Konur eiga að ráða

Landspítalinn hefur gefið út ný tilmæli um heimsóknir og viðveru á meðgöngu- og sængurlegudeild og fæðingarvakt. Tilmælin eru sett fram í nafni hagsmuna fæðandi kvenna, nýbura og fjölskyldna þeirra. Þeim er ætlað að vernda viðkvæmt ferli tengslamyndunar og gæta sem best að heilsu móður og barns fyrstu klukkustundirnar eftir fæðingu.

Hinar nýju reglur ganga fyrst og fremst út á að takmarka fjölda viðstaddra í fæðingu og heimsóknir aðstandenda eftir að barnið er fætt. Þannig segir í tilmælunum:

Ljósmæður og læknar fæðingarvaktar mælast til þess að eingöngu einn einstaklingur sé viðstaddur fæðingu móðurinni til stuðnings til að trufla ekki það viðkvæma ferli sem fæðingin er. Heimsóknir á fæðingarvakt til fæðandi kvenna og fyrstu tímana eftir fæðingu eru ekki æskilegar. Fæðingin og tíminn fyrst eftir fæðingu er mikilvægur fyrir tengslamyndun foreldra og nýbura. Grunnurinn að brjóstagjöf er lagður á fyrstu tímunum eftir fæðingu og mikilvægt að móðir og barn fái frið og tíma til að leggja þann mikilvæga grunn.

Þessi tilmæli eru í algerri andstöðu við yfirlýst markmið spítalans um að skapa þægilegt og rólegt umhverfi þar sem konan getur sjálf verið við stjórnvölinn í fæðingunni, enda ljóst að fyrir margar konur skiptir máli að hafa með sér fleiri en einn aðstandanda. Þess utan getur fjölskylduform verið með ýmsum hætti þar sem verðandi foreldrar eru fleiri en tveir að ekki sé talað um fæðandi konur sem hafa með sér túlka eða aðstoðarfólk vegna fötlunar.

Tilmæli og reglur spítalans gegnum tíðina eru raunar umhugsunarverð. Þar hafa stefnur og straumar breyst mjög, án þess að sýnt hafi verið fram á að hagsmunir fæðandi kvenna, þarfir eða vilji hafi breyst mikið. Heimildir til heimsókna og fjölda viðstaddra hafa rokkað umtalsvert gegnum tíðina, afstaða til vatnsfæðinga hefur verið mjög misjöfn og aðstaðan sjálf hefur tekið breytingum þar sem ýmist hefur verið boðið upp á klínískar fæðingarstofur eða svokallað Hreiður.

Sé spítalanum alvara með að standa vörð um eðlilegar fæðingar, að virða óskir skjólstæðinga sinna og koma til móts við þær eftir bestu getu, væri þá ekki nær að tilmælin hljómuðu eitthvað á þessa leið:

Ljósmæður og læknar fæðingarvaktar mælast til þess að vilji  móður um fjölda viðstaddra sé virtur eins og kostur gefst til að trufla ekki það viðkvæma ferli sem fæðing er. Sama gildir um heimsóknir eftir fæðingu. Grunnurinn að brjóstagjöf er lagður á fyrstu tímunum eftir fæðingu og mikilvægt að hann sé lagður við aðstæður sem henta móður og barni sem best og að þau fái stuðning frá þeim sem móðirin kýs.

Brýnt er að koma til móts við ólíkar þarfir, hugmyndir og vilja fæðandi kvenna og að mæðravernd og foreldrafræðsla hjálpi konum til að taka sjálfar ákvarðanir um hvernig þær vilji haga sínum fæðingum.

Fæðingin og tíminn fyrst eftir fæðingu er mikilvægur fyrir tengslamyndun fjölskyldna og mikilvægt að sú tengslamyndun fari fram í samræmi við aðstæður hverju sinni. Fæðandi konur hafa ólíkar þarfir og vilja,  þær eru í mjög mismunandi aðstæðum og fjölskylduform verður æ fjölbreyttara. Brýnt er að taka tillit til alls þessa.

Heilbrigðisstarfsfólk og aðstandendur eru hvattir til að virða vilja fæðandi kvenna og nýbakaðra mæðra.

Ég ber mikla virðingu fyrir þeirri fagþekkingu sem er til staðar á Landspítalanum. Þar er fólk sem veitir ómetanlega þjónustu við fæðandi konur, hefur sérþekkingu á vandamálum sem upp koma í fæðingum og lausnum á þeim. Þar hefur ótal mannslífum verið bjargað og þar er alla jafna veitt framúrskarandi þjónusta. Sú gagnrýni sem hér kemur fram lýtur ekki að þeirri sérfræðiþekkingu. Hér er eingöngu farið fram á að sjálfræði kvenna sé virt, ásamt þeirri sérfræðiþekkingu sem þær hafa á eigin getu, þörfum og vilja.

Greinin birtist hér 1. maí 2015.

Hátíðarfundur kvenna í borgarstjórn

Það er sannarlega hátíðlegt að taka þátt í þessum kvennafundi hér í ráðhúsinu og gaman að hér komi saman skeleggir fulltrúar allra flokka til að fagna sigrum formæðra okkar.

Það er undarlegt til þess að hugsa að fyrir 100 árum hafi karlar setið einir að ákvarðanatöku fyrir hönd lands og þjóðar og að það hafi í raun verið ákvörðun karla að veita konum kosningarétt.

Á þessum 100 árum hefur mikið vatn runnið til sjávar. Sem betur fer. Konur búa við allt annan veruleika, þær taka virkan þátt í stjórnmálum og atvinnulífi, þær hafa yfirráð yfir eigin líkama, mennta sig og gera það sem þeim sýnist. Breytingarnar hafa verið jákvæðar fyrir allt samfélagið, ekki síst karla sem hafa öðlast tækifæri og rétt til að taka þátt í umönnun barna sinna, sýna tilfinningar og gera það sem þeim sýnist.

Upp að vissu marki. Við búum ekki í fullkomnum heimi, ekki einu sinni fullkomnu landi, þó hér ríki mesta jafnrétti í heimi samkvæmt alþjóðlegum mælingum.

Allir þessir sigrar eru sterkum konum og samstöðu þeirra að þakka. Kvennaframboð hið fyrra, Kvenréttindafélagið, Kvenfélög, Rauðsokkur, Kvennaframoð hið síðara, Kvennalistinn, Femínistafélagið, kvennahreyfingar stjórnmálaflokka og femínistafélög grunn-, framhalds- og háskóla hafa sprottið upp, bylt og breytt. Hvert með sínum hætti.

Þessar hreyfingar hafa verið viðbragð við misrétti og meinsemdum í samfélaginu, þær haf beitt ólíkum aðferðum og tekist á við ólík verkefni en eiga það allar sameiginlegt að hafa fært okkur samtímakonunum þau réttindi sem við búum við í dag.

Femínismi er dáldið eins og náttúruafl og byltingar femínismans dáldið eins og eldgos. Kvennahreyfingin getur legið í dvala um tíma, stundum stutt og stundum lengi, en hún sprettur reglulega upp og hefur þá umtalsverð áhrif.

