina látið um að sitja við völd,
þolinmóðar hafa
þjónað pabba og afa,
en nú er komin önnur öld

Viðlag:
Oft var þörf en nú er nauðsyn
á að koma konum að.
Oft var þörf en nú er nauðsyn,
við erum sammála um það.

Skömmu eftir Krist mælti postulinn Páll
Að pent við skyldum þegja og enn er sá gáll-
inn á mörgum manni
að mæla skuli ei svanni.
Víst er sá vegurinn háll.

Viðlag: Oft var þörf en nú er nauðsyn…

Menn eru ekki konur en konur eru menn,
konur munu leggja á pallborðið senn,-
ekki vínarbrauð
heldur visku sinnar auð.
Ævintýrin gerast enn.

Viðlag: Oft var þörf en nú er nauðsyn…

Við erum konur og kætumst yfir því
að karlanna einveldi senn er fyrir bí.
Við tökum virkan þátt,
á okkar eigin hátt.
Vilt‘ ekki vera með í því.

Viðlag: Oft var þörf en nú er nauðsyn………

Hjördís Hjartardóttir og Valgeir Guðjónsson eiga heiður skilinn fyrir þessa dásemd – sem á því miður við enn þann dag í dag!

 

Nýsköpunarþing karla 2011

Ég var að fá boðskort á nýsköpunarþing. Að því standa Rannís, Íslandsstofa, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóður. Dagskráin er eftirfarandi:

  • Ávarp – Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra
  • Erindi – Guðmundur Nikulásson, framkvæmdastjóri hjá Eimskip
  • Erindi – Davíð Stefánsson, framkvæmdastjóri hjá Reykjavík Geothermal
  • Erindi – Kristinn Andersen, rannsóknastjóri hjá Marel
  • Erindi – Magnús Oddsson, nýtæknihönnuður hjá Össuri
  • Tónlistaratriði – Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóleikari
  • Fundarstjóri – Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs Atvinnulífsins

Boðskortið er skreytt með ljóði eftir Þórarinn Eldjárn.

Þetta minnir mig á sögu sem ég heyrði af undirbúningi á blaðamannafundi stjórnmálaflokks (ekki Vinstri grænna) fyrir ekkert svo löngu síðan. Formaðurinn lagði línurnar um efni og uppröðun og bætti svo við undir lokin: Mundu svo að hafa konu og hafa blóm.

Hvernig má það vera, eftir allt sem á undan er gengið, að nýsköpun sé bara viðfangsefni karla? -Eru í alvörunni engar konur sem hafa eitthvað til málanna að leggja? -Eða hafa mælendaskrársmiðir ekki áhuga á því sem konur hafa fram að færa?

Hér mun sjálfsagt einhver brydda upp á klassískri klisju um að konur séu bara svo tregar til að tala, það hafi verið talað við nokkrar sem ekki hafi komist eða ekki treyst sér og þess vegna hafi þetta endað svona. Með öðrum orðum: Skipuleggjendur hafi reynt smá en ekki nennt að standa í veseni til að tryggja fjölbreytt sjónarmið úr ólíkum áttum.

Það eru til tugir eða jafnvel hundruðir kvenna sem gætu riggað upp virkilega áhugaverðum erindum um nýsköpun. Þær eru bara ekki þarna – einhverra hluta vegna.

Hið veglega boðskort, sem skreytt var með ljóði Þórarins Eldjárns um mikilvægi þess að yrkja og virkja, hefði betur verið skreytt með þessu ljóði eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur:

Þegar allt hefur verið sagt
þegar vandamál heimsins eru
vegin metin og útkljáð
þegar augu hafa mæst
og hendur verið þrýstar
í alvöru augnabliksins
-kemur alltaf einhver kona
að taka af borðinu
sópa gólfið og opna gluggana
til að hleypa vindlareyknum út.

Það bregst ekki.

Það væri náttúrulega svakalega róttækt og öfgafullt ef stofnanir og fyrirtæki sem heita nýsköpunarþetta og nýsköpunarhitt færu að brydda upp á þeirri nýjung að kynna, miðla og hlusta á sjónarmið beggja kynja.

Áfram stelpur – framhald

Af því ég er enn svo svakalega spæld yfir nýju rannsókninni á hlutdeild kynjanna í sögubókum, þá er hér hitt lagið af Áfram stelpur plötunni sem er tileinkað sögubókunum. Upprunalegi textinn er eftir Lousie Waldén, í íslenskri þýðingu Dagnýjar Kristjánsdóttur og Kristjáns Jóhanns Jónssonar:

Já, kvenmannslaus í kulda og trekki kúrir saga vor
konurnar eru þar allavega ekki
þó ekki dræpust þær allar úr hor.

Fræðingarnir sleppa þeim stundum
og starf þeirra er ekkert til að fást um.

