Versta hugtak í heimi

Fórnarlambsvæðing er mögulega versta hugtak í heimi. Það hefur talsvert verið notað gegnum tíðina og notkun þess hefur jafnvel verið að aukast. Hugtakið lýsir fullkomnu skilningsleysi á aðstæðum og aðgerðum kvenna og jafnréttisbaráttunni í heild sinni.

Fórnarlambsvæðing er algengt viðkvæði þegar konur tala upphátt um misrétti sem þær eða kynsystur þeirra verða fyrir, sama á hvaða sviði það er. Konur eru vinsamlegast (eða jafnvel ekkert sérstaklega vinsamlega) beðnar um að vera ekki svona kvartandi og kveinandi. Það geri lítið úr konum.

Þessi viðbrögð hafa jafnvel aukist upp á síðkastið í kjölfar Beauty tips-byltingarinnar. Til viðbótar við hefðbundnar efasemdir og vantraust, sem konur mæta þegar þær segja frá reynslu sinni, virðist sem samfélagið geti ekki horfst í augu við umfang ofbeldisins. Því koma fram vangaveltur um hvort hér sé nú ekki verið að ýkja eitthvað, það geti nú ekki verið að allar þessar konur hafi orðið fyrir raunverulegu ofbeldi, konur verði nú að geta hrist af sér óþægilegar uppákomur án þess að kalla það ofbeldi í stað þess að vera í þessu ömurlega fórnarlambshlutverki. Í framhaldinu hefjast svo umræður um það hvort ekki sé verið að gera raunverulegum þolendum grikk með því að skilgreina hvað sem er sem ofbeldi og hvort það þurfi nú ekki að draga einhver mörk svo hægt sé að fást við alvarlegu málin.

Þetta er galið. Fyrir það fyrsta getur enginn sagt annarri manneskju hvort hún hafi orðið fyrir ofbeldi eða ekki, mörk og upplifun fólks eru og verða persónuleg og því fær enginn breytt. Aðalmálið er þó það að þolendur ofbeldis upplifa sig alls ekki sem fórnarlömb þegar þeir loksins segja frá. Þvert á móti. Markmið frásagnarinnar er einmitt valdefling, að losa sig við skömmina, ábyrgðina og fórnarlambshlutverkið.

Sömu sögu er að segja um konur sem tala upphátt og opinskátt um þöggun, um kynbundinn launamun, um áreitni eða annað misrétti sem þær verða fyrir eða verða varar við. Þessar konur eru ekki að biðja um vorkunn, þær eru ekki að biðja um aðstoð, þær eru ekki að biðja um hjálp. Þær eru að skilgreina og þær eru að breyta. Þær neita að láta kynbundinn launamun viðgangast í samfélaginu, þær vilja jafna aðgengi kynjanna að völdum og fjármunum, þær vilja frið, öryggi og jafnrétti.

Að kalla það fórnarlambsvæðingu þegar konur taka sér vald, rými í umræðunni og breyta samfélaginu eru örvæntingarfull varnarviðbrögð feðraveldisins gagnvart því sem raunverulega er að gerast. Konur eru að taka sér pláss, breyta og bæta – þær eru ekki fórnarlömb, þær eru gerendur!

Greinin birtist hér 24. júní 2015

Stytting vinnuviku í Reykjavík

Nú um mánaðamótin hefst afar spennandi tilraunaverkefni í Reykjavík um styttingu vinnudags án launaskerðingar. Verkefnið nær til tveggja starfsstaða borgarinnar; annars vegar Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts og hins vegar Barnaverndar Reykjavíkur. Þjónustumiðstöðin mun loka klukkutíma fyrr alla virka daga en skrifstofa Barnaverndar verður lokuð eftir hádegi á föstudögum. Bakvakt og neyðarþjónustu verður sinnt með sama hætti og áður utan hefðbundins opnunartíma.

Markmiðið með tilraunaverkefninu er að kanna áhrif á vellíðan og starfsanda starfsmanna og þjónustu starfsstaðanna, bæði með tilliti til gæða og hagkvæmni. Þessir tveir tilteknu starfsstaðir voru valdir eftir mikla yfirlegu og var m.a. horft til þess að á báðum stöðum hefur starfsfólk unnið undir miklu álagi síðustu misseri.