Í dag fögnum við og þökkum fyrir kosningaréttinn. Baráttan fyrir honum var löng og ströng. Svolítið eins og Kröflueldar. Áratuga gos með hléum sem á endanum leiddi til þess að konur öðluðust sömu lýðræðislegu réttindi og karlar.

Við gleðjumst auðvitað og fögnum öllum þeim réttindum sem hafa áunnist en gleymum ekki því sem enn er ógert. Það er okkar að halda áfram að útrýma kynbundnu ofbeldi, kynbundnum launamun og stuðla að raunverulega jöfnum tækifærum karla og kvenna. Við heiðrum formæður okkar og baráttukonur fyrri alda best með áframhaldandi baráttu, áframhaldandi samstöðu og áframhaldandi krafti.

Og þar er aldeilis af nógu að taka eins og atburðir undanfarinna daga gefa berlega til kynna.

Í raun má segja að við séum í miðri byltingu. Enn einni byltingunni. Eldgosi sem er nýhafið eftir umtalsverða ólgu sem hefur kraumað í samfélaginu í allnokkurn tíma.

Við höfum allar – eða öll, orðið vör við hefndarklám, hrelliklám eða rafrænt kynferðisofbeldi.  Sú ógn hefur steðjað að íslenskum konum í síauknum mæli, klámvæðingin hefur sótt fram af áður óþekktu afli með tilkomu tækniframara og snjalltækja þannig að mörgum hafa fallist hendur.

Í anda þess náttúruafls sem kvennabaráttan er gat ólgan auðvitað ekki endað með öðrum hætti en einum. Byltingu. Brjóstabyltingin er hafin hún er ný en krafturinn er ótvíræður.

Hvernig brjóstabyltingin endar með að verða, hvort hér er um stutt sprengigos að ræða eða langvarandi ástand er ekki alveg komið í ljós en hvort heldur sem verður mun það hafa sín áhrif. Það er ég viss um.

Í dag er ég þakklát. Ég er þakklát formæðrum mínum og afkomendum á sama tíma. Ég er þakklát fyrir byltingar í fortíð og framtíð og sérstaklega þá sem nú er í gangi. Ég er þakklát öllum þeim konum sem hafa þorað, getað, viljað og bylt.

Það er sérstök staða að vera í, að fagna aldarafmæli í miðjum tilfinningarússíbana sem fylgir nýhafinni byltingu gegn klámvæðingu og hlutgervingu kvenna.

Sú bylting er okkar allra og hún er í þágu okkar allra. Hún er í þágu samfélagsins alls en ekki síst kvenna af öllum gerðum og á öllum aldri. Þetta er líka byltingin okkar sem ekki höfum berað á okkur brjóstin, líka okkar sem erum nógu gamlar til að  búa ekki við stöðuga ógn rafræns ofbeldis.

Þessi bylting er í þágu samfélagsins, enda snýst femínismi alltaf um samfélagið í heild sinni.

Ég er ekki femínisti fyrir mig heldur af því ég vil breyta samfélaginu. Ég er á hærri launum en margir karlar í kringum mig, ég er í góðri stöðu og mér hefur ekki verið nauðgað. Það eru ekki til myndir af brjóstunum á mér á internetinu. Samt eru mín helstu baráttumál þau að útrýma kynbundnum launamun, auka tækifæri kvenna til áhrifa og útrýma kynbundnu ofbeldi – ekki síst því rafræna.

Og þetta segi ég ekki til að upphefja sjálfa mig. Og ég er ekki að halda því fram að ég sé svo æðislega góð. Ég er það ekki neitt. Kynjamisrétti er bara óbærilegt og það hefur auðvitað bein og óbein áhrif á mig eins og okkur öll. Ég vil ekki búa í samfélagi misréttis frekar en aðrir. Samfélag misréttis er vont samfélag.

Þess vegna skiptir femínisminn svo miklu máli. Hugmyndafræði sem lýtur að því að uppræta allar birtingamyndir kynjamisréttis til að við getum öll verið frjáls. Karlar og konur, ung og gömul. En til þess verðum við að standa saman og hjálpast að. Það krefst þess að við setjum okkur í spor hvers annars og reynum að skilja.

Það er ekkert sem feðraveldinu hugnast betur en erjur og innbyrðis deilur kvenna. Það var feðraveldið sem bjó til mýtuna um að konur séu konum verstar og það reynir að viðhalda henni með ráðum og dáð. Af því að feðraveldið veit sem er að samtakamáttur kvenna getur leitt til byltinga, að byltingar geta frelsað konur og að byltingar geta brotið feðraveldið á bak aftur.

Á meðan ungar konur afmá skilgreiningarvald klámvæðingarinnar á eigin líkömum með aðgerðum í opinberu rými og á samfélagsmiðlum taka miðaldra borgarfulltrúar næstu skref innan kerfisins til að stuðla að frekari framgangi kvenna og auknu jafnrétti.

Konur ákveða sjálfar hvar og hvenær þær klæða sig. Þær eru ekki til sýnis, þær eru ekki neysluvara og þær eru ekki söluvara. Ekki á samfélagsmiðlum og ekki á framboðslistum. Konur eru klárar, þær eru sterkar, þær taka sér pláss og hafa áhrif. Hér í borgarstjórn, í framhaldsskólunum, persónulega og pólitískt, heima og heiman. Konur stjórna, konur breyta og konur bylta. Innan kerfis sem utan.

Hér í dag erum við saman komnar til að samþykkja þrjár tillögur sem við höfum unnið saman á þverpólitískum vettvangi. Þessar þrjár tillögur eru í anda þess sem lagt var upp með í hátíðarhöldum borgarinnar, að fagna þeim réttindum sem áunnist hafa en hvetja til framfara á sama tíma.

Afrekasýning kvenna á Íslandi er til þess fallin að fagna öllu því sem áunnist hefur en er á sama tíma bæði hvetjandi og valdeflandi. Ofbeldisvarnarnefnd mun tala beint inn í baráttumál kvennanna sem fyrst tóku þátt í stjórnmálum, hún er til þess fallin að stuðla að öruggu og hraustu samfélagi og taka á þeim heilbrigðisvanda sem ofbeldi er. Málþing um þátttöku og áhrif kvenna í stjórnmálum ætti sömuleiðis að vera bæði til þess fallið að rifja upp og læra en ekki síst til að hvetja okkur til frekari verka.

Ég vil enda á að taka undir með öðrum borgarfulltrúum um gleðina og hátíðleikann hér í dag. Kvennasamstaðan hér skiptir sannarlega máli. Ég er ekki síst þakklát ykkur öllum sem hér sitjið, konum sem hafið unnið innan ykkar flokka eða hreyfinga og með ykkar hætti og ykkar áherslum að því að styðja og styrkja stöðu kvenna.

Ég hlakka til að samþykkja þessar tillögur með ykkur og ekki síður að sjá þær í framkvæmd af því að ég er sannfærð um að það verður samfélaginu til góðs. Áfram stelpur!