Hvar voru allar íslenzkar konur?
Einhverjar hafa verið hér
því karlmaðurinn er konusonur
hann kemur undan henni og sér.

Ég spyr – Hver var að raka
hver var að spinna
kemba og tæja
og kúnum að sinna?
spyr því það vantar alveg vitneskju um það.

Í fjósunum voru kýr og kálfar
mjólkuðu kýrnar sig kannski sjálfar?
Eða gerðu karlmenn það -
rétt eins og allt annað?

Það er ekki vanþörf að athuga þetta
því enginn veit neitt í sinn haus
um það hví allt gekk eins og í sögu -
og sagan alveg kvenmannslaus.

Þá var kvenfólk að vinna
eins og vant er hjá þrælum
en karlarnir lágu
inni í bælum
að skrifa Íslendingasögurnar.

Í fjósunum voru kýr og kálfar,
mokuðu kýrnar flórinn sjálfar?
Eða gerðu karlmenn það -
rétt eins og allt annað?

Um vinnandi konur er ekki orð
í Íslendingasögunum
því húsbændurnir höfðu ekki
hundsvit á búskapnum.

Þeir kunnu ekkert annað
en kúra í fleti
krota á blað
og troða í sig keti
og fljúgast á með mestu ósköpum.

Já, karlmenn í þessu karlmannalandi
þið eruð krónískur þjóðarvandi,
þumbist og sperrist við -
og þykist á við kvenfólkið.

Ég birti þennan texta á blogginu mínu árið 2007, og lét þá fylgja sögunni að samtímasagan er jafn skökk og yfirferð á því liðna. Það er enn staðreynd. Karlarnir sem stýra fjölmiðlunum hafa ámóta vit á reynsluheimi kvenna og karlarnir sem skrifuðu Íslendingasögurnar höfðu á búskapnum. Störf kvenna á uppeldis-, umönnunar- og öldrunarstofnunum þykja ekkert til að fást um í dag, ekki frekar en rakstur, spuni, kembingar og tæjun gömlu daganna.

Eitt hefur þó breyst á 22 árum. Femínistar líta ekki á karlmennina sjálfa sem hinn króníska þjóðarvanda, heldur karlmannalandið – kynjakerfissamfélagið. Annað hefur haldið sér nokkuð vel.

Áfram stelpur

skýrsla um hlutdeild kynjanna í námsefni í sögu hefur litið dagsins ljós. Þar kemur m.a. fram að í nýjasta námsefni fyrir 5.-7. bekk, Sögueyjunni eru 5 konur nafngreindar en 106 karlar.

Árið 1975 höfðu konur fengið nóg af þeirri skökku mynd sem dregin er upp af framlagi kvenna gegnum aldirnar eins og sést best á plötunni Áfram stelpur en þar eru tvö lög tileinkuð ósýnileika kvenna í sögubókum.

Þessi texti á því miður við enn þann dag í dag, en hann er í íslenskri þýðingu Dagnýjar Kristjánsdóttur og Kristjáns Jóhanns Jónssonar:

Gullöldin okkar var ekki úr gulli
og Íslandssagan er full af bulli
þar er ei fólkið sem verkin vann
segi ég þér með sann.

Ekki skánaði eftir hana
ekki var brugðið gömlum vana
jafnvel á kúgunarhnútunum hert
og var þó töluvert.

Við stelpurnar verðum að standa sem einn
styrkur vor annars er ekki neinn.

Svo komu aldir upplýsingar
og almennrar fræðslu en fátæklingar
og konur í verstu verkunum enn
eins og ófrjálsir menn.

Á Íslandi eru allir jafnir
en sumir jafnari og sumir hafnir
yfir jafnrétti yfirleitt
og einmitt því verður breytt.

Við stelpurnar verðum að standa sem einn
styrkur vor annars er ekki neinn.

Ofan í fordómafenjum er setið
og framlag kvennanna er einskis metið
en nú skal í sögunni brotið blað
nú bindum við endi á það.

Við stelpurnar verðum að standa sem einn
styrkur vor annars er ekki neinn.

 Hvað nú? -Hvern andskotann er hægt að gera? -Þrjátíu sex árum síðar?

 

 

 

Af súpufundi KRFÍ í hádeginu í dag

Fundarstjóri – góðir gestir.

 

Hvers vegna þegjum við þunnu hljóði
og ef við tölum er sem það heyrist vart
hvað gera stelpur sem langar í ljóði
að leggja til svo fjarskalega margt

Og allir garga – hvað er hún að þvarga – það heyrist ekkert í henni – hvað ætli sé að röddinni?