Sífellt fleiri hafa á undanförnum árum talað fyrir styttingu vinnuvikunnar og ekki að ástæðulausu. Íslendingar vinna að jafnaði nokkrum klukkustundum lengur en aðrir Norðurlandabúar í viku hverri og þá hefur verið sýnt fram á að starfsánægja og afköst starfsfólks aukast hlutfallslega með styttri vinnutíma. Styttri vinnudagur getur þannig orðið ein leið til að auka framleiðni, öllum til hagsbóta.

Víða hefur tekist að stytta vinnuvikuna án þess að það hafi teljandi áhrif á afköst eða launakostnað. Það er því í raun lítið því til fyrirstöðu að skoða hvort slíkar aðgerðir séu framkvæmanlegar hér á landi. Það skref hefur Reykjavíkurborg nú stigið fyrst allra sveitarfélaga hér á landi að því er við best vitum.

Fjölskylduvænt samfélag og langur vinnutími fara ekki saman. Þess vegna bindum við sem störfum ásamt embættismönnum í stýrihóp tilraunaverkefnisins miklar vonir við verkefnið sem mun standa a.m.k. fram á haust þegar ákvörðun verður tekin um framhaldið með hliðsjón af reynslunni. Við vonumst til þess að hægt verði að taka stærri skref þegar tilraunaverkefninu lýkur svo koma megi á fjölskylduvænna samfélagi og tryggja aukinn jöfnuð og lífsgæði.

Greinin, sem er eftir undirritaða, Magnús Má Guðmundsson varaborgarfulltrúa og Helgu Jónsdóttur framkvæmdastjóra BSRB, birtist í Fréttablaðinu 2. mars 2015.

Réttlátari Reykjavík

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015 hefur nú verið samþykkt. Hún endurspeglar pólitískar áherslur og forgangsröðun meirihluta borgarstjórnar í öllum málaflokkum. Við megum vera stolt af áætluninni og þeim ríku áherslum sem þar koma fram á mannréttindi, velferð, umhverfi og réttlátara samfélag almennt.

Velferð

Fjölmörg verkefni eru fyrirhuguð til að stuðla að bættri velferðarþjónustu. Þar vegur þyngst áætlun um að fjölga félagslegum leiguíbúðum um 500 á næstu árum, nokkuð sem við Vinstri græn höfum talað fyrir lengi. Samhliða því verður unnið að uppbyggingu búsetuúrræða fyrir fatlað fólk og eflingu þjónustu utan kjarna fyrir þann hóp. Stórbætt þjónusta ferðaþjónustu fatlaðra á að verða að veruleika og samþætting heimahjúkrunar og heimaþjónustu í öllum hverfum mun leiða til betri og heildstæðari þjónustu.

Barnafjölskyldur

Á næsta ári verða stigin skref til að létta byrðum af barnafjölskyldum í áætluninni í samræmi við ákvæði í samstarfssáttmála meirihlutaflokkanna. Námsgjöld í leikskóla lækka um 6%, veittur verður systkinaafsláttur þvert á skólastig og frístundakortið hækkar um 5000 krónur. Á næstu árum verða fleiri skref stigin og þannig munum við, hægt en bítandi, vinna að bættum hag barnafjölskyldna á kjörtímabilinu. Auk þess verður farið í fjölmörg verkefni til að stuðla að enn betra skóla- og frístundastarfi og til að tryggja aðgengi og þátttöku allra barna.

Umhverfismál

Á umhverfis- og skipulagssviði verður áfram unnið að bættum aðstæðum fyrir hjólandi og gangandi og vinnan við hverfissskipulag mun halda áfram, byggð á nýju aðalskipulagi. Við erum að taka upp sjálfsagt og eðlilegt skipulagsgjald á umhverfis- og skipulagssviði og auka kostnaðarhlutdeild bifreiðaeigenda þegar kemur að rekstri bílastæða í miðborginni. Stætó mun auk þess hefja akstur fyrr á sunnudagsmorgnum. Þannig stuðlum við að vistvænni lifnaðarháttum borgarbúa með ýmsum hætti, með þéttari byggð, bættri nærþjónustu, huggulegra borgarumhverfi og umhverfisvænni samgöngum.