Ræðan var flutt á hátíðarfundi kvenna í borgarstjórn, 31. mars 2015.

Ofurhetjur og kvikmyndir

Ágæta samkoma.

Mikið er gaman að fá að vera hérna með ykkur í dag og fá að taka þátt í ofurhetjuþema. Sjálf valdi ég mína uppáhalds ofurhetju og uppáhalds sögupersónu – Línu langsokk.

Þegar boðið barst átti ég fróðlegar umræður við börnin mín um ofurhetjur. Ég vildi vera Lína – en sonur minn átti erfitt með að skilgreina hana sem ofurhetju. Hann setti það skilyrði að ofurhetjur björguðu fólki úr hættu. Ég vil meina að Lína hafi aldeilis gert það – hún bjargaði Önnu og Tomma frá því að drepast úr prúðmennsku og leiðindum – hún lék á ræningja og löggur og barnaverndarfulltrúa sem ætluðu að senda hana á hæli.

En fyrst og fremst bjargaði Lína sjálfri sér. Þessi litla umkomulausa stelpa sá um sig sjálf – hún naut lífsins og gerði það besta úr aðstæðum sem margir myndu telja mjög slæmar.

Lína er svo sannarlega ofurhetja í mínum huga – og það sagði ég syni mínum.

Sextán ára dóttir mín var aftur á móti á því að ég þyrfti engan búning. Fyrir henni væri ég ofurhetja á hverjum degi. Ég kaus að heyra ekki kaldhæðnina í málrómnum – og velti því alls ekki fyrir mér hvort þetta væri sagt til að hún þyrfti ekki að skammast sín fyrir miðaldra móður í ofurhetjubúningi. –Og hversu einlæglega sem hún meinti það að ég væri ofurhetja hversdagsins – og hvort sem ég stend undir því eða ekki – að þá er ljóst að við getum leikið okkur með skilgreiningar á ofurhetjum eins og okkur sýnist.

Auðvitað erum við öll hetjur – með einum eða öðrum hætti. Við höfum öll glímt við vandamál – við höfum öll tekist á við erfið viðfangsefni. Hvort sem það hafa verið erfið skólaverkefni – erfið samskipti við vini eða fjölskyldur – slys eða áföll – eða hvort við höfum gert eitthvað til að vera góð við aðra – bjarga þeim frá leiðindum, sorg eða sársauka – við höfum öll verið hetjur á einhverjum tímapunkti.

Ofurhetjur kvikmyndanna eru skemmtileg fyrirbæri sem gleðja, efla og styrkja. Sumar eru mjög ýktar og fást við mjög ýkt verkefni – aðrar eru venjulegri sögupersónur – venjuleg börn eða unglingar eða fullorðnir og hafa enga yfirnáttúrulega hæfileika. Allar eru þær fyrirmyndir – sem hvetja okkur til að takast á við vandamál og viðfangsefni lífsins eftir bestu getu.

Kvikmyndir geta byggt á ævintýrum og raunveruleika – stundum annað hvort – stundum bland. Þær geta innihaldið ýktar ofurhetjur eða hversdagslegar sögupersónur – en hvort heldur sem er geta þær glatt okkur og elft okkur og styrkt okkur. Kvikmyndir eru mikilvægur hluti af menningunni okkar og geta tekist á við mikilvæg viðfangsefni samfélagins á áhrifaríkan hátt.

Það er mér sannur heiður að fá að vera hér við setningu barnakvikmyndahátíðar sem forseti borgarstjórnar – og sér í lagi barnamenningarhátíðar með friðarþema og áherslu á fjölmenningu, kynvitund, líkamsvirðingu og skapandi og gagnrýna hugsun.

Fyrir hönd Reykjavíkurborgar vil ég þakka skipuleggjendum hátíðarinnar fyrir mikilvægt framlag í þágu barnamenningar og mannréttinda í borginni – og hlakka til að fá að taka þátt í því sem framundan er.

Gleðilega hátíð!

Ávarpið var flutt við setningu barnakvikmyndahátíðar 19. mars 2015.

Stytting vinnuviku í Reykjavík

Nú um mánaðamótin hefst afar spennandi tilraunaverkefni í Reykjavík um styttingu vinnudags án launaskerðingar. Verkefnið nær til tveggja starfsstaða borgarinnar; annars vegar Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts og hins vegar Barnaverndar Reykjavíkur. Þjónustumiðstöðin mun loka klukkutíma fyrr alla virka daga en skrifstofa Barnaverndar verður lokuð eftir hádegi á föstudögum. Bakvakt og neyðarþjónustu verður sinnt með sama hætti og áður utan hefðbundins opnunartíma.

Markmiðið með tilraunaverkefninu er að kanna áhrif á vellíðan og starfsanda starfsmanna og þjónustu starfsstaðanna, bæði með tilliti til gæða og hagkvæmni. Þessir tveir tilteknu starfsstaðir voru valdir eftir mikla yfirlegu og var m.a. horft til þess að á báðum stöðum hefur starfsfólk unnið undir miklu álagi síðustu misseri.

Sífellt fleiri hafa á undanförnum árum talað fyrir styttingu vinnuvikunnar og ekki að ástæðulausu. Íslendingar vinna að jafnaði nokkrum klukkustundum lengur en aðrir Norðurlandabúar í viku hverri og þá hefur verið sýnt fram á að starfsánægja og afköst starfsfólks aukast hlutfallslega með styttri vinnutíma. Styttri vinnudagur getur þannig orðið ein leið til að auka framleiðni, öllum til hagsbóta.

Víða hefur tekist að stytta vinnuvikuna án þess að það hafi teljandi áhrif á afköst eða launakostnað. Það er því í raun lítið því til fyrirstöðu að skoða hvort slíkar aðgerðir séu framkvæmanlegar hér á landi. Það skref hefur Reykjavíkurborg nú stigið fyrst allra sveitarfélaga hér á landi að því er við best vitum.

Fjölskylduvænt samfélag og langur vinnutími fara ekki saman. Þess vegna bindum við sem störfum ásamt embættismönnum í stýrihóp tilraunaverkefnisins miklar vonir við verkefnið sem mun standa a.m.k. fram á haust þegar ákvörðun verður tekin um framhaldið með hliðsjón af reynslunni. Við vonumst til þess að hægt verði að taka stærri skref þegar tilraunaverkefninu lýkur svo koma megi á fjölskylduvænna samfélagi og tryggja aukinn jöfnuð og lífsgæði.

Greinin, sem er eftir undirritaða, Magnús Má Guðmundsson varaborgarfulltrúa og Helgu Jónsdóttur framkvæmdastjóra BSRB, birtist í Fréttablaðinu 2. mars 2015.

Kynbundið ofbeldi

Allt ofbeldi er hræðilegt. Slagsmál, stríð, einelti, andlegt og líkamlegt ofbeldi af öllum toga – allt er þetta hræðilegt og ömurlegt og mannkyninu til minnkunar. Ofbeldi er aldrei lausn á neinum vanda – þvert á móti veldur það vanlíðan og togstreitu fyrir einstaklinga og samfélög og eykur þannig á vanda heimsins – rétt eins og hann sé ekki nægur fyrir.