Eiga þá stelpur alltaf að þegja
og aðeins vona að strákar túlki þeirra mál
eða upp að rísa og rétta úr kútnum
og reka upp öskur

Þetta lag er 34 ára gamalt af plötunni Áfram stelpur. Boðskapurinn á við enn þann dag í dag eins og reyndar boðskapur flestallra ljóðanna á plötunni. Því miður.

Þess vegna erum við hér samankomin í dag. Til að reka upp öskur. Ég býð reyndar ekki í þá leið sem mælst er til í ljóðinu – að segja strákunum að halda kjafti – því nógu harkalegar hafa þöglar hausatalningar mínar þótt gegnum tíðina. Sýnileiki kvenna í fjölmiðlum er viðkvæmt umræðuefni af því raunveruleikinn er óþægilegur.

Umræðuefnið er engu að síður mikilvægt. Kynjahlutföll meðal Íslendinga eru tiltölulega jöfn. Samfélagið samanstendur af fjölbreyttum hópi fólks sem fæst við ólík viðfangsefni í lífinu. Samfélagið byggir líka afar sterkum kynhlutverkum sem leiðir af sér ólíkar áherslur og nálganir kynjanna. Ef fjölmiðlar eiga að endurspegla fjölbreytileikann og  upplýsa fólk um það sem er að gerast er ekki hægt að taka helming þjóðarinnar út fyrir sviga. Sér í lagi þegar við vitum að hinn helmingurinn er talsvert mikið öðruvísi.

Og þá ætla ég að slá hefðbundinn varnagla – um það sem ég hef sagt og það sem ég mun segja. Þegar ég tala um konur og karla sem ólíka hópa, þá er ég ekki að segja að allar konur séu eins eða allir karlar séu eins – heldur aðeins hvernig ólík kynhlutverk endurspeglast í samfélaginu.

Á undanförnum árum hef ég fylgst náið með hlutföllum kynjanna í spjallþáttum sjónvarps og útvarps. Stikkprufur á ákveðnum tímabilum hafa leitt í ljós niðurstöður sem eru í fullu samræmi við rannsóknir á þessu sviði: Konur eru langt innan við helmingur viðmælenda og koma aðeins við sögu í afmörkuðum málaflokkum. Karlar eru yfirgnæfandi í allri umræðu um „þjóðmálin“ en konur eru sýnilegri í umfjöllun um „dægurmál“. Karlarnir fá „drottningarviðtöl“ á meðan þátttaka kvenna í spjallþáttum felst oftast í því að vera eina konan meðal karlanna í pallborðsumræðum. Karlarnir tala lengi – konurnar stutt.

Síðasta stikkprufa mín var í fullu samræmi við þær fyrri. Egill Helgason talaði við tvær konur á móti 8 körlum í haust og í Kastljósinu í september var fjórðungur viðmælenda konur. Í þessari stikkprufu tók ég þó upp á þeirri nýlundu að skoða Spjallið með Sölva sem hefur átt auknum vinsældum að fagna. Það kom mér skemmtilega á óvart, að Sölvi hefur talað við nákvæmlega jafnmargar konur og karla í þáttum sínum í haust.

Að sama skapi vakti það enn fleiri spurningar. Hvernig stendur á því að ungur karlmaður á einkarekinni sjónvarpsstöð er svo mikið frábrugðinn hinu viðtekna og raun ber vitni? –Er hann að fjalla um aðra hluti? –Hefur hann annars konar aðgang að fólkinu í landinu?

Þessar spurningar eru ekki út í bláinn. Samtöl mín við dagskrárgerðarfólk hafa leitt í ljós þá eindregnu skoðun þeirra að konur séu illfáanlegar í viðtöl, auk þess sem fjölmiðlar eigi að fjalla um þau mál sem helst brenna á þjóðinni hverju sinni og þá séu karlmenn einfaldlega oftar í aðalhlutverki. Konurnar séu að fást vði aðra hluti.

Er það virkilega svo? –Eru konur bara 20-25% þeirra sem láta sig þjóðmálin varða? –Eru konur ekki ríflega 40% þingheims? –Helmingur ráðherra? -7 af 15 borgarfulltrúum? –Hafa ekki konur verið í meirihluta þeirra sem útskrifast úr háskólum svo áratugum skiptir? –Hvað eru þessar konur að gera?

Og eru fjölmiðlar virkilega að fjalla um þau mál sem helst brenna á þjóðinni hverju sinni? –Hefur Egill Helgason minnst einu orði á stóra mansalsmálið sem nú er í rannsókn hér á landi? –Hefur hann fengið til sín sérfræðinga eða stjórnmálamenn af því tilefni? –Ég man ekki til þess.  Ekki frekar en að fjölmiðlar hafi endurspeglað þá ólgu sem ríkir meðal foreldra og uppeldisstétta vegna kennsluskerðingar í yngstu bekkjum grunnskólanna eða mögulegrar lokunar á frístundaheimilum.