Kvenfrelsi og mannréttindi

Fjölmörg verkefni eru í áætluninni í þágu mannréttinda, auk þess sem femínískar áherslur eru mjög ríkjandi. Áfram verður unnið að aðgerðum til að útrýma kynbundnum launamun, m.a. með endurskoðun starfsmats borgarinnar og uppsögn aksturssamninga, en mælingar hafa sýnt mikinn kynbundinn mun á akstursgreiðslum. Þá verður farið í víðtækar aðgerðir gegn heimilisofbeldi í samstarfi við lögregluna að fyrirmynd þess sem gert hefur verið á Suðurnesjum og reynst vel. Unnin verður móttökupakki fyrir nýja íbúa í Reykjavík með helstu upplýsingum og áfram verður unnið að því að laða til borgarinnar sem fjölbreyttastan hóp fólks. Endurskoðun mannréttindastefnunar stendur svo fyrir dyrum, enda hefur fjölmargt breyst frá árinu 2006 þegar hún var fyrst samþykkt.

Gott samstarf – góð áætlun

Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata lofar góðu. Þessi fyrsta fjárhagsáætlun er vísbending um það sem koma skal, um að við munum vinna saman að réttlátari borg, þar sem almannahagsmunir eru hafðir að leiðarljósi í nútíð og framtíð, þar sem börnin okkar og umhverfið njóta vafans, þar sem fjölbreytileikanum er fagnað og þar sem velferðin er í fyrirrúmi.

Greinin birtist í DV 5. desember 2014

Fjölbreytileiki og hundaflautupólitík

Reykjavíkurborg hefur sótt um aðild að samstarfi um fjölmenningu og fjölbreytileika á vegum Evrópuráðsins undir heitinu Intercultural cities. Í samstarfinu er gengið út frá því að fjölbreytileiki sé eftirsóknarverður. Það snýst ekki bara um að tryggja gagnkvæma virðingu ólíkra hópa, ekki um að við umberum hvert annað eða reynum að lifa í sátt. Verkefnið gengur út á að sækjast eftir fjölbreytileika, að laða sem allra fjölbreyttastan hóp fólks að borginni og skapa aðstæður þar sem allir fá notið sín. Það er sama hvort litið er til félagslegra, efnahagslegra eða menningarlegra þátta, ábatinn af fjölbreytileika er ótvíræður.

Reykjavík er ekki best í heimi

Hluti af aðildarferlinu felst í að meta stöðu Reykjavíkurborgar í samanburði við samstarfsborgirnar. Fjórtán þættir eru skoðaðir, bæði innan stjórnkerfis og þjónustu borgarinnar en einnig þættir sem varða atvinnulífið, fjölmiðla og háskólana, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Reykjavík kemur ekki vel út. Af 64 borgum er Reykjavík númer 57. Við erum ekki best í heimi – ekki miðað við höfðatölu. Engin tölfræðitrikk koma okkur til hjálpar.

Auðmýkt

Best í heimi er enda úrelt markmið. Að vera best kallar á samkeppni í stað samstarfs, það snýst um okkur sjálf en ekki aðra. Best í heimi gengur beinlínis gegn markmiðum Intercultural cities.

Auðvitað eigum við að hafa metnað, en við eigum að beina honum í samstarf en ekki samkeppni. Vinna með öðrum, læra af öðrum og miðla því sem vel er gert. Að mæla okkur í samanburði við aðrar borgir er vissulega gagnlegt, en aðallega þó til að bæta okkur í afmörkuðum þáttum.