Til eru margar tegundir af ofbeldi, rætur þess má rekja til ólíkra þátta, ýmist hjá einstaklingum eða samfélögum.

Kynbundið ofbeldi er fyrst og fremst samfélagsmein. Því er vissulega beitt af einstaklingum og það bitnar á einstaklingum, en það á rætur sínar að rekja til samfélagsgerðarinnar. Og um leið og hægt er rekja kynbundið ofbeldi til samfélagsgerðarinnar – þá á það sinn þátt í að viðhalda samfélagsgerðinni – kynbundið ofbeldi er vítahringsfyrirbæri.

Kynbundið ofbeldi er á rætur sínar að rekja til menningar þar sem karlar og konur standa ekki jafnfætis. Það er afleiðing menningar sem skiptir eiginleikum, áhugamálum og hæfileikum í karllægt og kvenlægt, menningar sem metur það karllæga meira en það kvenlæga.

Kynbundið ofbeldi þrífst í menningu sem hlutgerir stelpur og konur – þar sem konum er ætluð prúðmennska og passívitet á meðan körlum er ætlað að taka sér pláss og fá sér það sem þeir vilja – að ekki sé talað um að þeim sé ætluð óseðjandi og stjórnlaus kynorka. Væntingar til stelpna og stráka – kvenna og karla – eru ósanngjarnar og óraunhæfar – þær skaða okkur öll og þær eru rótin að samfélagi þar sem kynbundið ofbeldi grasserar sem aldrei fyrr.

Stundum finnst mér ég vera orðin gömul – og stundum er það bara gott.

Ég man þegar femínískar kenningar um kynbundið ofbeldi áttu ekki upp á pallborið. Ég man þegar best þótti að kenna persónulegum brestum einstaklinga um gjörðir þeirra – í mesta lagi uppeldi og uppvaxtarskilyrðum. Ég man þegar samfélagsgerðin var fríuð allri ábyrð.

Í dag er öldin önnur – og aldeilis betri þegar kemur að þekkingu á ofbeldi, uppruna þess og afleiðingum – þar hefur aldeilis orðið jákvæð þróun, þó margt hafi breyst til hins verra eins og ég mun koma inn á hér á eftir.

Auðvitað þykir enn mörgum nóg um. Ég efast ekki um að einhverjum hafi þótt ég taka fullsterkt til orða nú þegar – en það verður að hafa það. Ég hef ekkert sagt sem ekki hefur verið kvittað uppá af opinberum stofnunum og fagaðilum sem vinna í málaflokknum.

Femínískar kenningar eru löngu viðurkenndar – þær eru notaðar af Sameinuðu þjóðunum – íslensk lög byggja á þeim, sem og flestar þær stofnanir og sérfræðingar sem vinna að málaflokknum hér á landi.

Í yfirlýsingu um afnám ofbeldis gegn konum frá 1993 er kynbundið ofbeldi skilgreint sem “ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga kvenna, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.”

Í sömu yfirlýsingu er byggt á sömu samfélagsgreiningunni og áður var lýst – um stigskipta tvíhyggju:

“Alsherjarþingið  viðurkennir að ofbeldi gagnvart konum er staðfesting á aldagömlu valdamisvægi kynjanna er leiddi til drottnunar karlmanna og mismununar gagnvart konum og hindraði öfluga framsókn kvenna – og að ofbeldi gagnvart konum er einn af þeim grundvallarþáttum í samfélaginu er leiðir til þess að konur eru settar skör lægra en karlmenn – hefur áhyggjur af því að sumir hópar kvenna, til dæmis konur í minnihlutahópum, innfæddar konur, flóttakonur, farandkonur, konur er búa í sveitum eða einangruðum samfélögum, blásnauðar konur, konur á stofnunum eða í fangelsum, stúlkur, fatlaðar konur, eldri konur og konur á stríðstímum, eru einkum beittir ofbeldi.”

Íslensk lög skilgreina kynbundið ofbeldi með svipuðum hætti.

Sumsé: Kynbundið ofbeldi er ofbeldi sem konur verða fyrir, kynferðis síns vegna.

Og svo það sé sagt, þá eru vissulega til karlar sem verða fyrir obeldi og konur sem beita ofbeldi – og það eru til pör eða sambönd sem ekki falla að kenningum kynjafræðinnar – þau dæmi eru alveg jafn alvarleg og hin – en þau eru undantekning, ekki regla og ég mun halda mig við femíníska greiningu á vandanum héðan í frá.

Ég man ekki til þess að hafa oft rökstutt umræðuefni hér í pontu – og auðvitað á ég ekki að þurfa að rökstyðja ástæðu þess að kynbundið ofbeldi hefur verið sett á dagskrá hér í borgarstjórn.  Ég ætla engu að síður að gera það – eða öllu heldur benda á mikilvægi þess að við lítum á kynbundið ofbeldi sem pólitískt viðfangsefni – að þeð sé hér til umræðu rétt eins og aðrir þeir hlutir sem borgaryfirvöld telja ástæðu til að hafa áhrif á – uppá gott og vont.

Kynbundið ofbeldi sem samfélagsleg meinsemd er að sjálfsögðu eitthvað sem við eigum öll hér inni að beita okkur gegn – það er hægt að gera með fjölbreyttum aðferðum á öllum sviðum borgarinnar – því í raun og veru er kynbundið ofbeldi bara ein af birtingarmyndum misréttis kynjanna – hún er ljótasta birtingarmyndin – hún er til marks um mikilvægi þess að við beitum okkur gegn öðrum og léttvægari birtingarmyndum.  Ef okkur er alvara – þá verðum við að uppræta staðalmyndir – gefa börnum tækifæri á að rækta með sér hæfileika og áhugamál óháð fyrirframgefnum stöðluðum hugmyndum samfélagsins – þá verðum við að mennta börn til gagnrýnnar hugsunar – þá verða öll svið og allar stofnanir að stuðla að fjölbreyttum tækifærum stelpna og stráka og karla og kvenna og þá verðum við að útrýma kynbundnum launamun. Þá verðum við líka að bjóða upp á þjónustu sem stuðlar að jafnari tækifærum beggja foreldra og svona gæti ég haldið áfram í allan dag.

Og kynbundið ofbeldi er ekki eitthvað smotterí – eitthvað séráhugamál mussukellinga eða vandamál sem þolendur verða að glíma við. Kynbundið ofbeldi hefur áhrif á líf okkar allra með beinum eða óbeinum hætti – enda benda rannsóknir til þess að allt að 40% kvenna, 16 ára og eldri, hafi orðið fyrir ofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni. Allar þessar konur eiga fjölskyldu og vini – sem ofbeldið mun jafnframt hafa áhrif á. Klámiðnaðurinn, vændi og tilheyrandi mansal er talið vera einhver umfangsmesta glæpastarfsemin í heiminum í dag – ásamt eiturlyfjum og ólöglegum vopnaviðskiptum.