Það er nefnilega þannig að fjölmiðlar hafa vald. Vald til að velja og hafna. Velja sér viðfangsefni og velja sér viðmælendur. Spegillinn sem þeir þykjast vera á samfélagið er í besta falli skakkur og skældur. Hann hefur karllægar áherslur, bæði þegar kemur að umfjöllunarefnum og viðmælendum. –Og í rauninni er myndlíkingin kolröng, því ég veit ekki til þess að nokkur spegill hafi nokkru sinni haft sama val og sama vald og fjölmiðlar.

Með þessu er ég ekki að segja að fjölmiðlafólk sé upp til hópa illgjarnar karlrembur sem ætli sér að halda kynjahlutföllunum óbreyttum. Fjölmiðlafólk er bara konur og karlar sem eru hluti af samfélagi, þar sem viðteknar venjur og siðir meta karla og karllægar áherslur meira en konur og kvenlægar áherslur. Hörðu málin eru aðal á meðan þau mjúku eru auka.  Karlarnir eru aðal – á meðan konurnar eru auka. Svona alla jafna.

Hvaða mynd kemur upp í huga ykkar þegar ég nefni orðið stjórnmálamaður? En álitsgjafi? –En efnahagsráðgjafi? –Miðaldra hvítur karl í jakkafötum kannski?

Staðalímyndir eru heftandi. Þær gera ekki ráð fyrir konum. Ég get nefnt ykkur mörg áþreifanleg dæmi.  Ein vinkona mín varði t.d. löngum tíma um daginn í að undirbúa fjölmiðlamann fyrir viðtal um afmarkað borgarmál. Það hvarflaði ekki að honum að fá hana í viðtal, heldur fékk hann flokksbróður hennar til að mæta. Önnur vinkona mín ræddi lengi við samstarfsmann sinn um hvaða hvaða sérfræðinga væri hægt að fá til að tala á málþingi um hennar sérsvið. Honum datt þó ekki í hug að spyrja hana.

Undantekningarnar eru til. Sölvi Tryggvason hefur sýnt það og sannað að það er hægt að jafna kynjahlutföllin í umræðuþáttum. Til þess þarf dagskrárgerðarfólk að losna úr viðjum vanans og hugsa út fyrir hinn hefðbundna viðmælendahóp. Það eru til konur. Fullt af þeim. Klárar konur og skemmtilegar, áheyrilegar og áhugaverðar.

Nú er kosningaár – eins og reyndar flest undanfarin ár…  Konur hafa átt á brattann að sækja í stjórnmálum, þó áfangasigrar hafi unnist á undanförnum árum. Fyrir því eru að sjálfsögðu margar og flóknar ástæður – en fjölmiðlar eiga þó sinn hlut þar. Auðvitað segir það sig sjálft að karl sem hefur setið Alþingi eitt kjörtímabil og mætt reglulega í viðtöl í fjölmiðlum er þekktari og nær betri árangri í næsta prjófkjöri en konan sem hefur setið jafnlengi á Alþingi en hefur aldrei verið boðið í viðtal. Auðvitað skiptir þá líka máli að fjölmiðlar fjalla síður um viðfangsefni þeirra ráða og nefnda sem konurnar skipa, s.s. leik- og grunnskóla, velferðarmál og fleira í þeim dúr. Verk kvenna og nálgun eru þannig minna sýnileg – minna merkileg – og e.t.v. ekki þes virði að kjósa út á…

Fundarstjóri. Ætli ég verði ekki að reyna að benda á einhverjar lausnir hér undir lokin.

Ég veit að það sem við höfum verið að gera skiptir máli. Þegar hugarfarsbreytinga er þörf, er nauðsynlegt að bera höfuðið hátt, telja hausa og benda á raunveruleikann. Blaðagreinar, spjall við dagskrárgerðarfólk, eitt og eitt öskur og aktívismi spillir ekki heldur.

Stjórnvöld geta beitt áhrifum sínum, bæði gegnum lög en ekki síður gegnum útvarpsráð. Svanhildur Kaaber fór yfir fyrirætlanir nýs útvarpsráðs um endurskoðun jafnréttisáætlunar RÚV hér áðan og ég bind miklar vonir við að þar verði kveðið á um raunverulega endurspeglun á samfélaginu.

Sjálf ætla ég að enda á sama lagi og ég byrjaði á – og endilega takið undir ef þið viljið:

Ó ó ó stelpur – ó ó ó stelpur – við brýnum okkar raust svo berist hún um heiminn!

Ó ó ó stelpur – ó ó ó stelpur – við brýnum okkar raust svo berist hún um heiminn!

Ó ó ó stelpur – ó ó ó stelpur – við brýnum okkar raust svo berist hún um heiminn!