Niðurstaða matsins sýnir að við getum bætt okkur verulega þegar kemur að tækifærum fólks til virkni og þátttöku í nærsamfélaginu. Við því getum við auðveldlega brugðist í vinnunni við skipulag hverfa og lært af þeim borgum sem best standa hvað þetta varðar. Sömuleiðis getum við gert betur þegar kemur að því að bjóða nýja íbúa velkomna til borgarinnar, fyrir utan að kynna fólki réttindi sín og skyldur getum við tryggt gott aðgengi að upplýsingum um verkefni og uppákomur sem stuðla að bættum félagsauð, samveru og þátttöku borgarbúa.

Það verður bæði krefjandi og gefandi að bæta okkur á þessum sviðum – og hinum 12 sem úttektin náði til. Til þess þurfum við frekar auðmýkt en keppnisskap, Intercultural cities er samstarfsvettvangur en ekki keppni.

Höfnum hundaflautupólitík

Á Íslandi hefur hvorki rasismi né fasismi náð að hreiðra um sig að ráði. Ekkert opinbert stjórnmálaafl hefur þá stefnu að sporna gegn fjölbreytileika. Engu að síður örlar á neikvæðu viðhorfi til fjölbreytileikans og efasemdum er sáð um afmarkaða hópa, án þess þó að gengist sé við því.

Stóra moskumálið í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna í vor er skýrt dæmi. Þar sagðist oddviti Framsóknarflokksins vera mótfallinn byggingu mosku í Reykjavík þó ástæðurnar væru óljósar. Ýmist var hún á móti moskunni á skipulagslegum forsendum þar sem hún átti frekar heima annars staðar eða lagalegum forsendum þar sem borginni bar ekki að gefa lóðina heldur selja hana. Hún þvertók fyrir rasískar skoðanir en sagði samt frá því að í Svíþjóð hefði fólk áhyggjur af þvinguðum hjónaböndum meðal múslima. Það hafði þó ekkert með stóra moskumálið að gera.

Þetta er það sem stundum er kallað hundaflautupólitík. Áróður sem komið er til skila undir rós en þó með mjög afgerandi og markvissum hætti. Þekkt leið sem getur verið árangursrík – ef ekkert er að gert.

Á vegum Intercultural cities er lögð þung áhersla á þverpólitíska samstöðu, samstarf allra flokka um verkefnið og snör viðbrögð við hvers kyns áróðri, fordómum og hundaflauti. Það má ekki verða að einhver (og þá mjög lítill) hluti borgarstjórnar verði til þess að rýra trúverðugleika Reykjavíkurborgar þegar kemur að verkefninu.

Fjölbreytileikinn

Sem aðili að Intercultural cities mun Reykjavík beinlínis sækjast eftir fjölbreytileika. Við munum ekki bara fást við hann sem verkefni, sætta sjónarmið og stuðla að umburðarlyndi. Við munum gera það sem í okkar valdi stendur til að gera Reykjavík aðlaðandi fyrir fólk allsstaðar að og læra af fólki sem hefur ólíka reynslu og þekkingu.

Þannig er brýnt að hér rísi moska, rússnesk rétttrúnaðarkirkja, búddahof, ásatrúarhof og fleiri bænahús. Ekki bara til að þjónusta fjölbreyttan íbúahóp Reykjavíkur, heldur einnig til marks um að hér sé samþykkt og æskilegt að iðkuð séu margs konar trúarbrögð.

Það er undir okkur Reykvíkingum komið hvernig til tekst. Ef við setjum okkur það sameiginlega markmið að stuðla að fjölbreyttari borg, þar sem þekkingin og reynslan verður meiri og menningin fjölbreyttari. Ef við sköpum aðstæður fyrir fólk til að hittast, tala saman, kynnast, læra og miðla. Ef við þróum samfélagið áfram í sameiningu og af virðingu hvert fyrir öðru. Þá framtíðin björt. Saman getum við unnið að því að gera góða borg betri. Fjölbreyttari og betri.

Greinin birtist í DV 28. október 2014

Takk

Hinsegin dögum er nýlokið. Þeir voru haldnir í sextánda sinn, og gengu sem fyrr út á að draga fram fjölbreytileikann, fagna honum og þeim réttindum sem áunnist hafa. Gleðigangan var stórkostleg að vanda og talið er að um 90 þúsund manns hafi safnast saman í miðborginni.