Þess vegna er kynbundið ofbeldi á dagskrá í dag. Af því að við teljum okkur bera umtalsverða áhrif sem stjórnmálafólk og af því að við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að sporna gegn því. –Og þá tel ég mig hafa rökstutt dagskrárliðinn – og get haldið áfram að ræða viðfangsefnið sjálft.

Birtingamyndir kynbundins ofbeldis eru margar – andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi – sjaldnast ein báran stök. Í kynferðislegu ofbeldi felst líkamlegt og andlegt ofbeldi – það segir sig sjálft.  Kynferðislegt ofbeldi getur svo birst með ýmsum hætti – en til þess telst kynferðisleg áreitni, sifjaspell, nauðganir, klám og vændi. Klám og vændi er svo nátengt mansali sem er ofbeldi út af fyrir sig.

Hér gætum við nefnt ótal dæmi – við þekkjum öll sögur um fulla kallinn og undirgefnu konuna – eða um konuna sem er nauðgað í húsasundi – eða um stelpuna sem ætlaði að verða au-per en er læst inni í gluggalausu herbergi og seld. Þetta eru því miður ekki óraunsæ dæmi – þau eru til – en ofbeldið á sér svo miklu fleiri og fjölbreyttari sögur. Því miður. Ofbeldi þrífst líka meðal fallega og ríka fólksins – konum er nauðgað af eiginmönnum sínum í eigin rúmi og mansal fer fram án sýnilegra kúgunartækja. Og þessar sögur eru ekki óraunsæar – þær eru til – því miður.

Þó einhverjir vilji halda í hugmyndina um hamingjusömu hóruna er löngu vitað og löngu þekkt að hún er alger undantekning, vændi er fyrst og fremst neyðarbrauð hjá  þeim sem það stunda – og í raun ekkert annað en nauðgun sem greitt hefur verið fyrir. Sama gildir um klám – sem er verra ef eitthvað er – nauðgun sem greitt hefur verið fyrir og fest á filmu.

Þær tegundir kynbundins ofbeldis sem ég hef hér talið upp eru kannski að verða úreldar – kannski er þetta ekki nógu nákvæmt – eða kannski er ofbeldið bara aðeins öðruvísi í dag en það var í gær og allavega pottþétt öðruvísi en fyrir hundrað árum.

Og þó. Kynbundið ofbeldi er jafngamalt samfélagsgerðinni okkar – það hefur sjálfsagt alltaf verið til. En það hefur þróast með samfélaginu til góðs og slæms. –Og það er kannski ekkert úr vegi að velta því fyrir sér, nú þegar um 100 ár eru liðin frá því konur fengu kosningarétt á Íslandi – hvað hafi breyst hvað ofbeldi varðar.

Auðvitað var kynbundið ofbeldi til fyrir 100 árum – konur voru hlutgerðar, þær lamdar og þeim nauðgað. Vændi hefur án efa verið til og byggst á sömu lögmálum og í dag – að langflestar vændiskonur hafi selt sig af neyð – og að hlutverk melludólga hafi verið áþekkt því sem nú þekkist að teknu tilliti aðstæðna. Klám var aftur á móti snúnara fyrir hundrað árum en í dag – framleiðsla og dreifing var mun erfiðari.

Í raun má segja að ofbeldi gegn konum hafi verið beitt í nokkuð þegjandi sátt hér í Reykjavík allt þar til konur tóku sig saman á níunda áratug síðustu aldar og stofnuðu kvennaathvarf. Allt fram að því voru engin almenn úrræði fyrir konur sem beittar voru ofbeldi – það var á ábyrgð þeirra og nánustu aðstandenda. Stuttu síðar komu Stígamót til sögunnar sem veittu þolendum kynferðislegs ofbeldis ráðgjöf og stuðning.

Eins og ég sagði áðan – þá hefur þróun kynbundins ofbeldis bæði verið jákvæð og neikvæð. Mikil og ör þróun hefur átt sér stað þegar kemur að réttaröryggi og þjónustu við þolendur ofbeldis – Kvennaathvarf og Stígamót hafa verið leiðandi öfl á því sviði – ásamt mikilvægum samtökum á borð við rauðsokkur, kvennaframboð, kvennalsita, kvenréttindafélagið og femínistafélagið.

Lögreglan hefur tekið við sér, saksóknaraembættið líka og talsverðar lagabætur hafa átt sér stað. Bann við kaupum á vændi, austurríska leiðin, afnám firningarákvæða  og bætt réttarstaða þolenda skiptir gríðarlegu máli – og gerir fyrrgreindum embættum auðveldara að tryggja öryggi og sanngjarna málsmeðferð hverju sinni.

Skömmin hefur verið flutt þangað sem hún á heima – ofbeldi er á ábyrð þess sem það fremur. –Eða sko, þannig á það að vera – þannig viljum við að það sé – við vitum að það er pólitískt rétta nálgunin. Við stöndum með þolendum sem stíga fram og segja sögu sína – við dáumst að hugrekki þolenda og styrk þegar þeir vinna í sínum málum, hvetjum og styðjum.

En. Aðeins að einu skilyrði uppfylltu. Einu mjög mikilvægu skilyrði.

Við skulum standa með þolendum, dást að þeim og styðja að því gefnu að gerandinn sé hvergi nefndur á nafn. Það er algert skilyrði að gerandinn sé skilinn eftir nafnlaus og persónulaus – að enginn sé ásakaður um verknaðinn – hvað þá kærður. Við stöndum með þolendum nafnlauss ofbeldis – ofbeldis sem gerist bara – verður bara til af sjálfu sér.

Kæri þolandinn gerandann – þá er veruleikinn annar. Þá splittast fjölskyldur og vinahópar – kommentakerfin fyllast og þolandinn má búast við árásum og svívirðingum, jafnt prívat sem á opinberum vettvangi.

Við erum ekki komin lengra en svo. Við stöndum með þolendum og viljum ekki að þeir axli ábyrgð á kynbundnu ofbeldi – en við erum ekki komin nægilega langt til að færa ábyrgðina lengra en hálfa leið. Að standa með þolendum gegn gerendum er hægra sagt en gert – og þar eigum við allt of langt í land.

Ég hef ekki lausn á reiðum höndum – enda væri sjálfsagt búið að beita henni, væri hún til. Áframhaldandi fræðsla – áframhaldandi umræða – áframhaldandi vitundarvakning er það sem þarf – umræður hér og þar og allsstaðar.

Þróun ofbeldisins sjálfs – burtséð frá viðbrögðum og þjónustu við þolendur – hefur verið veruelga slæm. Kynbundið ofbeldi hefur frekar aukist en minnkað – og fagaðilar í málaflokknum tala um að það verði stöðugt grófara og fjölbreyttara.

Klámiðnaðurinn óx og dafnaði samhliða tækniþróun í mynda- og kvikmyndatöku og miðlun efnis á síðustu öld – og hefur hreinlega blómstrað með tilkomu internets og snjallsíma á þessari öld.