Hinsegin dagar hafa líka annað og alvarlegra hlutverk. Að minna á þau réttindi sem ekki hafa náðst og óréttlætið sem viðgengst bæði hér á Íslandi og úti í heimi, en ekki síður að uppræta fordóma og fáfræði gagnvart fjölbreytileika mannlífsins. Hinsegin dagar þjónuðu þessu markmiði vel í ár, m.a. með mikilvægri fræðslu um þann fjölbreytta hóp sem rúmast undir hinsegin regnhlífinni.

Hin nýstofnuðu samtök Intersex Ísland hafa vakið verðskuldaða athygli. Intersex fólk fellur ekki undir hefðbundna skilgreiningu á kynjunum af líffræðilegum ástæðum. Intersex hefur alltaf verið til, en það er ekki fyrr en nú þegar talsvert er liðið á 21. öldina að farið er að tala um réttindi og stöðu intersex fólks á opinberum vettvangi á Íslandi.
Staða intersex fólks sýnir okkur hversu mikla áherslu við sem samfélag leggjum á að flokka fólk eftir kyni. Kyn barns er það fyrsta sem spurt er um eftir fæðingu þess, nafngift er háð kyni, opinberar skrár gera ráð fyrir tveimur kynjum og svona mætti lengi telja. En það er ekki nóg. Enn eru framkvæmdar skurðaðgerðir á heilbrigðum kynfærum nýfæddra barna til að aðlaga þau stöðluðum hugmyndum um útlit typpis eða píku. Intersex fólk krefst nú viðurkenningar á tilvist sinni og sjálfsákvörðunarréttar yfir eigin líkama. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa.

Hinsegin dagar hafa sett brýn og grafalvarleg mál á dagskrá, enn eina ferðina, í bland við gleði og fagnaðarlæti. Til að hægt sé að fagna fjölbreytileikanum er mikilvægt að þekkja hann og skilja. Hinsegin fólk og hinsegin dagar hafa breytt miklu hvað það varðar. Fyrir það ber að þakka. Takk.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 11. ágúst 2014

Allir til í einkavæðingu?

Hugmynd Bjarna Benediktssonar um sölu á hlut í Landsvirkjun til lífeyrissjóðanna hefur vakið athygli. Hugmyndin er í fullu samræmi við stefnu Sjálfstæðismanna sem vilja koma sem allra flestum samfélagslegum verkefnum í hendur einkaaðila.

Fyrsta skref í átt að einkavæðingu
Allt tal um að lífeyrissjóðirnir séu jú í eigu almennings og Landsvirkjun verði þannig áfram í eigu almennings er augljós fyrirsláttur. Lífeyrissjóðirnir hafa fyrst og fremst það markmið að ávaxta fjármuni sjóðsfélaga og þeim ber að selja hlutinn áfram ef hentugur kaupandi finnst. Auk þess skortir mjög á lýðræðislegt aðhald almennings gagnvart lífeyrissjóðunum. Að selja hlut til lífeyrissjóðanna er hreint og klár fyrsta skref í átt að einkavæðingu og það er beinlínis óforskammað að halda öðru fram. En Sjálfstæðisflokkurinn er eins og hann er og honum verður víst seint breytt.

Besti flokkur og Samfylking sammála Bjarna
Verra er að hann er ekki einn og raunar hafa aðrir flokkar gengið enn lengra en Sjálfstæðisflokkurinn. Á kjörtímabilinu hóf meirihluti Besta flokks og Samfylkingar beinlínis viðræður við lífeyrissjóðina um aðkomu þeirra að stofnun sérstaks félags sem sæi um uppbyggingu Hverahlíðarvirkjunar í stað Orkuveitu Reykjavíkur.

Meirihlutinn kallaði það auðvitað ekki einkavæðingu frekar en Bjarni, og ekki heldur sölu, heldur verkefnisfjármögnun. En auðvitað var þar allt á sömu bókina lagt, lífeyrissjóðirnir hefðu eignast hlut í því sem annars hefði tilheyrt Orkuveitu Reykjavíkur með sömu áhættu og afleiðingum og þær hugmyndir sem Bjarni kynnir nú.

Ein á móti
Tillagan um viðræður við lífeyrissjóðina var samþykkt með 14 atkvæðum gegn einu í borgarstjórn Reykjavíkur. Fulltrúar Besta flokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks voru allir sammála um að selja lífeyrissjóðunum hluta af Orkuveitu Reykjavíkur. Og það var hvorki í fyrsta né eina skiptið sem Vinstri græn hafa staðið vaktina gegn einkavæðingu almannaþjónustunnar. Í tíð núverandi meirihluta hefur Gagnaveita Reykjavíkur verið sett í söluferli og hlutur Orkuveitunnar í Hitaveitu Suðurnesja seldur til einkaaðila. Atkvæði voru greidd á sama hátt í öllum þessum málum.

Almannaeign og lýðræðislegt aðhald
Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur eru fyrirtæki sem gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki enda leggja þau grunn að lífsskilyrðum á landinu. Slík fyrirtæki eiga að vera alfarið og undantekningarlaust í eigu almennings og lúta skýru lýðræðislegu aðhaldi. Vinstri græn munu hér eftir sem hingað til standa með almannaþjónustunni, ein flokka.

Greinin birtist á Vísi 21. maí 2014

Vinstri græn – hreinar línur

Mér er stundum sagt að stjórnmálaflokkar séu allir eins. Stefna þeirra sé keimlík, þeir lofi öllu fögru fyrir kosningar en hafi í raun það eina markmið að komast til valda. Svo fæ ég ýmist að heyra að flokkarnir séu sammála um allt eða geti aldrei komið sér saman um neitt.  Ég hef svo sem skilning á þessu öllu. Stjórnmálaflokkarnir eru sammála um mjög margt, þó fjölmiðlar fjalli oftast bara um ágreininginn þegar hann er til staðar. Stefnan getur virkað keimlík, sérstaklega í borgarpólítíkinni, og frambjóðendur einsleitur hópur.

Vinstrihreyfingin grænt framboð

Vinstri græn eru þó að mörgu leyti frábrugðin öðrum framboðum. Við höfum ögrað samfélaginu og hefðbundnum stjórnmálum gegnum tíðina með framsæknum hugmyndum um hvernig bæta megi samfélagið og við höfum alltaf valið hugsjónir umfram vinsældir. Við munum áfram gera það. Í Reykjavík snýst málefnaleg sérstaða Vinstri grænna fyrst og fremst um þrennt: Áherslur í skóla- og frístundamálum, umhverfis- og auðlindamálum og trú á opinbera þjónustu. (Fyrir utan að vera eina framboðið sem treystir konu til að leiða lista. Það er ekki lítið.)

Grunnþjónusta við börn verði gjaldfrjáls

Á næsta kjörtímabili verður að byggja aftur upp traust milli skólasamfélagsins og borgaryfirvalda eftir harkalegar sameiningar og niðurskurð sem gengið hefur mjög nærri starfseminni. Þá verður að hefjast handa við afnám gjaldheimtu borgarinnar vegna skóla- og frístundamála. Þannig getum við haft raunveruleg áhrif á ráðstöfunatekjur barnafólks og stuðlað að sanngirni. Flöt gjaldheimta upp á tugi þúsunda á hverjum mánuði umfram útsvarið er ósanngjörn og afnám hennar er fullkomlega raunhæft markmið.

Borgin axli ábyrgð í umhverfis- og auðlindamálum

Til að sporna við loftslagsbreytingum af mannavöldum verður Reykjavíkurborg að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Við verðum að breyta samgönguháttum, stuðla að orkuskiptum, fjölga hjólastígum, bæta almenningssamgöngur og nærþjónustu í þéttari byggð. Þannig drögum við úr notkun einkabílsins og skaðlegum áhrifum hans. Framganga Orkuveitunnar á Hengilssvæðinu hefur verið óábyrg og nýting auðlindarinnar allt of ágeng. Ábyrg nýting auðlindarinnar krefst þess að við endurskoðum framleiðslugetu Hellisheiðarvirkjunar og sláum öllum frekari virkanaáformum þar á frest.