Það er raunverulegt áhyggjuefni hversu hratt tæknin virðist vera nýtt í þágu ofbeldis – gegn stúlkum og gegn konum – og nýjasta dæmið – svokallað hefndarklám – er líklega einhver ógeðfelldasta birtingarmyndin sem komið hefur fram – enda áhrifaríkt og ógnvekjandi kúgunartæki.

Hefndarklám – það að birta og/eða dreifa myndum af einstaklingum án vitundar eða samþykkis viðkomandi er næsta kynslóð kynferðisofbeldis – og því miður erum við berskjöldið og óvarin sem samfélag – rétt eins og börn og unglingar sem virðast vera að lenda í klóm þessa menningarafkima með afleiðingum sem við eigum enn eftir að sjá hver verða.

Hefndarklám á sér margar hliðar og er til komið af ýmsum ástæðum – en það er sannarlega kynbundið – gerendurnir eru í flestum tilfellum karlar og þolendurnir konur. Eða kannski öllu heldur strákar og stelpur – þó mörg dæmi séu um fullorðið fólk. -Og aftur ítreka ég að til eru undantekningar með öfugum kynjahlutföllum – en vandinn er kynbundinn, rétt eins og aðrar þær tegundir sem hér hefur verið fjallað um.

Fyrstu viðbrögð við þessari tiltölulega nýju leið eða tegund ofbeldis virðast hafa verið að reyna að fá stelpur til að senda ekki af sér myndir. Umhugsunarlaus og kannski eðlileg fyrstu viðbrögð – en jafnröng og að segja stelpum að klæðast ekki stuttum pilsum, vilji þær forðast nauðgun.

Næstu viðbrögð – og sú stemning sem nú virðist ríkja í samfélagi sem er rétt að byrja að takast á við vandann er sú að  setja ábyrgðina á gerandann – að brýna mikilvægi trausts fyrir drengjunum og fría stúlkur ábyrgð. Það eru kannski eðlilegri viðbrögð – og mun betri en að setja ábyrgðina á stelpurnar – en ég er hrædd um að hvorugt virki.

Við verðum í þessu sem öðru að skoða samfélagsgerðina og þann menningarafkima sem hefndarklámið er sprottið úr – þá menningu sem virðist hafa skapast meðal unglinga og ungmenna að það sé sjálfsagt og eðlilegt að senda nektarmyndir út um allar trissur – að það sé sjálfsagt og eðlilegt að krefjast nektarmynda – hvað þá að það sé í lagi að misnota svo það traust sem í slíkum sendingum felst.

Þessi menning er tiltöluega nýtilkomin – en stórundarleg og virðist vera að hreiðra um sig á unglingastigi og í framhaldsskólum. Pressan er á bæði kyn – á stráka að afla nektarmynda og dreifa þeim – og á stelpur að senda nektarmyndir og vona það skársta.

Við verðum að leggja okkur fram um að brjóta þetta upp og hjálpa börnum að bera ábyrgð á sjálfum sér, standa undir því trausti sem þeim er sýnt og sýna hverju öðru tihlýðilega virðingu.

Þetta snýst ekki bara um eitthvað unglingafikt. Þessar gjörðir geta haft gríðarlegar afleiðingar í för með sér – myndirnar ferðast um með ljóshraða án þess að nokkur hafi stjórn þar á.

Og af hverju hef ég áhyggjur af því? –Jú – hér erum við komin á nýtt stig í klámvæðingunni – og hlutgervingu kenna. Áhrif klámvæðingarinnar eru þekkt – hlutgerving kvenna og tilvist klámmynda af kynsystrum mínum hafa haft umtalsverð áhrif á stöðu kvenna og möguleika í lífinu. Staða mín og möguleikar eru takmarkaðir af hlutgervingu kvenna sem ég þekki ekki neitt – en hafa lent í klóm klám- og vændisiðnaðarins.

Við getum bara rétt ímyndað okkur hvaða áhrif það hefur þegar myndirnar eru ekki bara af ókunnugum kynsystrum – heldur af okkur sjálfum. Þegar stelpurnar sem núna í sakleysi og vegna pressu senda myndir í fíflagangi sem svo fara á flakk og enda hvar sem er um ókomna tíð. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig þeim á eftir að ganga í atvinnuviðtölum, forvölum eða kosningabaráttum framtíðarinnar – þori þær yfir höfuð að taka slagi vitandi hvað leynist í farteski internetsins.

Hefndarklám er ný kynslóð kynferðisofbeldis – illvíg og stórhættuleg. Það er afleiðing af menningu sem hefur skaðleg á stelpur og stráka, konur og karla – og samfélagið í heild sinni.

Hvað er til ráða? –Hvað getum við gert? –Fjölmargt, sem betur fer. Og við erum að gera heilan helling. Fyrst og fremst verðum við að halda umræðunni á lofti – vera vakandi og beita okkur á öllum þeim sviðum sem við getum og höfum aðstæður til.

Reykjavík tekur nú þegar þátt í sérstöku átaki gegn heimilisofbeldi, jafnréttisskólinn undirbýr fræðslu um meðferð samfélagsmiðla og snjalltækja, við erum með aðgerðaráætlun gegn ofbeldi gegn konum og börnum og höfum farið í sérstakt átak gegn kynferðislegri áreitni í borginni. En við getum gert betur – og við eigum að gera betur.

Mannréttindaskrifstofa, velferðarsvið, barnavernd, skóla- og frístundasvið og í raun öll svið og allar stofnanir geta lagt sitt af mörkum. Munum að kynbundið ofbeldi er bara ein af birtingarmyndum kynjamisréttis – sú ljótasta – og sú allra brýnasta að sporna gegn – en við verðum að taka á öllum hliðum málsins og stuðla að frjálsara og umburðarlyndara samfélagi þar sem karlar og konur standa jafnfætis og ofbeldi í krafti yfirburða eða vanmats þrífst ekki. Ég heiti því að gera það sem í mínu valdi stendur og þykist þess fullviss að allir hér inni eru sama sinnis.

Ræðan var flutt í borgarstjórn 3. febrúar 2015.

100 ára afmæli kosningaréttar kvenna

Árið 1863 tók fyrsta konan þátt í kosningum á Íslandi. Það var Madama Vilhelmína Lever, sem kaus til bæjarstjórnar á Akureyri, tæpum 20 árum á undan öðrum konum.

Ástæðan er sú að skv. danskri reglugerð sem þar var við lýði kom fram að allir fullstöndugir menn sem væru fertugir, sjálfs sín ráðandi og greiddu 2 ríkisdali í útsvar skyldu hafa kosningarétt.

Vilhelmína uppfyllti öll þessi skilyrði. Hún átti og rak veitingahús í bænum, var fertug, fullstöndug og greiddi útsvar. Og hún var vissulega maður skv. íslenskri tungu, þó konur hafi alla tíð samsamað sig misvel með hugtakinu. -Danska hugtakið mænd á þó eingöngu við um karla – og andi reglugerðarinnar hafði sannarlega ekki verið að koma Vilhelmínu eða öðrum kynsystrum hennar til áhrifa.