Enga einkavæðingu opinberrar þjónustu

Á kjörtímabilinu hafa allir flokkar í borgarstjórn sýnt áhuga á einkavæðingu opinberrar þjónustu. Allir nema Vinstri græn. Stefna Sjálfstæðisflokks kemur auðvitað ekkert á óvart, hann vill “leysa krafta einkaframtaksins úr læðingi” hvar sem því verður við komið og leyfa einkaaðilum að græða á almannaþjónustu eins og öllu öðru. Meiri vonbrigðum valda aðgerðir meirihluta Besta flokks og Samfylkingar. Þau hafa nú selt hlut Reykvíkinga í HS-Veitum til einkaaðila og Gagnaveita Reykjavíkur er í söluferli. Ferðaþjónusta fatlaðra hefur verið boðin út og gistiskýli fyrir utangarðsmenn er ekki lengur rekið af borginni. Það er skýlaus krafa Vinstri grænna að opinber þjónusta sé á forræði almennings, að enginn geti grætt á grunnþjónustu og að hún verði aðgengileg öllum borgarbúum. Það hefur sýnt sig hvað eftir annað að einkarekstur hentar ekki í grunnþjónustu. Hann leiðir til verri og dýrari þjónustu.

Einlæg kosningaloforð

Sérstaða Vinstri grænna felst í kjarki og staðestu. Við höfum og við munum áfram standa með hugsjónum okkar og setja mál á dagskrá jafnvel þótt við mætum ekki skilningi til að byrja með. Ég fullyrði að það er hægt að afnema gjaldheimtu fyrir leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili jafnvel þótt aðrir flokkar efist. Ég fullyrði að það er hægt að koma í veg fyrir ofnýtingu á Hengilssvæðinu og að við getum spornað með öflugri hætti gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum jafnvel þótt aðrir flokkar efist. Ég fullyrði að það er betra fyrir fjárhag, þjónustu og samfélag í Reykjavík ef grunnþjónustan er rekin af hinu opinbera og á forræði almennings. Jafnvel þótt aðrir flokkar efist. Við Vinstri græn munum standa með þessum áherslum okkar. Um það er engin ástæða til að efast.

Greinin birtist í DV 4. apríl 2014

Gott skipulag – góð borg

Skipulagsmál krefjast óhemju þolinmæði og langlundageðs, samtals og málamiðlana milli einstaklinga og hagsmunahópa. Tryggja þarf skynsamlega landnýtingu, stuðla að fjölbreyttum og umhverfisvænum samgönguháttum, félagslegri blöndun, fjölbreyttum húsa- og íbúðagerðum, traustum innviðum, verslun og þjónustu. Skipulagið þarf jafnframt að taka mið af sögulegu samhengi nærliggjandi byggð, landslagi, sjónásum, umhverfi og náttúru og þá er ég örugglega að gleyma einhverju. Takist þetta nær skipulagið að skapa grunn fyrir gott og lífvænlegt samfélag – en gleymist eitthvað getur það haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir byggð og mannlíf.

Varanleg mistök

Vegna þess hversu mikilvæg skipulagsmálin eru og hversu afdrifarík mistök geta orðið eru lög og reglur um skipulagsvinnu mjög skýr, þar sem gert er ráð fyrir nægum tíma, talsverðri yfirlegu og samráði við íbúa. Borgaryfirvöld hafa lagt sig fram um að fylgja þessu í hvívetna með stöðugri framþróun og umbótum en betur má ef duga skal. Enn þarf að bæta samtal borgarbúa og skipulagsyfirvalda sem krefst frekara framlags af beggja hálfu.

Því miður eru byggingar, reitir og heil hverfi í Reykjavík sem greinilega eru börn síns tíma. Strjálbýl úthverfi, stórkarlaleg umferðarmannvirki, turnamúr við sjávarsíðuna og steypukassar þar sem áður stóðu gömul timburhús eru dæmi um ákvarðanir sem vel hefði mátt ígrunda betur. Ekkert af þessu hefði risið ef tekið hefði verið mið af öllu því sem hér á undan var rakið.