Vilhelmína kaus engu að síður – bæði árið 1863 og aftur 1866, en þá brást kerfið við, danska stjórnarráðið kippti þessu í liðinn með nýrri þýðingu þar sem kosningaréttur kvenna var afturkallaður.

Tæpum 20 árum síðar öðluðust konur kosningarrétt í sveitarstjórnarkosningum og fyrstu konurnar tóku sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1908, þær Katrín Magnússon, Þórunn  Jónassen, Guðrún Björnsdóttir og Bríet Bjarnhéðinsdóttir.

Sjö árum eftir það, árið 1915 fengu konur svo kosningarétt til Alþingis – þó aðeins 40 ára og eldri og það var ekki fyrr en árið 1920 sem konur og karlar höfðu jafnt aðgengi að lýðræðislegum kosningum – karlar og konur 25 ára og eldri.

Réttindabarátta kvenna hefur verið löng og ströng – á henni eru margar vörður sem allar hafa skipt máli. Ekki síst aðgerðir eldhuga og brautryðjenda á borð við Vilhelmínu Lever, sem hefur eflaust mætt vænum skammti af mótlæti og fordómum.

Fyrir 7 árum fagnaði Reykjavíkurborg því  að 100 ár voru liðin frá því konur tóku fyrst sæti í borgarstjórn. Þá var haldin sýning á ræðum og tillögum kvennanna, kvenkyns borgarfulltrúar komu saman og áhrifum kvenna fagnað með ýmsum hætti.

Ein athyglisverðasta aðgerðin sem samþykkt var af því tilefni – en komst ekki til framkvæmda fyrr en mörgum árum síðar – var að nefna götur í Reykjavík í höfuðið á þessum fjórum konum. Þá var Höfðatúni, Sætúni, Skúlatúni og hluta af Skúlagötu breytt í Katrínartún, Bríetartún, Guðrúnartún og Þórunnartún. Falleg og táknræn aðgerð og vekur fólk til umhugsunar um þessar kjarnakonur sem tóku sér pláss í karllægum heimi stjórnmálanna og ruddu brautina fyrir okkur hinar.

Sú aðgerð – stóra nafnabreytingatillagan – sýndi, svo ekki verður um villst – að jafnrétti kemur ekki af sjálfu sér – kvennabaráttan tekur tíma og engar breytingar fara í gegn mótbárulaust.

En nú erum við hér í dag – árið er 2015 og þann 19. júní verða 100 ár liðin frá því konur, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt. Því ber að fagna – og því ætlum við að fagna.

Við gætum að sjálfsögðu beðið fram til ársins 1920 – þegar konur 25 ára og eldri fengu kosningarétt – en það er fullt tilefni til frekari hátíðarhalda þá til viðbótar – vörðurnar eru eins og áður segir allar merkilegar!

Forsætisnefnd hefur verið falið það hlutverk að halda utanum afmælisárið og eftir umræður og vangaveltur hefur verið ákveðið að standa fyrir 100 viðburðum í tilefni af árunum 100.

Fyrsti viðburður ársins er að minnast þessa áfanga hér í borgarstjórn Reykjavíkur – að við fögnum áfanganum og förum yfir það sem stendur til og þegar hefur verið ákveðið að gera.

Leiðarljós viðburðanna og verkefnanna verður að fagna þeim árangri sem náðst hefur í kvennabaráttunni, en hvetja á sama tíma til frekari vinnu og framfara á meðan fullu jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð. Viðburðirnir verða af öllum stærðum og gerðum og munu dreifast yfir árið. Miðað er við að allir viðburðir verði aðgengilegir og að boðið verði upp á túlkun þar sem það á við.

Sumir viðburðanna hafa þegar verið skipulagðir, aðrir eru enn á hugmyndastigi – en forsætisnefnd mun fjalla um verkefnið, móta það og þróa á öllum fundum sínum á árinu.

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir verður verkefnisstýra afmælisársins og mun halda utanum viðburði og verkefni og samskipti við fagráð og fyrirtæki í eigu borgarinnar – og Facebooksíðu sem hefur verið sett á laggirnar undir því þjála en gagnsæja heiti Reykjavíkurborg fagnar 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Ég hvet ykkur til að “læka” síðuna og fylgjast með upplýsingum um viðburði og fróðleiksmolum um sögu og áhrif kvenna.

Þar verður m.a. sett inn umfjöllun um “konu vikunnar”, en tvær hafa þegar hlotið þann eftirsóknarverða titil – þær Rósa Luxemburg og Simone de Beauvoir.

Eins og kemur fram í minnisblaði sem sent var út með gögnum fundarins hafa þegar verið fastsettir 14 viðburðir – listasýningar, fundir, ráðstefnur og árlegir viðburðir sem verða nýttir til að fagna áfanganum með einhverjum hætti.

Þannig má gera ráð fyrir að það sjáist með einhverjum hætti á hátíðardagskrá 17. júní, sjómannadagsins, menningarnætur og fleiri fastsettra viðburða að 100 ár eru liðin frá kosningarétti kvenna – ásamt fjölda viðburða í samstarfi við hagsmuna- og grasrótarsamtök á sviði kvenfrelsismála.

Mun fleiri viðburðir eru í deiglunni – og unnið upp úr hundruðum hugmynda sem komu fram á sérstökum samráðsfundi með kvennahreyfingunni í Höfða í haust til að undirbúa hátíðarhöldin. Má þar nefna hugmynd um opinn míkrófón fyrir konur, tónleika víða um borg, göngu um kvennasöguslóðir með grunnskólanemendur, fund með borgarfulltrúum kvennaframboðs, samstarf við Druslugöngu og Gleðigönguna, Stelpur rokka, skapandi sumarhópa og götuleikhús – auk sýninga og funda á vegum og vettvangi borgarinnar um viðvarandi verkefni í þágu kynjajafnréttis.

Ennfremur er óskað eftir áhugasömum samstarfsaðilum í Reykjavík – hafi borgarbúar, fyrirtæki eða hagsmunasamtök hugmynd að verkefni eða viðburði, þá tökum við öllu slíku fagnandi – og er fólk hvatt til að hafa samband á kosningar@reykjavik.is

Ég er viss um að þetta verður skemmtilegt ár – og næstum viss um að okkur tekst að koma viðburðunum 100 í verk. Ég vona það alla vega.

Það er sannarlega fagnaðarefni að hundrað ár séu liðin frá ólýðræðislegu samfélagi gamalla daga – tilefni til að gleðjast og halda baráttunni áfram fyrir lýðræðislegu, opnu og sanngjörnu samfélagi þar sem konur og karlar af öllum gerðum og stærðum fá notið sín.

Til hamingju með daginn og árið – megi það verða okkur öllum til góðs!

Ræðan var flutt í borgarstjórn 20. janúar 2015

Sveitarfélög eru ekki fyrirtæki

Frumvarp um afnám lágmarksútsvars hefur verið lagt fram á Alþingi enn eina ferðina. Markmiðið virðist vera að auka frelsi sveitarstjórna og takmarka óhófleg afskipti löggjafans. Afnáminu er ætlað að leiða til jákvæðrar samkeppni milli sveitarfélaga með tilliti til útsvarsgreiðslna.