Skuggaturninn

Um þessar mundir rís enn einn turninn í Skuggahverfinu. Byggingin er í samræmi við deiliskipulag sem samþykkt var af fulltrúum allra flokka og án athugasemda frá íbúum árið 2006. Hann á eftir að hafa áhrif á veðurfar, útsýni og ásýnd borgarinnar, hann eyðileggur mikilvægan sjónás norður Frakkastíg og er almennt á skjön við umhverfis- og skipulagsáherslur samtímans. Hætt er við að turninn verði enn ein áminningin um mikilvægi þess að vanda til skipulags með almannahagsmuni að leiðarljósi umfram arðsemissjónarmið.

Framkvæmdirnar vekja sterk viðbrögð eins og oft þegar framkvæmdir hefjast. Borgarbúar velta fyrir sér leiðum til að koma í veg fyrir að byggingin rísi og standi langt inn í framtíðina. Það er sjálfsagt og eðlilegt gera kröfur til skipulagsyfirvalda og byggingarfulltrúa að rætt verði við verktakann um viðbrögð við gagnrýninni og mögulegar breytingar á byggingunni.

Fyrningarákvæði í deiliskipulagi

Tíminn sem líður frá skipulagsvinnu til framkvæmda getur orðið mjög langur. Skuggaturninn er ekkert einsdæmi, heldur gerist það iðulega að framkvæmdir hefjast mörgum árum eftir samþykkt skipulagsins – og þá má með réttu efast um umboð þeirra stjórnvalda sem samþykktu stefnuna í upphafi. Svona tilvik rýra traust á skipulagsferlinu og geta ýtt undir vonleysi þeirra sem vilja hafa áhrif á þróun og skipulag nærsamfélagsins.

Skipulagslög setja heimildum í deiliskipulagsáætlunum engin tímamörk. Framkvæmdir geta þannig byggt á áratugagamalli stefnumörkun. Þetta gerir skipulagsyfirvöldum hvers tíma erfitt fyrir að móta stefnu án stórkostlegs tilkostnaðar borgarbúa.

Nauðsynlegt er að breyta þessu og setja inn fyrningarákvæði í deiliskipulagsáætlanir. Þá yrði gildi deiliskipulags tímabundið, þannig að ef framkvæmdir í samræmi við það hefjast ekki innan ákveðins tíma þurfi að endurnýja skipulagið. Slíkar breytingar gætu sannarlega orðið til að tryggja vandaðari skipulagsvinnu, skýrara umboð skipulagsyfirvalda á hverjum tíma og meiri sátt innan samfélagsins.

Miklu betri Reykjavík

Ég er bjartsýn, þrátt fyrir allt. Í nýju aðalskipulagi er nú að finna stefnu um hæðir húsa, um verndun eldri byggðar og byggðarmynsturs, um að taka skuli tillit til eldri og aðliggjandi hverfa, um visthæfi og gæði bygginga og fleira og fleira. Deiliskipulagsáætlun sú sem samþykkt var samhljóða vorið 2006 kæmist aldrei í gegnum umhverfis- og skipulagsráð í dag vegna þess að hún samræmist ekki heildarhugsun og gildandi stefnumörkun. Þessu til viðbótar er nú hafin vinna við að skipuleggja hverfi borgarinnar með ríkri aðkomu íbúa sem mun án efa bæta enn samskipti borgarbúa og skipulagssviðs.

Góð borg með innviðum, þjónustu og skapandi mannlífi þarf að vera vel skipulögð. Til að tryggja gott skipulag verðum við öll að taka þátt, við verðum að tala hátt og skýrt og gæta að hagsmunum íbúa og umhverfis langt inn í framtíðina. Við Vinstri græn leggjum ríka áherslu á vandað skipulag og gott samtal og bindum vonir við enn betri og árangursríkari skipulagsvinnu til framtíðar.

Greinin birtist í Reykjavík vikublaði 8. mars 2014