Ha?

Hvernig geta það talist óhófleg afskipti að kveða á um lágmarksútsvar í lögum, þegar það telst eðlilegt að hafa ákvæði um hámarksútsvar? –Og hvernig er hægt að fullyrða að ekki sé verið að leggja til breytingar á lögbundnu hlutverki sveitarfélaganna?

Þessi skilgreining á frelsi og afskiptum er þröng og tækifærissinnuð. Hún er kunnugleg og til þess eins gerð að þjóna markmiðum frjálshyggjunnar um lægri skatta án þess að afleiðingar fyrir samfélagið séu kannaðar til hlítar.

Hlutverk sveitarfélaga

Lögbundnar skyldur sveitarfélaga eru margar og flóknar og felast m.a. í rekstri grunnskóla, félagslegs húsnæðis og sorphirðu. Ólögbundin verkefni eru síst færri en ekki síður mikilvæg.

Verkefnin kosta peninga. Mest er fjármagnað með útsvarinu, sem byggir á samfélagssáttmála um að við fjármögnum ákveðna grundvallarþjónustu í sameiningu. Auðvitað ríkir ágreiningur um hversu stór hluti verkefnanna skuli fjármagnaður með útsvarinu, hvort þau skuli fjármögnuð að fullu eða hvort notendur beri að greiða hluta. Aldrei nokkurn tímann hefur þó verið stungið upp á annarskonar tekjuöflun að fullu.

Sveitarfélög eru ekki fyrirtæki

Samkeppnissjónarmið frumvarpsins halda ekki, enda ekki um fyrirtæki að ræða heldur samfélög. Verkefni sveitarfélaganna eru ekki vara sem hægt er að bjóða á afslætti, ekki frekar en verkefni heimila eða fjölskyldna. Sveitarfélögin eru mynduð utanum þessi verkefni og íbúarnir fjármagna þau og framkvæma með lýðræðislegum aðferðum. Aftur tek ég fram að auðvitað er ágreiningur um fjármögnun eða framkvæmd einstakra verkefna, en ekki fyrirkomulagið í heild.

Eigi sveitarfélög að keppa um eitthvað, þá er margt mikilvægara en útsvarið. Lífsgæði, menntun, frístundir, umhverfi, samgöngur og húsnæði og hvernig hægt sé að nýta fjármunina sem best í þágu samfélagsins alls.

Annars konar samfélag

Frumvarp um afnám lágmarksútsvars endurspeglar gerbreytta hugmyndafræði, þar sem gert er ráð fyrir möguleikanum á að ekkert útsvar verði innheimt. Frumvarpið boðar rof á þeirri sátt sem ríkt hefur um að íbúar fjármagni verkefni sveitarfélaganna í sameiningu og kynnir til leiks hugmyndafræði um sveitarfélög sem fyrirtæki sem bjóði varning á hagstæðum kjörum. Það væri mikil afturför og því óskandi að Alþingi hafni frumvarpinu.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 11. desember 2014

Réttlátari Reykjavík

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015 hefur nú verið samþykkt. Hún endurspeglar pólitískar áherslur og forgangsröðun meirihluta borgarstjórnar í öllum málaflokkum. Við megum vera stolt af áætluninni og þeim ríku áherslum sem þar koma fram á mannréttindi, velferð, umhverfi og réttlátara samfélag almennt.

Velferð

Fjölmörg verkefni eru fyrirhuguð til að stuðla að bættri velferðarþjónustu. Þar vegur þyngst áætlun um að fjölga félagslegum leiguíbúðum um 500 á næstu árum, nokkuð sem við Vinstri græn höfum talað fyrir lengi. Samhliða því verður unnið að uppbyggingu búsetuúrræða fyrir fatlað fólk og eflingu þjónustu utan kjarna fyrir þann hóp. Stórbætt þjónusta ferðaþjónustu fatlaðra á að verða að veruleika og samþætting heimahjúkrunar og heimaþjónustu í öllum hverfum mun leiða til betri og heildstæðari þjónustu.

Barnafjölskyldur

Á næsta ári verða stigin skref til að létta byrðum af barnafjölskyldum í áætluninni í samræmi við ákvæði í samstarfssáttmála meirihlutaflokkanna. Námsgjöld í leikskóla lækka um 6%, veittur verður systkinaafsláttur þvert á skólastig og frístundakortið hækkar um 5000 krónur. Á næstu árum verða fleiri skref stigin og þannig munum við, hægt en bítandi, vinna að bættum hag barnafjölskyldna á kjörtímabilinu. Auk þess verður farið í fjölmörg verkefni til að stuðla að enn betra skóla- og frístundastarfi og til að tryggja aðgengi og þátttöku allra barna.

Umhverfismál

Á umhverfis- og skipulagssviði verður áfram unnið að bættum aðstæðum fyrir hjólandi og gangandi og vinnan við hverfissskipulag mun halda áfram, byggð á nýju aðalskipulagi. Við erum að taka upp sjálfsagt og eðlilegt skipulagsgjald á umhverfis- og skipulagssviði og auka kostnaðarhlutdeild bifreiðaeigenda þegar kemur að rekstri bílastæða í miðborginni. Stætó mun auk þess hefja akstur fyrr á sunnudagsmorgnum. Þannig stuðlum við að vistvænni lifnaðarháttum borgarbúa með ýmsum hætti, með þéttari byggð, bættri nærþjónustu, huggulegra borgarumhverfi og umhverfisvænni samgöngum.

Kvenfrelsi og mannréttindi

Fjölmörg verkefni eru í áætluninni í þágu mannréttinda, auk þess sem femínískar áherslur eru mjög ríkjandi. Áfram verður unnið að aðgerðum til að útrýma kynbundnum launamun, m.a. með endurskoðun starfsmats borgarinnar og uppsögn aksturssamninga, en mælingar hafa sýnt mikinn kynbundinn mun á akstursgreiðslum. Þá verður farið í víðtækar aðgerðir gegn heimilisofbeldi í samstarfi við lögregluna að fyrirmynd þess sem gert hefur verið á Suðurnesjum og reynst vel. Unnin verður móttökupakki fyrir nýja íbúa í Reykjavík með helstu upplýsingum og áfram verður unnið að því að laða til borgarinnar sem fjölbreyttastan hóp fólks. Endurskoðun mannréttindastefnunar stendur svo fyrir dyrum, enda hefur fjölmargt breyst frá árinu 2006 þegar hún var fyrst samþykkt.

Gott samstarf – góð áætlun

Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata lofar góðu. Þessi fyrsta fjárhagsáætlun er vísbending um það sem koma skal, um að við munum vinna saman að réttlátari borg, þar sem almannahagsmunir eru hafðir að leiðarljósi í nútíð og framtíð, þar sem börnin okkar og umhverfið njóta vafans, þar sem fjölbreytileikanum er fagnað og þar sem velferðin er í fyrirrúmi.

Greinin birtist í DV 5. desember 2014